fbpx
Menning

Farsýningarými

Ásgerður Birna og Helena útvarpa myndlist á Rás 1 undir merkjum GSM

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 13. október 2017 19:00

Sýningarrými fyrir myndlist þurfa ekki endilega að samanstanda af fjórum hvítum veggjum og sléttum gólffleti. Rýmið getur jafnvel verið færanlegt og óefnislegt. Þetta er að minnsta kosti skoðun myndlistarkvennanna Ásgerðar Birnu Björnsdóttur og Helenu Aðalsteinsdóttur en þær eru listrænir stjórnendur GSM, færanlegs sýningarrýmis fyrir myndlist sem hefur tekið sér bólfestu í útvörpum landsmanna örskamma stund öll kvöld vikunnar, sem hluti af myndlistarhátíðinni Sequences VIII. Fimm ólíkir myndlistarmenn fá að nýta þetta þriggja mínútna sýningarrými á öldum ljósvakans til að skapa fjölbreyttar hljóðmyndir og gjörninga. Birna og Helena eru búsettar í Amsterdam í Hollandi en eru staddar hér á landi til að sýna verk sín á Sequences auk þess að stýra þessu nýstárlega sýningarrými.

Sýningarrými heima í stofu

Listamenn sem hafa sýnt í GSM

Hægt er að nálgast verkin í Sarpinum á RÚV

Eggert Pétursson

Florence Lam

Sara Magenheimer

Cally Spooner

Styrmir Örn Guðmundsson

„Hugmyndin um GSM kviknaði út frá útvarpsstöð sem við settum upp í Hrísey með Laumulistasamsteypunni,“ segir Birna, en samsteypan sem um ræðir er árleg vikulöng vinnustofudvöl þar sem hópur listamanna kemur saman og vinnur að sköpun í tilteknum miðli – en í fyrra hélt hópurinn úti listrænni útvarpsstöð á eyjunni.

„Þá fórum við að hugsa hvað það væri áhugavert að vera með sýningarrými sem kæmi til fólks frekar en að fólkið þyrfti að mæta á ákveðinn stað,“ segir Birna og Helena skýtur inn í: „Já, sýningarpláss sem tekur bara yfir rýmið sem fólk er í hverju sinni. Okkur finnst mjög spennandi að hugsa til þess að fólk sé að mæta á sömu sýninguna en í ólíkum rýmum, og sýningin mótast þá af því rými sem fólk er í.“

En af hverju kallið þið rýmið GSM þegar það tekur sér bólfestu í útvarpinu?

„GSM var eiginlega fyrsta tækið sem var ekki tengt landlínu, fyrsta færanlega tækið sem þú gast verið tengdur hvar sem er,“ segir Helena og Birna bætir við: „Já, þetta var ákveðin bylting þegar bylgjurnar voru orðnar alls staðar. Þú gast haft tækið í vasanum hvar sem þú varst og svarað þegar þú vildir. Þetta er á sama hátt færanlegt sýningarrými sem við stefnum á að opna í mjög mismunandi rýmum. Nú erum við að vinna með RÚV, en ef þau hafa ekki áhuga á að vinna áfram með okkur, þætti okkur til dæmis mjög gaman að vinna með FM957 eða einhverjum allt öðrum.“

Tíminn er rýmið

Sequences hefur allt frá stofnun lagt áherslu á list sem unnin er eða sýnd er í rauntíma – gjörninga, myndbönd, eða aðra kvika myndlist. Í ár er þema hátíðarinnar „Sveigjanlegar stundir“ og segja aðstandendur GSM að það megi vel skilja sýningarrýmið út frá þessum meginþræði.

„Eitt af því sem við vildum leggja áherslu á var að þetta er rými, sýningarrými er bara eitthvert ákveðið pláss fyrir listina, það getur verið hvítt fullkomið rými, það getur verið bílastæðakjallari, gamalt hús eða tími í útvarpsútsendingu. Hérna erum við því að vinna með tímann sem rými, þetta pláss í dagskrá Rásar 1 sem rými,“ segir Birna. „Við sjáum þetta eiginlega fyrir okkur sem sjálfstæðar litlar sýningar, nokkrar innsetningar í hljóðbylgjum,“ bætir Helena við.

Listamennirnir fimm nálgast tímann í útvarpinu á ólíkan hátt, flytja verk sín ýmist í beinni útsendingu eða nota upptökur, einhver verkin eru nánast eins og hefðbundin tónlist, önnur eru hljóðmyndir byggðar á myndverkum og það er gjörningabragur á enn öðrum verkum.

„Myndlistarmenn þurfa náttúrlega svo oft að velta fyrir sér rýminu áður en þeir setja upp verk eða sýningar. Okkur fannst spennandi að fá ólíka myndlistarmenn til að sýna – ekki bara einhverja sem höfðu áður verið að vinna með hljóð. Okkur fannst ekkert minna spennandi að sjá þá reyna að þýða myndlistarverkin sín yfir í hljóð,“ segir Birna.

Þegar viðtalið er prentað er aðeins ein sýningaropnun eftir í GSM, þegar Styrmir Örn Guðmundsson sýnir verk sitt klukkan fjórar mínútur í tíu á föstudagskvöld á Rás 1. En sýningarnar munu hanga uppi næstu tvær vikur í Sarpinum á RÚV auk þess sem hægt verður að hlusta á þau um helgina í sérstökum GSM-grjónapúðum í galleríinu Ekkisens við Bergstaðastræti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 2 dögum

Silja Aðalsteins skrifar leikdóm um Allt sem er frábært – „Aðferðin sem Valur Freyr beitir er einlægni og hún fer honum vel“

Silja Aðalsteins skrifar leikdóm um Allt sem er frábært – „Aðferðin sem Valur Freyr beitir er einlægni og hún fer honum vel“
Menning
Fyrir 2 dögum

Hvaða kvikmynd verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna?

Hvaða kvikmynd verður framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna?
Menning
Fyrir 2 dögum

The Guardian lofar Lof mér að falla – „Mynd sem þú verður að sjá“

The Guardian lofar Lof mér að falla – „Mynd sem þú verður að sjá“
Menning
Fyrir 3 dögum

Bókin um gleðina – Varanleg hamingja í breytilegum heimi

Bókin um gleðina – Varanleg hamingja í breytilegum heimi
Menning
Fyrir 4 dögum

Framúrstefna í kvikmyndagerð og mannréttindamál í brennidepli

Framúrstefna í kvikmyndagerð og mannréttindamál í brennidepli
Menning
Fyrir 4 dögum

MAk leitar að ungum og hæfileikaríkum leikurum

MAk leitar að ungum og hæfileikaríkum leikurum
Menning
Fyrir 5 dögum

Gyða Valtýsdóttir sendir frá sér annað lag af væntanlegri plötu, Evolution

Gyða Valtýsdóttir sendir frá sér annað lag af væntanlegri plötu, Evolution
Menning
Fyrir 5 dögum

Ronja ræningjadóttir fyrsta frumsýning Þjóðleikhússins – Höfundur tónlistar verður gestur á frumsýningu

Ronja ræningjadóttir fyrsta frumsýning Þjóðleikhússins – Höfundur tónlistar verður gestur á frumsýningu