fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Baráttan sem brást á sviði

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 22. september 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Bryndís Loftsdóttir

Skáldsagan 1984 eftir George Orwell kom fyrst út árið 1949, ári áður en höfundurinn lést. Til marks um þá athygli sem sagan vakti, þá var íslensk þýðing komin út aðeins tveimur árum síðar. Þetta er ein þeirra bóka sem alltaf lenda ofarlega á listum yfir bestu skáldverk síðustu aldar en jafnframt verk sem margfalt fleiri þekkja af afspurn en lestri.

Ógeðfellt framtíðarsamfélag

Verkið gerist í framtíðarsamfélaginu Eyjaálfu, nánar tiltekið á Flugbraut eitt sem áður nefndist London. Samfélaginu er stjórnað með ógnarvaldi, nær öllu vinnuframlagi þegnanna er eytt í njósnir, falskar ákærur, aftökur, stríðsrekstur og viðamiklar athafnir til heiðurs valdhöfum. Börnum er kennt að snúast gegn foreldrum sínum og tilkynna upplognar sakir til yfirvalda. Mál fara í nefndir og undirnefndir sem stöðugt er verið að stofna til og unnið er að stórkostlegri einföldun tungumálsins. Verðmætasköpun er nánast engin, svo þrátt fyrir þrotlausa vinnu, lepja íbúar dauðann úr skel, örþreyttir alla daga í ömurlegum húsakynnum.

Friðarráðuneytið stendur fyrir linnulausum stríðsrekstri og áróðri sem nýttur er til þess að berja íbúa landsins til hlýðni. Komi sú staða upp að einstaklingur skynji annan sannleik en þann sem stjórnvöld boða, beitir viðkomandi „tvíhugun“ til þess að samþykkja báðar hugmyndir án frekari ígrundunar. Alls staðar eru skjáir sem fylgjast með fólki og senda út fyrirskipanir. Fólk hverfur unnvörpum í ástarráðuneytinu sem annast fangelsun og aftökur og öllum heimildum um líf þess er eytt hjá sannleiksráðuneytinu sem framkvæmir lygar og falsanir.

Framtíðarsýnin rættist

Þetta hljómar kunnuglega. Norður-Kórea kemur auðvitað fyrst upp í hugann enda eins og lifandi útgáfa sögunnar í heild sinni, jafnvel enn skelfilegri. Ósk um tvíhyggju má finna í útskýringum spunameistara Donalds Trump þegar þeir nefna rangfærslur hans „annars konar sannleika“ og möguleikar þagnarinnar til falskra frásagna og lyga ættu öllum að vera kunnir sem heyrt hafa aðeins hálfan sannleik. Ýmis forrit og upptökuvélar fylgjast grannt með gerðum okkar og ferðum, líkt og skjáirnir sem vaka yfir íbúum Flugbrautar eitt. Tjáningarfrelsi okkar stendur ógn af netníðingum, dómstól götunnar og jafnvel almennum vegfarendum sem hvetja til mannorðsmorðs með lestri, útbreiðslu níðs og glaðlegum velþóknunartáknum til aftökusveitarinnar. Sagan talar beint til okkar tíma og speglar flesta verstu lesti samtíma samfélags.

Vart tilbúið til frumsýningar

Þessi leikgerð stendur sögunni sjálfri því miður langt að baki. Nær engar tilraunir eru gerðar í handritinu til þess að gefa áhorfendum aðgang að hugsunum söguhetjunnar Winstons Smith, og Þorvaldi Davíð Kristjánssyni tókst ekki að koma þeim á framfæri í undirtexta sínum. Skjálfandi leikstíllinn var of ýktur og hafði slæm áhrif á raddbeitingu leikarans. Annars konar nálgun hefði verið æskileg til að efla tengsl og þar með skilning áhorfenda á þeirri vegferð sem Winston verður að fara, til þess að berjast við lygina sem valdhafar hafa vafið samfélagið inn í.

