Lokakeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta er stærsta og vinsælasta íþróttamót heims. Í gegnum árin höfum við Íslendingar þurft að horfa á viðureignir stóru þjóðanna og þurft að velja okkur landslið annarra þjóða til þess að styðja og halda upp á. Sumir hrífast af leikmönnum ákveðinna þjóða en aðrir velja sér landslið út frá einhvers konar tengingu við landið, til dæmis vegna fyrri búsetu.
Eins og flestir vita geta Íslendingar fylgst með sínu eigin liði á HM í ár en þó er alltaf gott að hafa varaáætlun ef allt fer á versta veg. DV fór því á stúfana og spurði þekkta Íslendinga hvað væri lið nr. 2 á HM í Rússlandi. Úttektin birtist í helgarblaði DV og hér er birt brot af henni.
Stefán Pálsson:
„Úrúgvæ hefur alltaf verið mitt lið,“ segir Stefán. Hann segir ástæðuna að einhverju leyti vera sagnfræðilega og bendir á að Úrúgvæ hafi borið sigur úr býtum á fyrsta heimsmeistaramótinu árið 1930. Þá heilli hann einnig að Úrúgvæ sé smáþjóð, enda aðeins um þrjár milljónir íbúa þar í landi. „Sé horft til þess þá eru þeir mesta fótboltaþjóð heims. Þeir rúlla okkur Íslendingum upp þegar kemur að öllum höfðatölum. Þeir eiga frábæra leikmenn sem eru prímadonnur í sínum félagsliðum en þegar þeir koma saman þá pakka þeir í vörn og berjast sem eitt lið. Þetta er íslenska liðið með hæfileika,“ segir sagnfræðingurinn.
Einn dáðasti rithöfundur landsins er á sama máli.
Yrsa Sigurðardóttir
„Ég hef ákveðið að halda með Úrúgvæ, eingöngu vegna þess að það heldur ábyggilega enginn með þeim nema innfæddir. Það fer ekkert sérstaklega mikið fyrir þeim í það minnsta. Ef við vinnum ekki er best að Úrúgvæ vinni. Egyptaland má svo vera í öðru sæti.“
Aðrir eru að vinna með sömu heimsálfu
Dóra Björt Guðjónsdóttir
„Perú. Því mér þykir vænt um landið. Einu sinni fór ég til Perú í bakpokaferðalagi um Suður-Ameríku og smakkaði Ceviche í fyrsta sinn, perúskan fiskrétt. Það er ekki frásögur færandi nema vegna þess að meðan á þessari dásamlegu máltíð stóð, sem var alveg svakalega góð, slysaðist ég til þess að gleypa risa chili-flykki í nánast heilum bita, enda hélt ég að þar væri hálfslöpp tómatsneið á ferð. Allt starfsfólkið kom askvaðandi til að reyna að bjarga málunum og hjálpa mér. Það fór að leka úr öllum götum, mér leið eins og allur líkaminn væri að brenna upp og það eina sem hjálpaði var að skella í kjaftinn nokkrum skeiðum af strásykri. En þetta er eftirminnilegt.“