fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Leikhúsmógúllinn framleiðir verðlaunasöngleik á Broadway

Groundhog Day – The musical er tilnefndur til sjö Tony-verðlauna, en íslenska leikhúsframleiðslufyrirtækið Theatre Mogul kemur að framleiðslunni

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 7. maí 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenska leikhúsframleiðslufyrirtækið Theater Mogul er einn framleiðenda Broadway-söngleiksins Groundhog Day – the musical sem er tilnefndur í sjö flokkum á Tony-verðlaununum, stærstu leikhúsverðlaunum Bandaríkjanna, en tilkynnt var um tilnefningarnar á þriðjudag.

Söngleikurinn er fyrsta Broadway-sýningin sem fyrirtækið tekur þátt í en það var upphaflega stofnað til að halda utan um og setja upp einleikinn Hellisbúann víða um heim árið 2000. „Þetta eru óskarsverðlaun leikhússins, æðstu verðlaun sem þú getur tekið heim með þér í leikhúsbransanum. Það breytir gríðarlega miklu að taka þátt í verkefni sem fær þessi verðlaun, og það er rosalega flott fyrir okkur að koma svona inn með hvelli með fyrstu Broadway-sýninguna okkar,“ segir Óskar Eiríksson, forstjóri Theater Mogul.

Tveggja milljarða króna uppsetning

Framleiðslufyrirtækið Leikhúsmógúllinn var stofnað árið 2000 með það að markmiði að setja upp sýninguna Hellisbúinn í Evrópu, en sýningin hafði þá notið mikilla vinsælda á Íslandi. Sautján árum seinna er fyrirtækið með skrifstofur í fjórum löndum og setur upp sýningar í tugum landa um allan heim, að mestu leyti einleiki og litla söngleiki sem ferðast á milli borga og landa. Að sögn Óskars eru sýningar á vegum fyrirtækisins á bilinu 2.500 til 7.000 á hverju ári. Enn þann dag í dag er Hellisbúinn gullegg fyrirtækisins og er verkið sýnt reglulega um allan heim – meðal annars hefur sýningin gengið stanslaust í heilan áratug í Las Vegas í Bandaríkjunum.

En hvernig kom það til að Theatre Mogul tæki þátt í uppsetningu söngleiks á Broadway?

„Við byrjuðum á því að framleiða sýninguna Silence! The Musical fyrir nokkrum árum. Þetta var grínsöngleikur byggður á kvikmyndinni Silence of the lambs. Sýningin var það sem er kallað Off-Brodway,“ segir Óskar, en hugtakið Off-Broadway er notað yfir atvinnuleiksýningar í New York sem eru sýndar í leikhúsum sem taka minna en 500 gesti í sæti. Um slíkar leiksýningar gilda aðrar launareglur en um hinar stóru Broadway-sýningar og eru þær kjörgengar á öðrum verðlaunahátíðum.

„Sýningin gekk alveg ótrúlega vel. Ég man ekki til þess að hafa séð jafn góða krítík um eina leiksýningu. Það var ekki hægt að finna einn gagnrýnanda sem sagði einn neikvæðan hlut um hana. Fólk var farið að spyrja mig hvort ég hefði nokkuð borgað fólki fyrir að skrifa. Svo vann sýningin til Best Musical-verðlaunanna. Við ákváðum hins vegar að fara ekki með hana á Broadway eins og vaninn er þegar slíkar sýningar ganga vel og vinna til verðlauna. Við vorum bara ekki alveg tilbúin í þann slag þá,“ segir Óskar.

„En þarna fór fólk að taka eftir okkur, við urðum að svolitlu nafni og byrjuðum að kynnast alls konar fólki sem vinnur á Broadway. Svo var það bandarískt fyrirtæki sem ég hef verið að vinna með að uppsetningu annarra sýninga sem bauð mér að taka þátt í Groundhog Day. Það er hópur af fimmtán framleiðendum sem stendur að sýningunni enda kostar uppsetningin um 2 milljarða íslenskra króna. Við settum pening í breska útgáfu sýningarinnar sem var eins konar tilraunauppsetning – svipað eins og þegar fólk sýnir Off-Broadway. Broadway er nefnilega svo svakalega dýrt. Kostnaður við sýningu í London er bara 20 prósent af því sem kostar að setja upp sýningu þar.“

Hafið þið þá eitthvað að segja um sýninguna í þessum stóra hópi framleiðenda?

„Já, við höfum rödd, en það eru fyrstu framleiðendurnir sem eru með úrslitavaldið, þeir þrír framleiðendur sem fóru af stað með verkefnið. Við fylgjumst með því sem er að gerast og gefum punkta, segjum hvað okkur finnst um sýninguna, hvað má bæta og laga og svo framvegis. Til dæmis benti ég á ýmsa hluti þegar ég sá sýninguna í fyrsta skipti sem var svo strax farið að vinna eftir. En auðvitað myndi maður helst vilja fá að vera í bílstjórasætinu.“

Groundhog Day - The musical, fyrsta framleiðsluverkefni Óskars á Broadway, hefur hlotið góðar móttökur hjá gagnrýnendum og áhorfendum og er nú tilnefnt til Tony-verðlaunanna.
Góðar móttökur Groundhog Day – The musical, fyrsta framleiðsluverkefni Óskars á Broadway, hefur hlotið góðar móttökur hjá gagnrýnendum og áhorfendum og er nú tilnefnt til Tony-verðlaunanna.

