fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

„Í himnesku brjálæði“

Um afburðamanninn Stevenson á hátindi snilldarinnar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 29. janúar 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Höfundur: Einar Kárason

„Þegar Stevenson sat við skriftir á suðurhafseyjunni sinni, heyrði hann guðsrödd hið innra með sér. Hann spurði ekki, fletti ekki upp í bókum. Hann var afburðamaðurinn á hátindi snilldarinnar, hann fékk opinberanir. Hann var sjúkur, en skrifaði sig heilbrigðan í himnesku brjálæði. Hann las um okkur mennina á steinlímsöldinni og dó úr hjartaslagi.“

Undanfarandi orð er að finna í merkilegri bók eftir einn af mestu stílistum heimsbókmenntasögunnar; þetta skrifaði semsé Knut Hamsun í bókinni sem út kom eftir seinni heimsstyrjöldina, þegar hann var að verða níræður og bæði mátt þola ákærur um landráð, og vist á geðveikrahæli; hér er að sjálfsögðu um að ræða „Grónar götur“ í þýðingu Skúla Bjarkan. Og Stevenson sem hann skrifar um er skoskur kollegi Hamsuns, og reyndar ekki minna frægur: Robert Louis Stevenson. En sögu hans og skáldskap er rakið að rifja upp nú, því að nýkomin er á íslensku í heild sinni hans alfrægasta bók: „Fjársjóðseyjan“ (Treasure Island).

Sögur um jafnt ævintýri sem geðklofa

Einn af mest þýddu höfundum bókmenntasögunnar.
Robert Louis Stevenson Einn af mest þýddu höfundum bókmenntasögunnar.

Stevenson var 19. aldar maður, fæddur 1850 en lifði ekki lengi, dó 1894 (öfugt við Hamsun, sem hér var vitnað til; hann fæddist líka uppúr miðri 19. öld, en lifði fram á miðja tuttugustu). Stevenson er einn af mest þýddu höfundum bókmenntasögunnar, og hefur verið mærður af helstu snillingum, eins og til dæmis Borges, Brecht, Proust, Conan-Doyle, Hemingway, Kipling og Nabokov. Stevenson var fæddur í Skotlandi og var brjóstveikur frá barnsaldri svo að hinn raki svali Bretlandseyja hentaði honum ekki; á fullorðinsárum fann hann betra loftslag á Samóaeyjum í Kyrrahafi, en lést þar semsé rúmlega fertugur, eftir að hafa ferðast um Bandaríkin og víðar. Tvær af bókum Srevenson hafa orðið langfrægastar, og önnur þeirra gerist í þokuslungnu bresku borgarumhverfi: „The Strange Case of Dr. Jekyll and Mr. Hyde“ – sú dimma stúdía á tvíeðli sálarinnar, og hefur af sumum verið talið lykilrit í þróun skilningarinnar á geðklofa – hún kom út í nýrri íslenskri þýðingu Árna Óskarssonar fyrir fáeinum árum, og upp úr henni hafa verið gerðar frægar kvikmyndir. Vegna lélegrar heilsu var lífið Stevenson að sjálfsögðu um margt mótdrægt, og mörg ævintýri sem ungt fólk lætur sig dreyma um stóðu honum ekki til boða. Og menn hafa getið sér þess til að það hafi hann bætt sér upp með ímyndunarafli og frásagnargleði, en hin fræga bók hans sem nú er nýútkomin á íslensku, Fjársjóðseyjan, mun hafa átt upphaf sitt þannig að hann þurfti að segja ungum frænda skemmtilega kvöldsögu. Og útkoman varð hin stórbrotna frásögn bókarinnar.

Talandi páfagaukar

En það er merkilegt dæmi um hæfileika Stevenson, „afburðamannsins á hátindi snilldarinnar“ svo við vitnum aftur í Knut Hamsun, að foringi óvinanna í Fjársjóðseyjunni er jafnframt mest heillandi og ógleymanlegasta persóna bókarinnar.

Fjársjóðseyjan er ekta ævintýrasaga. Hún hefst á því að dularfullur maður, greinilega á flótta og að fela sig fyrir veröldinni, kemur á breska krá við sjávarsíðuna, og að honum látnum finnst í fórum hans kort af suðurhafseyju og með leiðbeiningum um hvar á henni megi finna sjóræningjafjársjóð. Og það er að sjálfsögðu búið út skip og haldið af stað. Segja má að þarna sé komin svona ekta bresk ævintýrbók, frá blómatíma heims- og flotaveldisins, og hefur kláran skyldleika við jafn ólíka höfunda og Daniel Defoe (Róbinson Krúsó) og Enid Blyton (t.d. Ævintýrahafið), en eitt af því sem þar er sameiginlegt er talandi páfagaukur; Defoe var reyndar fyrstur til að láta slíkan kveðja sér hljóðs í skáldsögu, eins og Stevenson viðurkenndi fúslega. Ég hef heyrt suma spyrja undrandi þegar ég tala um Fjársjóðseyju Stevenson, t.d. að undanförnu sem ein helstu tíðindi útgáfu síðasta árs, hvort hér sé ekki um „unglingabók“ að ræða. Satt er það að drengur á unglingsaldri segir drjúgan hluta sögunnar, en þegar skáldsaga er skrifuð af slíkri stílsnilld sem hér um ræðir og af jafn yfirfljótandi hugmyndaflugi, þá verður það ekkert minna listaverk út af þannig efnisatriðum; menn gætu eins farið að kalla Brekkukotsannál Laxness unglingabók vegna aðalpersónunnar.

