fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Sport

„Vörumerkið íslenskur handknattleiksþjálfari“

Brýnast að halda úti b-liði – Bestu þjálfararnir of dýrir fyrir HSÍ

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. febrúar 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er alveg klárt að orðið er til vörumerkið íslenskur handknattleiksþjálfari,“ segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ. Dagur Sigurðsson stýrði Þjóðverjum óvænt til sigurs á Evrópumótinu í handknattleik um helgina. Þýskir fjölmiðlar hylla dag sem hetju og helstu fyrirmenni landsins keppast við að bera hann lofi, enda hefur þýska landsliðið ekki leikið um verðlaun á stórmótum frá árinu 2007, þegar það varð heimsmeistari á heimavelli.

Einar, sem fylgst hefur náið með Degi, segir að þegar Íslendingar léku tvo leiki við Þjóðverja, rétt fyrir mót, hafi hann séð handbragð Dags á liðinu. „Varnarlega er þetta geysilega sterkt lið. Honum tókst að leggja grunninn með góðri vörn og markvörslu og þegar þú nærð þessum þáttum góðum, þá ertu í mjög góðum málum í þessari íþrótt.“ Í mótinu hafi liðið svo eflst með hverju verkefninu. „Það er með ólíkindum hvernig leikmenn þýska liðsins urðu fullmótaðir leikmenn í þessu móti.“

„Hefur gert þetta stórkostlega“

Hann tekur fram að í þýska liðinu séu engir aukvisar, þó að marga lykilmenn hafi vantað í hópinn. Um sé að ræða leikmenn sem leiki stór hlutverk í liðum sínum í þýsku Bundesligunni, sterkustu deildarkeppni heims. Þeir séu því vanir að leika undir pressu og axla ábyrgð. Það breyti því ekki að Dagur hafi unnið frábært starf með liðið. „Foringinn hefur gert þetta stórkostlega. Það er frábært að sjá hvað hann er kominn langt í sínu starfi og hvernig hann hefur unnið. Hann gerði frábæra hluti hjá Fusche Berlin,“ segir Einar. Hann segir að Dagur tileinki sér alltaf nýjustu tækni í þjálfun sinni og nálgun við starfið. Hann sé enn fremur í mjög góðu sambandi við leikmenn sína. Hann vinni mikið í því að byggja þá upp.

Í Þýskalandi er vagga handboltans í Evrópu. Hvaða þýðingu hefur sigur þýska landsliðsins á mótinu, fyrir íþróttina?
„Ég held þetta hafi mjög jákvæða þýðingu. Í raun og veru hefur maður ekki séð handboltann þróast í Þýskalandi síðan Þjóðverjar urðu heimsmeistarar 2007. Markaðslega hjálpar þetta liðunum í Þýskalandi mikið, sem og handboltanum í Evrópu.“

Fjársvelti HSÍ

Evrópumótið þykir hafa verið frábær auglýsing fyrir handboltann. Úrslit komu á óvart og ný lið komu fram á sjónarsviðið. Áhorfendamet var slegið í Póllandi og aukinn áhugi hefur í för með sér auknar tekjur. Einar segir að orðið hafi mikill uppgangur í handboltanum í Norður-Evrópu og Skandinavíu undanfarin ár. Því miður hafi raunin ekki orðið sú á Íslandi, þar sem fjármunir handboltahreyfingarinnar séu af skornum skammti. „HSÍ veltir um 200 milljónum á ári og þar af er sjálfsaflaféð 70 til 80 prósent. Það er mjög erfitt að auka það í þessu árferði sem hér hefur verið eftir hrun. Ég tek fram að við erum með frábæra samstarfsaðila – um 20 fyrirtæki – að baki sambandinu, en við erum svolítið fastir í fjötrum. Við höfum ekki getað haldið úti b-landsliði síðan 2007 og erum með Laugardalshöll sem er barn síns tíma. Við getum til dæmis aðeins selt 2.400 áhorfendum miða á landsleiki.“

Einari telst til að Ísland hafi alls sent 61 lið á stórmót frá árinu 1958. Þar á hann við lið af báðum kynjum auk yngri flokka. Það sé í raun merkilegt þegar horft sé til annarra íþróttagreina, svo sem körfubolta og fótbolta, og þeirra fjármuna sem aðrar þjóðir sem spili handbolta hafi úr að spila. Í skýrslu ÍSÍ, Kostnaður vegna afreksíþróttastarfs á Íslandi, kemur fram að þörf sé á töluverðum breytingum til að Ísland geti boðið íslensku íþróttafólki sambærilega aðstöðu og tíðkast í kringum okkur. „Fyrir ÓL 2012 fékk danska handknattleikssambandið 145 milljónir króna til að undirbúa karlalandsliðið til keppni á meðan HSÍ fékk 10 milljónir króna frá Afrekssjóði ÍSÍ fyrir sama verkefni.“

