Tuttugu árum seinna

Prinsessa fólksins er ekki gleymd

Við Kensingtonhöll tuttugu árum eftir lát móður þeirra.
Vilhjálmur og Harry Við Kensingtonhöll tuttugu árum eftir lát móður þeirra.

Bæði RÚV og Stöð 2 sýndu heimildamynd um Díönu prinsessu nú þegar 20 ár eru liðin frá sviplegum dauða hennar. Allan ágústmánuð hafa breskar sjónvarpsstöðvar sýnt myndir um konuna sem er enn í hugum fólks prinsessa fólksins. Í heimildamyndinni sem RÚV sýndi var meðal annars rætt við ættingja og vini Díönu.

Þarna voru mörg góð viðtöl. Sterkust voru viðtölin við syni hennar, Vilhjálm og Harry, sem eru áberandi lausir við hroka og yfirlæti og virðast hafa hlýja nærveru sem kóngafólk skortir svo oft. Slíkt fólk er yfirleitt ekki mikið fyrir að faðma fólk og snerta það, eins og Díana átti svo auðvelt með. Bræðurnir voru stundir klökkir þegar þeir töluðu um fráfall móður sinnar. Það hvílir greinilega einnig þungt á þeim að fjölmiðlar hundeltu Díönu hvert sem hún fór og reyndu jafnvel að espa hana upp til að ná myndum af henni í uppnámi. Ljót er svo sagan af því hvernig þeir þreyttust ekki á að taka myndir af henni þar sem hún var deyjandi í bílflaki í undirgöngum í Parísarborg. Harry prins var nálægt því að komast í uppnám þegar hann talaði um það. Þetta var falleg mynd sem gaf trúverðuga mynd af konu sem var sannarlega ekki gallalaus og ekki alltaf hamingjusöm en kunni um leið að gleðjast og átti afar auðvelt með að sýna öðrum hlýju og góðvild.

Hún er enn prinsessa fólksins.
Í minningu Díönu Hún er enn prinsessa fólksins.

Sama kvöld og myndin var sýnd á RÚV sýndi fréttastofan Sky myndir af því þegar bræðurnir komu að Kensingtonhöll til að leggja blóm við hlið hallarinnar og skoðuðu um leið myndir og skilaboð sem almenningur hafði komið þar fyrir. Þetta gerðu prinsarnir 20 árum eftir að hafa verið harmi slegnir á sama stað. Þá eins og nú skoðuðu þeir blómahafið og lásu skilaboð sem þar voru í minningu prinsessu sem fólki þótti og þykir enn svo afskaplega vænt um.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.