fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Sport

Leikmennirnir sem fóru úr utandeild í úrvalsdeild

Sigruðust á mótlætinu og spiluðu í skemmtilegustu deild heims – Michail Antonio, Troy Deeney, Jamie Vardy og allir hinir

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 11. febrúar 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður þarf ekki að hafa slitið barnsskónum í unglingaakademíum Barcelona, Manchester United, Liverpool eða Arsenal til að geta náð langt í ensku úrvalsdeildinni – þótt dæmi þess séu vissulega mörg. Margir þekktir leikmenn, leikmenn sem í dag eru landsliðsmenn, stigu sín fyrstu skref í fullorðinsfótbolta í ensku utandeildinni.


Mynd: EPA

Troy Deeney

Aldur: 28 ára
Félag: Watford
Spilaði í utandeildinni: 2004–2006

Í raun réð ótrúleg tilviljun því að framherjinn Troy Deeney, sem í dag er fyrirliði Watford, fékk samning hjá sæmilega stórum klúbbi. Árin 2004 til 2006 spilaði Deeney með utandeildarliðinu Chelmsley Town. Mick Halsall, njósnari neðrideildarfélagsins Walsall, var á svæðinu og hugðist horfa á annan leik. Svo óheppilega vildi til að þeim leik var frestað vegna veðurs og ákvað Mick þess í stað að horfa á son sinn í utandeildinni, en liðið var að fara að mæta Deeney og félögum í Chelmsley Town. Leikurinn endaði 11–4 Deeney og hans mönnum í vil og skoraði okkar maður sjö mörk í leiknum. Halsall hikaði ekki og bauð Deeney, sem þá var 17 ára, að koma til Walsall til reynslu. Rúmum áratug síðar er Deeney fyrirliði Watford og í miklum metum hjá félaginu. Til marks um það hafnaði Watford 25 milljóna punda tilboði frá Englandsmeisturum Leicester í leikmanninn í fyrrasumar.


Mynd: EPA

Michail Antonio

Aldur: 26 ára
Félag: West Ham
Spilaði í utandeildinni: 2007–2008

Uppgangurinn á ferli Michails Antonio hefur verið mikill undanfarin misseri en áður en síðasta tímabil hófst hafði Antonio aldrei spilað í úrvalsdeildinni. Í dag er hann landsliðsmaður Englands. Antonio ólst upp hjá litlu Lundúnafélagi, Tooting & Mitcham United, þar sem hann lék frá 2002 til 2008. Það ár var hann seldur til Reading en sendur strax í lán til ýmissa félaga næstu árin. Antonio samdi svo við Sheffield Wednesday árið 2012, Notthingham Forest árið 2014 og West Ham árið 2015 þar sem hann hefur slegið í gegn. „Ég veit að það eru margir sem kunna ekki að meta það hversu góðir í fótbolta þeir eru. En ég kann að meta það. Ég fór ekki í gegnum neina akademíu en hafði alltaf þá trú að ég gæti orðið atvinnumaður,“ sagði Antonio við FourFourTwo.


Kevin Phillips

Aldur: 43 ára
Félag: Hættur
Spilaði í utandeildinni: 1991–1994

„Ég ólst upp hjá Southampton en var látinn fara á frjálsri sölu,“ segir Kevin Phillips, markakónur Evrópu tímabilið 1999 til 2000. Phillips var 18 ára þegar hann yfirgaf Southampton og í kjölfarið reyndi hann að komast að hjá öðrum félögum en það gekk erfiðlega. „Ég skrifaði bréf til nánast allra klúbba í landinu og spurði hvort ég mætti koma á prufu. Ég fékk þrjú svör, öll neikvæð,“ sagði Phillips. Hann lagði ekki árar í bát heldur samdi við lítið utandeildarlið, Baldock Town, þar sem hlutirnir fóru að gerast. Eftir að hafa skorað mikið fyrir félagið fór að lokum svo að Watford samdi við hann árið 1994. Á löngum ferli sínum lék Phillips fyrir fjölmörg félög og afrekaði að spila átta landsleiki fyrir England. Allt í allt skoraði hann 282 mörk í 660 leikjum sem atvinnumaður. Phillips lagði skóna á hilluna árið 2014 og er í dag aðstoðarknattspyrnustjóri Derby County.


Mynd: EPA

Chris Smalling

Aldur: 27 ára
Félag: Manchester United
Spilaði í utandeildinni: 2007–2008

Chris Smalling æfði með Millwall sem barn en yfirgaf akademíuna ungur að árum og gekk til liðs við utandeildarliðið Maidstone United. Til að byrja með virtist Smalling ekki vera einstakur leikmaður að neinu leyti. „Hann var stór og slánalegur en það voru nokkrir leikmenn í liðinu sem virtust vera reiðubúnari en hann,“ segir fyrrverandi þjálfari hans hjá Maidstone, Lloyd Hume. Haustið 2007 kom liðið aftur saman til æfinga eftir stutt frí og á þeim tíma hafði Smalling tekið út mikinn líkamlegan þroska. Hann samdi við Fulham árið 2008 og var 21 árs þegar Manchester United keypti hann í janúar 2010. Smalling er í dag fastamaður í enska landsliðinu og einn af burðarásunum í vörn United.