Verðum að koma b-liði á koppinn

„Það er erfitt fyrir okkur að fylgja þessum þjóðum eftir,“ segir Einar og tekur sem dæmi að á EM í Danmörku 2014 hafi Íslendingar leikið við Norðmenn – og haft betur. Meðan á því móti stóð hafi Noregur verið með æfingabúðir fyrir b-liðið á sama stað og Norðmenn léku leiki sína. Leikmenn þess liðs hafi fylgst með öllum leikjum norska liðsins á mótinu, til að fá nasaþefinn af stórmóti. Margir þessara leikmanna hafi núna verið í a-liðinu, sem komst í undanúrslit í Póllandi. Aðstöðumunurinn sé þannig mikill. „Svona lagað kostar peninga. Nú eru að verða einhver kynslóðaskipti í landsliðinu en til þess að geta búið til betri leikmenn þarftu stærri hópa. Þú þarft að geta undirbúið menn fyrir að koma inn í a-liðið. Við þurftum að hætta með þá vinnu 2008,“ segir hann en tekur þó fram að Ólafur Stefánsson hafi unnið gott starf með afrekshópinn svokallaða, sem eru æfingabúðir efnilegra leikmanna. Brýnasta verkefnið, þegar kemur að landsliðinu, sé hins vegar að koma b-liði á koppinn á nýjan leik.

Árangur landsliðsins á EM í Póllandi var undir væntingum. Kallað hefur verið eftir að handknattleiksforystan fari í naflaskoðun. Einar segir aðspurður að reglulega þurfi að endurmeta stöðuna. Fyrir fimm árum hafi HSÍ farið í stefnumótunarvinnu en þau markmið sem þar voru sett hafi verið uppfyllt. Hann bendir á að þrír til fjórir starfsmenn vinni hjá HSÍ og verkefnin séu mörg. Erfitt sé að þróa sambandið án þess að aukið fjármagn komi til. „Ég held líka að HSÍ standi frammi fyrir því að vera borið saman við KSÍ, þar sem rekstrarumhverfið er allt annað og stærstur hluti fjármagnsins kemur að utan. Það er ekki sanngjarn samanburður.“

Efnileg yngri landslið

Eins og áður sagði var þýska landsliðið í lægð þegar Dagur tók við því og Svíar upplifðu svipaða hluti eftir að gullkynslóð þeirra hætti. Einar er ekki endilega þeirrar skoðunar að Íslendingar muni dragast aftur úr á næstu árum. Hann segir vissulega rétt að deildin hér heima sé ekki eins sterk og hún var áður. Slæmt sé að liðin taki ekki þátt í Evrópukeppnum og að bilið á milli deildarinnar á Íslandi og bestu deildanna í Evrópu, sé að aukast. Bestu leikmennirnir fari fyrr út í atvinnumennsku en áður og það komi niður á gæðum deildarinnar.

Aftur á móti bendir hann á að Ísland hafi átt mjög sterk landslið í yngri flokkum karla. U-19 ára landsliðið hafi unnið brons á HM í fyrra og U-18 sé að fara á stórmót í sumar. Hann bindur vonir við að innan fárra ára komi upp ný kynslóð landsliðsmanna sem náð geti góðum árangri. „Öldudalur? Ég ætla að vona ekki.“

Einar segir að kynslóðaskiptin í landsliðinu hafi gerst hægar en vonir hafi staðið til. Leikmenn fæddir 1990–1991, sem náðu góðum árangri 2008, hafi ekki komið jafn snemma inn í landsliðið og menn hafi bundið vonir við, en því liði tilheyrðu til dæmis Aron Pálmarsson, Ólafur Guðmundsson og Stefán Rafn Stefánsson.

Stærstu nöfnin ekki í boði

Aron Kristjánsson er hættur með landsliðið. Einar segir að nefnd innan HSÍ vinni að málinu en ekkert liggi fyrir í þeim efnum. „Það er verið að horfa á markaðinn eins og hann er. Menn gefa sér tíma í þetta en við erum ekki að keppa um stærstu nöfnin í Evrópu. Þeir þjálfarar sem standa sig best fara í stóru liðin eða stærri sambönd. Við erum ekki samkeppnishæfir til að fá þessa menn til að vinna fyrir okkur.“

Hann bendir á sá háttur hafi skapast að menn sem stýri íslenska landsliðinu þjálfi í kjölfarið í Evrópu. Það sé virkilega ánægjulegt. „Það er ákveðin hefð til í íslenskum handbolta sem gerir það að verkum að þessir menn ná árangri.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Hrun Liverpool er áhugavert – Svona var staðan í lok janúar þegar Klopp kynnti áform sín

Hrun Liverpool er áhugavert – Svona var staðan í lok janúar þegar Klopp kynnti áform sín
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista

Chelsea skoðar að reka Pochettino – Þrír menn á lista
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar
433Sport
Fyrir 19 klukkutímum

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið

Slot telur nánast öruggt að tilboði Liverpool verði tekið
433Sport
Í gær

Mjólkurbikarinn: Breiðablik óvænt úr leik

Mjólkurbikarinn: Breiðablik óvænt úr leik
433Sport
Í gær

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton

England: Meistararnir í engum vandræðum með Brighton