Konan sem er andlit Norður-Kóreu: Flytur þjóðinni gleðifréttir jafnt sem sorgartíðindi

Ri Chun-hee er gædd miklum persónutöfrum - Nýtur fullkomins trausts þjóðarinnar

Er fastur gestur á skjám Norður-Kóreumanna.
Ri Chun-hee Er fastur gestur á skjám Norður-Kóreumanna.

Jafnan þegar myndbönd eru sýnd frá útsendingum ríkissjónvarps Norður-Kóreu birtist sama andlitið á skjánum. Þetta er andlit Ri Chun-hee sem fært hefur þjóð sinni gleðifréttir jafnt sem sorgartíðindi undanfarin fjörutíu ár.

Í raun má segja að þessi 74 ára kona, sem fengið hefur hrós fyrir persónutöfra sína og tilfinningaþrungna framkomu, sé andlit Norður-Kóreu. Hún hefur fært þjóð sinni fréttir af hörmungum og var það hún sem tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011. Hún tilkynnti einnig um andlát Kim Il Sung árið 1994 og grét hún í báðum útsendingunum. Þá tilkynnti hún í síðasta mánuði að Norður-Kóreumönnum hefði tekist að sprengja kjarnorkusprengju í fimmta skiptið.

Ri átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hún tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011.
Tilfinningaþrungið augnablik Ri átti erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hún tilkynnti um andlát Kim Jong-il árið 2011.

Talið er að Kim-fjölskyldan hafi ráðið hana í vinnu árið 1971 og er Kim Jong-un, núverandi einræðisherra Norður-Kóreu, sagður hafa viljað hafa hana áfram í sjónvarpinu eftir að hann tók við völdum í landinu.

Katharine H.S. Moon, prófessor við Wellesley College skammt frá Boston í Bandaríkjunum, segir við Channel 4 í Bretlandi að saga Ri sé um margt merkileg. „Það er mjög erfitt að gerast fréttaþulur í Norður-Kóreu, sérstaklega fyrir konur. Hún er í raun sú eina sem hefur náð svona langt. Að mörgu leyti er hún móðurímynd Norður-Kóreu, andlit konunnar í landinu. Hún er í miklum metum hjá yfirvöldum og nýtur fullkomins trausts. Fólkið í landinu treystir henni enda eru íbúar vanir að sjá hana á hverju kvöldi í sjónvarpinu.“

Ri fæddist árið 1943 og er því komin vel á áttræðisaldur. Hún hefur verið minna áberandi í sjónvarpi Norður-Kóreumanna á undanförnum árum en er þó alltaf til taks þegar stór tíðindi berast. Þá sér hún um að færa landsmönnum tíðindin. Hún var leikkona á sínum yngri árum en allt frá árinu 1971 hefur hún séð um að færa landsmönnum fréttir.

Ri er sögð búa í lúxushúsi í höfuðborginni Pyongyang ásamt eiginmanni sínum, börnum og barnabörnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.