fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Feigð í fantasíulandi

Pauline og Juliet voru vinkonur – Honora var vinskap þeirra þrándur í götu

Kolbeinn Þorsteinsson
Laugardaginn 27. janúar 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

*„13. febrúar, 1954. Ég vaknaði klukkan 5 eins og vanalega og tókst að skrifa slatta. Tilhugsunin um daginn framundan olli mér hugarangri. Það virtist ólíklegt að mamma gæfi eftir og leyfði mér að heimsækja Juliet. Núna síðdegis sagði mamma að ég fengi ekki að hitta Juliet fyrr en ég væri komin upp í 50 kíló og glaðlegri. Henni hugnast ekki samband okkar. Núna er ég 45 kíló þannig að þetta lítur ekki vel út. Ég man að svona var mamma líka þegar ég átti í sambandi við Nicholas.

Þá sagði hún að ég gæti ekki hitt hann fyrr en hegðun mín skánaði og þegar það gerðist sló hún því föstu að það væri ekki áhrifum hans að þakka. Hún getur verið svo ósanngjörn. Af hverju getur mamma ekki dáið? Tugir eru að deyja einmitt núna, þúsundir á hverjum degi. Af hverju ekki mamma? Af hverju getur hún ekki dáið?“*

Ósátt 16 ára stúlka

Svohljóðandi færslu setti Pauline Parker, 16 ára stúlka í Christchurch á Nýja-Sjálandi, í dagbók sína þar sem hún sat í svefnherbergi sínu að kvöldi þess sama dags. Pauline var falleg stúlka, með dökkt litarhaft en á þessari stundu gætti streitu í andliti hennar og hún andvarpaði þungan.

Pauline var dóttir Herberts Rieper og Honoru Parker. Þrátt fyrir að Herbert og Honora væru ekki gift, hann ku víst hafa verið kvæntur annarri konu þegar þarna var komið sögu, hafði Honora tekið upp eftirnafn hans.

Sterk vináttubönd

Hvað sem því líður þá átti Pauline vinkonu, Juliet Marion Hulme. Sú var frá Bretlandi en hafði alið manninn í Karíbahafinu og Suður-Afríku í viðleitni til að bæta heilsuna; hún hafði greinst með berkla á barnsaldri.
Faðir hennar, Henry Rainsford Hulme, tók við rektorstöðu í Canterbury-háskólanum í Christchurch, 1952, og Juliet sameinaðist fjölskyldu sinni, þá þrettán ára að aldri.

Pauline Parker þjáðist af bein- og mergjarbólgu og ekki fráleitt að veikindi vinkvennanna hafi styrkt vináttubönd þeirra. Þegar frá leið þróaðist vinátta þeirra enn frekar og þær sköpuðu eins konar fantasíuheim.

Aðskilnaður óbærileg tilhugsun

Í júní 1954 stóðu foreldrar Juliet í skilnaði og fyrirhugað var að senda hana til Suður-Afríku þar sem hún myndi búa hjá ættingjum sínum. Juliet leist ekki á blikuna og hún og Pauline gátu ekki hugsað sér að verða aðskildar, enda hafði fantasíuheimur þeirra undið þó nokkuð upp á sig.

Pauline vildi fara með vinkonu sinni til Suður-Afríku, en foreldrar beggja stúlknanna tóku það ekki í mál, enda hugmyndin öðrum þræði hugsuð til að skilja þær að með afgerandi og jafnvel endanlegum hætti. Pauline sá í hendi sér að eitthvað yrði til bragðs að taka.

Láta til skarar skríða

Nú, sú ósk sem Pauline hafði sett fram í dagbókarfærslu sinni 13. febrúar 1954 rættist 22. júní sama ár. Daginn þann fór Honora að vilja dóttur sinnar, reyndar ekki sjálfviljug, og fór yfir móðuna miklu.
Hún fór með Pauline og Juliet í gönguferð í Victoriu-garðinum í Christchurch. Á afskekktum stað „missti“ Juliet skrautstein sem Honora síðan beygði sig eftir.

Pauline hafði sett hálfan múrstein í sokk og lét vaða í höfuð Honoru þar sem hún bograði yfir skrautsteininum. Að sögn hugðu stúlkurnar að eitt högg mundi duga til að bana henni, en þegar upp var staðið þurfti að berja hana yfir 20 sinnum í höfuðið áður en hún lét segjast. Síðan hlupu stúlkurnar á næsta kaffihús og sögðu að Honora hefði hrasað og rekið höfuðið illa í.

Málið vakti athygli

Lögreglan lagði ekki trúnað á þá sögu, enda bentu höfuðáverkar til þess að Honora hefði hrasað og rekið höfuðið í og síðan endurtekið óhappið hátt í þrjátíu sinnum. Ekki bætti úr skák að innan tíðar fannst morðvopnið skammt frá líki Honoru.

Pauline og Juliet voru handteknar og vakti málið mikla athygli því miklar vangaveltur voru um kynhneigð vinkvennanna, en á þeim tíma var samkynhneigð nánast talin andlegur kvilli.
Sökum aldurs sluppu vinkonurnar betur en margur annar hefði í svipaðri stöðu. Þær sluppu við dauðarefsingu og fengu hvor um sig ekki nema fimm ára dóm.

Eftirmáli

Þegar Pauline og Juliet var sleppt úr fangelsi fór Juliet til Englands og síðar Bandaríkjanna. Að lokum settist hún að á Englandi, tók upp nýtt nafn, Anne Perry, og haslaði sér völl í skrifum sakamálasagna.

Pauline dvaldi um skeið á Nýja-Sjálandi og var undir eftirliti til að byrja með. Síðan fékk hún heimild til að flytja til Englands og settist að í Kent og rak reiðskóla fyrir börn. Hún lýsti yfir mikilli iðrun vegna morðsins á móður sinni og neitaði lengi vel að veita viðtöl um það.

Mál þeirra vinkvenna hefur orðið efniviður nokkurra kvikmynda í gegnum tíðina.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Mjólkurbikarinn: Víkingar lentu óvænt undir en svöruðu vel fyrir sig – KA áfram eftir framlengingu

Mjólkurbikarinn: Víkingar lentu óvænt undir en svöruðu vel fyrir sig – KA áfram eftir framlengingu
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða

Gætu neyðst til að selja vonarstjörnuna í sumar vegna fjárhagsvandræða
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“