fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Sport

Þegar ósköpin dynja yfir

Harmleikurinn á þriðjudag ekki einsdæmi – Íþróttaliðin sem þurrkuðust út

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 3. desember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimurinn var sleginn óhug á þriðjudag þegar 76 manns fórust í flugslysi í Kólumbíu, þar af nánast allir leikmenn brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense. Liðið var á leið til Kólumbíu til að etja kappi við Atletico Nacional í úrslitum Copa Sudamerica-keppninnar. Slysið á þriðjudag er langt því frá það fyrsta þar sem íþróttamenn í liðsíþróttum hljóta þau ömurlegu örlög að deyja af slysförum. DV rifjar hér upp nokkur eftirminnileg dæmi.


Ítalíumeistararnir létust allir

  1. maí árið 1949 er dagur sem rennur stuðningsmönnum ítalska knattspyrnuliðsins Torino seint úr minni. Þann dag fórust 23 leikmenn og þjálfarar í flugslysi í útjaðri Tórínóborgar á Ítalíu. Liðið var að koma frá Portúgal þar sem það hafði leikið vináttuleik gegn Sporting frá Lissabon. Þoka var á svæðinu þegar slysið varð. Torino-liðið var ógnarsterkt á þessum tíma og hafði unnið ítölsku deildina fjögur ár í röð áður en að slysinu kom.

Flugslysið í München

Þann 6. febrúar árið 1958 fórust átta leikmenn og þrír úr þjálfaraliði Manchester United í flugslysi í München. United-liðið var frábært á þessum tíma, gekk undir nafninu Busby Babes. Slysið varð þegar vél United-liðsins ætlaði að millilenda í München eftir ferðalag til Belgrad þar sem United lék Evrópuleik. Slysið varð þegar vélin var að taka af stað, en snjór og krap var á flugbrautinni. Alls fórust 23 í slysinu.


25 listskautahlauparar fórust

Þann 15. febrúar árið 1961 hugðist landslið Bandaríkjanna í listskautahlaupi ferðast til Prag í Tékkóslóvakíu til að taka þátt í heimsmeistaramótinu. Ósköpin dundu yfir þegar flugmenn Sabena-flugfélagsins ætluðu að millilenda í Brussel. Vélin brotlenti í aðfluginu og fórust allir um borð, 73 einstaklingar, þar af allir sem skipuðu landslið Bandaríkjanna í listskautahlaupi á þessum tíma, 25 að tölu.


Hremmingar í Bólivíu

The Strongest er eitt sigursælasta félag bólivískrar knattspyrnu en þann 26. september 1969 lentu leikmenn liðsins í miklum hremmingum. Liðið hafði ferðast frá höfuðborginni, La Paz, til Santa Cruz í Bólivíu til að leika æfingaleik en á heimleiðinni brotlenti vélin sem flutti liðið. Alls fórust 78 manns í slysinu, þar af 19 leikmenn eða þjálfarar.


Árekstur í háloftunum

FC Pakhtakor Tashkent var árið 1979 í hópi bestu fótboltaliða Sovétríkjanna. Liðið leikur í dag í efstu deild í Úsbekistan þar sem liðið ber höfuð og herðar yfir keppinauta sína. En lífið hefur ekki alltaf verið dans á rósum fyrir aðstandendur liðsins. Í ágúst 1979 varð flugslys þegar tvær farþegaflugvélar skullu saman í háloftunum yfir Sovétríkjunum, svæði sem nú tilheyrir Úkraínu. 178 manns fórust í slysinu, þar af 17 leikmenn Pakhtakor Tashkent.


Hömpuðu titlinum sex árum síðar

Alianza Lima er eitt sigursælasta knattspyrnulið Perú. Í desember 1987 fórust allir leikmenn liðsins þegar flugvél af gerðinni Fokker F27 fórst á Kyrrahafi. Liðið var á leið heim úr deildarleik þegar eitthvað fór úrskeiðis og vélin skall í hafinu. Athygli vakti að aðeins flugmaður vélarinnar komst lífs af. Alls fórust 43 leikmenn, þjálfarar, klappstýrur og aðstandendur liðsins. Liðið hafði unnið titilinn í Perú síðustu tvö tímabil. Sex ár liðu þar til liðið hampaði titlinum aftur.


Mynd: 2012 AFP

Landsliðið fórst

Þriðjudagurinn 27. apríl 1993 er svartur dagur í sögu knattspyrnusambands Sambíu því þann dag fórust allir 22 leikmenn landsliðsins í flugslysi. Liðið var á leið í landsleik í undankeppni HM gegn Senegal en vélin fórst á Atlantshafi, skammt vestur af borginni Libreville í Gabon. Sambíumenn komu öllum að óvörum í Afríkukeppninni árið 2012 þegar liðið lagði Fílabeinsströndina í úrslitaleik eftir vítaspyrnukeppni. Var sigurinn tileinkaður þeim leikmönnum sem fórust árið 1993.


Harmleikur í hokkíheiminum

Þjóðarsorg var lýst yfir í Rússlandi í september 2011 eftir að flugvél með leikmönnum íshokkíliðsins Lokomotiv Yaroslavl fórst við bakka árinnar Volgu í Rússlandi. 44 fórust í slysinu, þar af 37 meðlimir liðsins, leikmenn og þjálfara. Meðal þeirra var landsliðsmarkvörður Svía, Stefan Liv. Vélin var á leið til Minsk í Hvíta-Rússlandi þegar ósköpin dundu yfir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
433Sport
Fyrir 22 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
433Sport
Fyrir 23 klukkutímum

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta

Knattspyrnusambandið íhugar að banna félögum alfarið að gera þetta