Leikari slapp með skrekkinn: Næstum því skotinn af lögreglu – ótrúlegt myndskeið

Duff hefur líklega brugðið verulega þegar lögregluþjónninn skaut á hann.
Hætta á ferð Duff hefur líklega brugðið verulega þegar lögregluþjónninn skaut á hann.

Það getur verið hættulegt að vera leikari eins og hinn bandaríski Jim Duff komst að á dögunum. Duff þessi leikur í kvikmynd sem verið er að taka upp og á dögunum stóðu yfir tökur í Crawfordsville í Indiana þar sem persóna hans í myndinni fremur vopnað rán.

Lögregla hafði fengið tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir við bar í nágrenninu, en tilkynningunni fylgdi að grímuklæddur maður, vopnaður skammbyssu, hefði farið inn á barinn.

Lögregla brást við í samræmi við tilkynninguna og þegar lögregla mætti á vettvang sá hún vissulega vopnaðan mann fyrir utan. Lögregluþjónninn áttaði sig ekki á því að verið væri að taka upp kvikmynd og taldi sig í hættu. Skaut hann einu skoti í átt að Duff en sem betur fer hæfði kúlan hann ekki.

Duff reyndi að útskýra fyrir lögregluþjóninum að verið væri að taka upp kvikmynd. Lögregluþjónninn skipaði honum þó að leggjast áður en hann var handtekinn. Duff var fluttur á lögreglustöð en á meðan sannreyndi lögregla að þarna höfðu tökur á kvikmynd vissulega farið fram.

„Við förum fram á það, af augljósum öryggisástæðum, að við séum látin vita þegar tökur eins og þessar fara fram,“ sagði lögregla í tilkynningu vegna málsins. Myndskeiðið má sjá hér að neðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.