Mynd: EPA

Andre Gray

Aldur: 25 ára
Félag: Burnley
Spilaði í utandeildinni: 2010–2014

Andre Gray er markahæsti leikmaður Burnley á tímabilinu með sjö mörk. Ekki er langt síðan Gray var á mála hjá utandeildarliðinu Hinckley United og Luton Town. Sumarið 2014 var hann seldur til Brentford þar sem hann raðaði inn mörkum áður en Burnley keypti hann. Gray er aðeins 25 ára og enn að bæta sig.


Mynd: EPA

Sam Clucas

Aldur: 26 ára
Félag: Hull
Spilaði í utandeildinni: 2012–2013

Clucas hefur verið einn af fáum ljósum punktum hjá Hull á tímabilinu. Þessi 26 ára miðjumaður hefur þótt leika vel fyrir liðið og verið orðaður við stærri félög. Clucas spilaði með Hereford United í utandeildinni en þaðan lá leiðin til Mansfield, svo Chesterfield áður en Hull keypti hann 2015.


Jamie Vardy

Aldur: 30 ára
Félag: Leicester
Spilaði í utandeildinni: 2011–2012

Mikið hefur verið fjallað um uppgang Jamies Vardy sem var lykilmaður í meistaraliði Leicester í fyrra. Vardy lék með Fleetwood Town í utandeildinni tímabilið 2011 til 2012 þar sem hann raðaði inn mörkum. Hann var keyptur til Leicester árið 2012 og átti sitt besta tímabil í fyrra þegar hann skoraði 24 mörk í úrvalsdeildinni. Vardy hefur frá árinu 2015 leikið 14 landsleiki fyrir England og skorað fimm mörk.


Mynd: EPA

Yannick Bolasie

Aldur: 27 ára
Félag: Everton
Spilaði í utandeildinni: 2005–2008

Bolasie varð einn dýrasti leikmaður í sögu Everton þegar félagið keypti hann frá Crystal Palace í fyrrasumar. Um tíma var ekki víst hvort Bolasie næði langt sem leikmaður; hann byrjaði sem unglingur hjá utandeildarliðinu Rushden & Diamonds og fór svo til annars utandeildarliðs, Hillingdon Borough. Þaðan fór hann til Plymouth Argyle, Rushden & Diamonds aftur, svo Barnet, Bristol City og loks Crystal Palace árið 2012 þegar hann var orðinn 23 ára. Eftir gott gengi þar var hann keyptur til Everton fyrir 25 milljónir punda.

Fleiri leikmenn sem byrjuðu í utandeildinni:

Charlie Austin – Framherjinn stóri og stæðilegi hjá Southampton lék lengi vel í utandeildinni. Á hans fyrsta tímabili í úrvalsdeildinni, 2014-2015 með QPR, sló hann í gegn og skoraði 18 mörk.

Ashley Williams – Velska varnartröllið byrjaði feril sinn með Hednesford Town áður en leiðin lá til Stockport í fjórðu efstu deild. Árið 2007 var hann keyptur til Swansea þar sem hann varð fljótt fastamaður og fyrirliði. Williams spilar nú með Everton.

Craig Dawson – Dawson er lykilmaður í vörn WBA en hann hóf feril sinn hjá Rad­cliffe Bourugh. Hann hefur spilað með WBA frá árinu 2010 og var í Ólympíuliði Breta sumarið 2012.

George Boyd – Boyd, sem er 31 árs, verður seint flokkaður í hóp bestu leikmanna úrvalsdeildarinnar en duglegri leikmaður er vandfundinn. Hann spilaði fimm tímabil með Stevenage Borough í utandeildinni áður en hann var seldur til Peterborough og svo Hull. Hann spilar í dag með Burnley.

Joe Hart – Enski landsliðsmarkvörðurinn ólst upp hjá Shrewsbury Town og spilaði eitt tímabil með liðinu í utandeildinni fyrir margt löngu. Hann var seldur til Manchester City árið 2006 þegar hann var 19 ára. Hann á 68 leiki fyrir England.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Slot staðfestir viðræður við Liverpool

Slot staðfestir viðræður við Liverpool
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Málverk stjörnunnar vekur mikla athygli: Byrjaður að reyna fyrir sér sem listamaður – ,,Sá aðili hringdi aldrei í mig aftur“

Málverk stjörnunnar vekur mikla athygli: Byrjaður að reyna fyrir sér sem listamaður – ,,Sá aðili hringdi aldrei í mig aftur“