Graeme Souness, sparkspekingur Sky Sports, var bálreiður út í bæði Etienne Capoue, leikmann Watford og Anthony Taylor, dómara eftir leik Watford og Crystal Palace í gær.
Margir eru á því máli að Capoue hafi átt að fá beint rautt spjald eftir ljótt brot á Wilfried Zaha.
Taylor virtist sjá atvikið mjög vel og gaf Capoue gult spjald. Eitthvað sem Souness skilur ekki.
,,Capoue vildi meiða Zaha. Þetta er mjög slæmt þegar þú horfir á atvikið,“ sagði Souness við Sky Sports.
,,Sjáðu hvar dómarinn er staðsettur, hann klúðraði þessu algjörlega. Sjáðu hvar boltinn er þegar hann fer í Zaha.“
,,Þetta segir mér að Taylor skilji ekki fótbolta. Capoue er að reyna að meiða hann illa. Hann var í mikilli hættu á að meiðast á hásin sem gæti gert það að verkum að þú verður aldrei sami leikmaður.“