Þuríður Blær Jóhannesdóttir lék Júlíu, ástina sem Winston svíkur. Gervi hennar var ekki gott og það skorti dýpt í karakterinn sem skrifast að hluta á handritið, auk þess sem hún virkaði stundum óklár á texta. Kröfur yfirvalda um tíma fólks með yfirgengilegu vinnuframlagi, auk endalausra dýrkunarfunda og hátíðarhalda til heiðurs Stóra bróður, komust illa til skila. Þau Winston og Júlía áttu auðvelt með að skipuleggja að því er virtust tíðar samverustundir sem er í hrópandi andstæðu við sögurammann.

Vali Frey Einarssyni tókst einstaklega vel upp í sköpun sinni á valdníðingnum O’Brien sem bæði vinnur traust Winstons og tortímir honum. Ísköld nálgun hans var hárrétt, æsingarlausar pyntingar, unnar eins og hversdagslegt eldhúsverk, engin gleði, engin ást, aðeins nautnin að viðhalda valdinu.

Jóhann Sigurðarson sýndi á sér áhugaverða hlið í hlutverki Charringtons, hann náði ágætlega að sýna tvöfeldni persónunnar en tókst ekki jafn vel að sýna stéttarmuninn á milli hans og Winstons. Þórunn Arna Kristjánsdóttir var ágæt í hlutverki fr. Parsons og móður Winstons en langdregnar skúringasenur öreigakonunnar voru ekki í nokkrum takti við verkið. Barnið í leiksýningunni, Erlen Isabella Einarsdóttir, stóð sig frábærlega vel í hlutverki dóttur Parsons-hjónanna og reyndar einnig sem systir Winstons, þótt hún hafi ekki alveg haft útlit sjúks og vannærðs barns.

Slöpp úrvinnsla

Sýningin hófst á því að dróni flaug yfir áhorfendur og gaf þannig tóninn að öflugu eftirliti, jafnvel líka með áhorfendum en eftirfylgnin var lítil. Leikstjórinn, Bergur Þór Ingólfsson, virðist nánast hafa gleymt eftirlitsþættinum þrátt fyrir veigamikið hlutverk hans í verkinu. Þá sjaldan að skjárinn sýndi eitthvað sem leikararnir voru að gera og lék þannig hlutverk njósnarans, var það svo fínlega unnið að það líktist helst einhvers konar flúri við verkið.

Leikmyndin þjónaði leikritinu ekki vel. Winston þurfti til að mynda gjarnan að hefja nýjar senur með því að svara yfirvöldum hvar hann væri, væntanlega til útskýringar fyrir áhorfendur því varla lék nokkur vafi á verustað hans hjá þeim sem voru alltaf að fylgjast með honum. Ef til vill voru þessar staðsetningarupplýsingar í handritinu en það var þá að minnsta kosti ekki unnið úr þeim með spennandi hætti.

Þrátt fyrir stórmerka og áhrifaríka sögu, sem leikgerðin byggir á, þá skorti tilfinnanlega undirbyggingu og skýrari þráð í þessa uppfærslu, samhæfðar sviðshreyfingar virtust lítt útfærðar og tækifæri til tæknilegra tilþrifa voru illa nýtt. Leikstjóra mistókst að skapa spennu og það var einfaldlega erfitt að ná nokkrum tengslum við söguhetjurnar, baráttu þeirra og afdrif, þrátt fyrir góðan vilja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm

Rannsóknar-Ríkharð með kenningu um það hvernig komst upp um brot Búa og Ísaks – Fengu báðir þungan dóm
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu

Guðmundur Felix kastar inn handklæðinu
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma

Emma Stone vill ekki lengur vera kölluð Emma
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hefur ítrekað reynt að taka samtalið en því er alltaf hafnað

Hefur ítrekað reynt að taka samtalið en því er alltaf hafnað
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina

Reiði vegna skemmdarverks á Suðurgötu: Málið verður tilkynnt lögreglu – Sjáðu myndina
Fókus
Fyrir 6 klukkutímum

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar

Mun ekki vinna með Kristian – Launakröfurnar alltof háar
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi

Skólapiltur reyndi að berja sofandi samnemendur sína með hamri þegar þeir sváfu – Var að vernda sig gegn uppvakningaheimsendi