Múrmeldýrið aftur og aftur

Söngleikurinn Groundhog Day er byggður á samnefndri kvikmynd frá árinu 1993. Myndin, sem skartaði Bill Murray í aðalhlutverki, er án vafa ein þekktasta og sígildasta grínmynd tíunda áratugarins. Sagan segir frá því þegar lífsleiður og meinhæðinn veðurfréttamaður þarf að endurupplifa nákvæmlega sama daginn aftur og aftur út í hið óendanlega. Þennan endurtekningasama dag er hann staddur í smábænum Punxsutawney í Pennsylvaníu til að fjalla um undarlega hefð þar sem múrmeldýr er látið spá fyrir um komu vorsins.

„Þetta er sama saga en það er allt öðruvísi að setja þetta upp í söngleik þar sem er dansað og sungið svo mikið,“ segir Óskar.

Grínmyndin Groundhog Day er ein þekktasta grínmynd tíunda áratugarins.
Sígilt grín Grínmyndin Groundhog Day er ein þekktasta grínmynd tíunda áratugarins.

Söngleikurinn er skrifaður af Danny Rubin og lagahöfundinum Tim Micnchin en sá fyrrnefndi skrifaði einmitt handrit kvikmyndarinnar ásamt leikstjóranum Harold Ramis. Söngleikurinn var upphaflega frumsýndur í London í fyrra og hlaut góðar viðtökur. Í kjölfarið var ráðist í að setja hann upp á Broadway, leikhúsvettvangi New York-borgar.

Nokkuð var fjallað um tæknileg vandræði Groundhog Day í bandarískum fjölmiðlum í upphafi sýningartímans, en meðal annars var forláta snúningssvið sem spilar lykilhlutverk í sýningunni til vandræða.

„Til þess að láta sama daginn endurtaka sig aftur og aftur er notast við snúningssvið með þremur misstórum snúningsflekum sem allir snúast í mismunandi áttir. Aðalpersónan vaknar á sama stað og sömu hlutirnir flæða í áttina að honum aftur. Ég hafði einmitt verið svolítið fúll að fá ekki að koma á fyrstu forsýninguna þar sem þetta klikkaði, en það var talað um að framleiðendur væru ekki æskilegir á sýninguna og allir miðar voru gefnir. Sýningin var stoppuð eftir 20 mínútur, og eftir nokkrar tilraunir til að laga sviðið var tilkynnt að það tækist ekki og gestir myndu fá nýja miða. Hins vegar var ákveðið að leikararnir myndu bara syngja sig í gegnum sýninguna. Þetta vakti mikla lukku, fólk stóð upp, klappaði og húrraði í lokin. Þetta vakti mikla athygli og varð mikið fjölmiðlafár,“ segir Óskar.

„En ástæðan fyrir þessu er að þetta er sama svið og var notað í London, en það er búið að bæta sviðsmyndina svo mikið að hún er búin að þyngjast mikið, um hálft tonn held ég. Öryggisventlar í tækjunum hafa því verið að læsa sviðinu alveg. Svona vandræði eru náttúrlega ástæðan fyrir því að heill mánuður er notaður í forsýningar.“

Dagarnir fyrir sjálfa frumsýninguna voru, þrátt fyrir þetta, ekkert minna stressandi fyrir framleiðendurna. Þremur dögum fyrir frumsýningu sneri aðalleikarinn, Karl, sig á hné og leit út fyrir að geta ekki tekið þátt í sýningunni. Óskar segir að það hefði þýtt að ekki mætti tilnefna hann til Tony-verðlaunanna – enda þurfi leikari að hafa tekið þátt í frumsýningu leikritsins til að vera kjörgengur. Karl, sem hafði áður leikið veðurfréttamanninn óheppna í bresku útgáfu söngleiksins, hefur hlotið gríðarlegt lof fyrir frammistöðu sína og jafnvel þeir gagnrýnendur sem ekki eru hrifnir af sýningunni almennt virðast agndofa yfir hæfileikum Karls.

Vilja framleiða sína eigin Broadway-sýningu

Þú sagðir áðan að þið mynduð helst vilja vera í bílstjórasætinu, stefnið þið þá á það, að framleiða ykkar eigin Broadway-sýningu?

„Já, það eru nokkur verkefni sem við erum að vinna í sem gætu endað þar. Við munum líklega setja Silence! upp á West End í London á næsta ári. Ef sýningin slær í gegn þar eins og hún gerði Off-Broadway þá fer hún að öllum líkindum á Broadway og þá verðum við í bílstjórasætinu alla leið. Svo erum við að vinna að nýjum söngleikjum, meðal annars um myndlistarmanninn Basqiat,“ segir Óskar.

„Það hefur alltaf verið okkar trú að við getum orðið ansi stór í þessum skemmtanabransa. Í dag erum við ekki peningamesta framleiðslufyrirtæki í heimi, en ég held að það framleiði enginn jafn mikið og við. Ég efast um að það sé til sá leikhúsframleiðandi sem framleiðir í fleiri löndum. Við erum með alveg ofboðslega mikið í gangi. Það sem okkur hefur kannski helst vantað er að komast þarna inn og taka þátt í stóru sýningunum. Þær eru miklu áhættumeiri og erfiðari, en ef þær ganga upp þá gefur það ansi ríkulega af sér. Og nú, sautján árum eftir að við byrjuðum, erum við að taka þetta næsta skref.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu

Solskjær með áhugavert tilboð á borði sínu
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur

Viktor er óvænti forsetaframbjóðandinn: Safnaði 1.500 meðmælendum nánast í kyrrþey – Kostnaðurinn aðallega tími,bensín og sjoppusamlokur
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Stjarna United frumsýndi nýja kærustu – Vann áður á McDonald’s

Stjarna United frumsýndi nýja kærustu – Vann áður á McDonald’s
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu