fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Ísland stækkar með aðfluttu listafólki

Sjö aðfluttir íslenskir listamenn eiga verk á sýningunni Stór-Ísland – Sýningarstjórinn Yean Fee Quay segir landamærin skipta litlu máli í dag

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 25. nóvember 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskt listalíf hefur á undanfarinni öld í síauknum mæli verið drifið áfram af erlendum áhrifum og tengslum. Íslenskir listamenn hafa ekki bara leitað út fyrir landsteinana að menntun og áhrifavöldum heldur hafa aðfluttir listamenn ítrekað borið með sér nýja strauma og auðgað menningarlíf eylandsins. Á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar fluttu hingað erlendir tónlistarmenn til og höfðu afgerandi áhrif á uppbyggingu íslensks tónlistarlífs – menn eins og Victor Urbancic, Franz Mixa og Heinz Edelstein. Í myndlistinni eru áhrif Svisslendingsins Dieters Roth óumdeild, og má að vissu leyti segja að hann hafi komið með samtímalistina til landsins þegar hann flutti hingað undir lok sjötta áratugarins.

Eftir því sem hnattvæðingin hefur orðið ágengari hafa aðfluttir listamenn orðið æ meira áberandi í íslensku menningarlífi, um leið og margir innfæddir hafa haldið utan og gerst innflytjendur annars staðar. Þekking og mannauður ferðast nú svo auðveldlega til og frá eyjunni að það má efast um hvort skýringarrammi þjóðríkisins sé svo gagnlegur enn þann dag í dag. Hvað þýðir það eiginlega að vera „íslenskur“ listamaður? Þetta er ein af þeim spurningum sem gestir geta velt fyrir sér á sýningunni Stór-Ísland sem nú stendur yfir í Listasafni Reykjavíkur. Þar eru sýnd verk sjö myndlistarmanna sem eiga það sameiginlegt að vera fæddir utan Íslands en hafa búið hér og starfað í lengri eða skemmri tíma.

Fulltrúar Íslands

Hugmyndasmiður og sýningarstjóri Stór-Íslands er Yean Fee Quay. Hún er sjálf aðfluttur Íslendingur, fædd í Singapúr og menntuð í Bandaríkjunum, en fluttist til landsins með íslenskum eiginmanni sínum árið 2000.
„Ætli hugmyndin að sýningunni hafi ekki fæðst upphaflega fyrir um tíu árum. Frá því að ég byrjaði að starfa í Listasafninu [árið 2006] hef ég verið í miklu sambandi við alls konar listamenn. Ég fór fljótlega að gera mér grein fyrir því hversu margir erlendir listamenn búa og starfa hérna. Mér fannst áhugavert að þeir létu ekki erfiðleika stoppa sig í að skapa list,“ útskýrir Yean Fee.

Þeir listamenn sem eiga verk á sýningunni eru Anna Hallin, Claudia Hausfeld, Jeannette Castioni, Joris Rademaker, Rebecca Erin Moran, Sari Cedergren og Theresa Himmer – nöfn sem að áhugamenn um íslenska myndlist ættu að vera löngu farnir að kannast við. „Í þessari sýningu vildi ég velja inn listamenn sem höfðu verið búsettir hér í þó nokkur ár og höfðu verið viðurkenndir sem íslenskir listamenn af öðrum stofnunum, fengið listamannalaun eða aðra styrki, og jafnvel haldið utan til að sýna verk sem fulltrúar Íslands,“ segir Yean Fee.

Frekar en að listamennirnir sjö á sýningunni tali einni rödd eru þeir eins og margradda kór sem varpar ljósi á fjölbreytnina í íslenskri myndlist í dag. „Hugmyndin var ekki að vera með neitt sérstakt þema eða ákveðin skilaboð. Sýningin er ekki um Ísland heldur um þessa listamenn og þeirra list. Ísland kemur fyrir í verkum sumra listamannanna en það er ekkert sérstaklega áberandi.“

Theresa Himmer vinnur með íslenska sundlaugamenningu og bandaríska bókmenntahefð í myndbandsverkinu Sundmaðurinn.
Sundmaðurinn (2015) Theresa Himmer vinnur með íslenska sundlaugamenningu og bandaríska bókmenntahefð í myndbandsverkinu Sundmaðurinn.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Fjölbreytnin eykst

Yean Fee segir að íslenska listasenan sé almennt mjög jákvæð og opin í garð aðfluttra listamanna en það séu vissulega alltaf einhverjir erfiðleikar sem fylgja því að aðhafast í samfélagi með annað móðurmál en manns eigið. „Fólk þarf yfirleitt að senda inn umsóknir á íslensku, en erlendir listamenn eru mjög duglegir við að láta þetta ekki stoppa sig. En það er líka æ oftar tekið við umsóknum á öðrum tungumálum, og þá eru stofnanirnar að meta listamennina sem listamenn en ekki út frá tungumálakunnáttu.“

En er einhver sérstakur þráður sem sameinar sögur þessa fólks? Eru til dæmis svipaðar ástæður fyrir því að það endar á því að setjast hér að – eða eru sögurnar eins fjölbreyttar og þær eru margar?

„Algengasta ástæðan fyrir því að fólk sest hér að er fjölskyldan – það er oftast þannig með fólk, það gerir hluti út af tengslum við aðrar manneskjur. En það eru líka listamenn sem hafa komið hingað af engri sérstakri ástæðu eða tengingu og ákveðið að búa hér.“

Hún segir þó að allur gangur sé á því hvort þessir listamenn hugsi um sig sem „íslenska“ listamenn. „Þetta er bara eins og að spyrja íslenskan myndlistarmann sem býr og starfar erlendis. Það er orðið mjög erfitt að flokka þetta. Maður tekur eftir því núna að það er sífellt talað minna um að listamaður sé „upphaflega frá“ einhverju landi. Samtímamyndlistin er orðin svo alþjóðleg og ekki bundin við lönd, landamærin eiga ekki að skipta máli lengur.“

Heimurinn er að minnka, landamærin verða stöðugt gegndræpari, hvað er séríslenskt verður óljósara, en á sama tíma eiga sífellt fleiri snertifleti við íslenska menningu og hún stækkar sem því nemur. Það mætti kannski segja að allir þeir sem tengist landinu, samfélaginu, málinu eða menningunni á einhvern hátt verði hluti af Stór-Íslandi. Þetta gæti verið einn skilningur á nafni sýningarinnar – en Yean Fee segir það opið fyrir túlkunum.

„Sýningarheitið er jafn opið og sýningin sjálf. Það getur vísað í margt, en ég hugsaði að það gæti tengst ákveðinni fjölbreytni sem er að þróast á Íslandi. Það væri alveg hægt að halda sýningu með sama nafni með íslenskum listamönnum sem búa erlendis. Þetta nafn vísar kannski líka í það hversu stoltir Íslendingar eru af sjálfum sér, en það er ekkert óvenjulegt – öll lönd setja sjálf sig sem miðpunkt.“

Yean Fee verður með leiðsögn um sýninguna Stór-Ísland í Hafnarhúsinu, laugardaginn 25. nóvember klukkan 14.00.

Eftir Önnu Hallin.
Rek (2015) Eftir Önnu Hallin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland

Byrjunarlið Brighton og Manchester City – Enginn Haaland
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar

Starfið í töluverðri hættu eftir niðurlægingu vikunnar
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 9 klukkutímum

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings

Prófaðu þetta næst þegar þú getur ekki sofið vegna fótapirrings
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“

Hraunaði yfir eigin leikmann í beinni útsendingu og lét allt flakka: Vinsæll en á ekki skilið mínútur – ,,Brást okkur öllum“
Fókus
Fyrir 11 klukkutímum

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“

Fékk fyrsta ofsakvíðakastið árið 2021 – „Þetta er versta tilfinning sem ég hef upplifað“
Fókus
Fyrir 12 klukkutímum

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“

Anne Hathaway þurfti að slumma tíu menn – „Þetta hljómaði viðbjóðslega“