Long John og Ben Gunn

Persónusköpunin í Fjársjóðseyju Stevenson er stórbrotin og ævintýraleg, en enginn jafnast samt á við þann litríkasta, Long John Silver; Langa Jón Silfurs. Einfætta sjóræningjann og mælskusnillinginn, sem einmitt gengur um með sinn talandi páfagauk á öxlinni; sá heitir eftir Flint skipstjóra sem á sínum tíma átti fjársjóðinn, eða „safnaði honum“ væri kannski réttara að segja. Sögunni vindur svo fram á einhvern þann hátt sem búast má við; það eru í bland sjóræningjar úr áhöfn gamla kapteinsins, Flint skipstjóra sem faldi fjársjóðinn, sem hafa munstrað sig á leiðangursskipið og þeir hyggja á uppreisn gegn góðu mönnunum, sem hafa uppdráttinn í fórum sínum, strax og gott tækifæri gefst til. En óvæntir atburðir verða, eins og þegar aðaldrengurinn rekst á mann þarna suður frá sem hafði verið skilinn einn eftir á fjársjóðseyjunni mörgum árum fyrr, og er auðvitað búinn að finna gullið og gersemarnar og færa á annan stað, þannig að það tjóar lítt fyrir uppreisnarmenn að ná kortinu á sitt vald. Sjóræningjarnir vita ekki af þeim sem var skilinn eftir, Ben Gunn, en heyra hann kalla og þekkja aftur röddina og verða dauðhræddir, halda að þar sé draugur að hrópa, en hinn snjalli Langi Jón Silfurs róar þá með því að benda á að rödd Ben Gunn endurkastist frá nálægum klettum, og kemur með þær eðlisfræðilegu upplýsingar að raddir drauga bergmáli ekki, eða að hann hafi í það minnsta aldrei heyrt um slíkt.

Það er skemmst frá því að segja að þýðing Árna Óskarssonar er alger snilld, viðheldur bæði ljóðrænu og klassískri upphafningu í textanum, en jafnframt húmor hans og glaðværð.

„Gulleyjan“

Ég hef heyrt suma spyrja undrandi þegar ég tala um Fjársjóðseyju Stevenson, t.d. að undanförnu sem ein helstu tíðindi útgáfu síðasta árs, hvort hér sé ekki um „unglingabók“ að ræða.

Þessi bók Stevenson hafði áður verið gefin út á íslensku undir nafninu „Gulleyjan“ og þannig þekkti maður söguna, bæði úr bíómyndum og gott ef ekki teiknimyndasögu. Þetta setti sjálfan mig í dálitla klemmu fyrir þremur áratugum þegar ég hafði ákveðið að gefa út tvær tengdar skáldsögur, undir titlunum Djöflaeyjan og Gulleyjan, því að mér fannst eins og önnur bók ætti, að minnsta kosti siðferðislega, réttinn á síðarnefnda titlinum. Ég ákvað þá að reyna að bjarga málunum með því að fara í gegnum upprunalega enska textann, las semsé bókina á frummálinu, í leit að tilvitnun sem ég gæti haft fremst í minni Gulleyju, og þannig kinkað kolli til Stevenson og sýnt hans bók virðingu. Og var meðal annars mjög snokinn fyrir ummælum Long John um draugana og bergmálið. En ég fann samt aldrei neitt sem myndi virka nógu vel með efni minnar Gulleyju, sem gerist í Thúlekampinum á Íslandi. En á endanum áttaði ég mig svo á því að þetta voru óþarfar áhyggjur, ég var ekkert að hnupla titli Stevenson, nema þá rangri þýðingu hans – hún heitir jú Treasure Island eins og hér hefur komið fram.

Margvíðar persónur og stór sýn

Í hasar- og ævintýrabókum hafa persónur tendens til að vera dálítið einvíðar; vondu kallarnir eru bara vondu kallarnir og ekkert nema það. En það er merkilegt dæmi um hæfileika Stevenson, „afburðamannsins á hátindi snilldarinnar“ svo við vitnum aftur í Knut Hamsun, að foringi óvinanna í Fjársjóðseyjunni er jafnframt mest heillandi og ógleymanlegasta persóna bókarinnar. Hann er gallharður glæpamaður, eins og við er að búast af manni úr hans starfsstétt, en jafnframt frábærlega mælskur, sjarmerandi og skemmtilegur. Og það er sérstaklega ánægjulegt, eins og þeir lesendur sem klára bókina munu sjá, hvernig Stevenson tekst að sneiða hjá því að láta Langa Jón fá þess konar „makleg málagjöld“, sem hefði verið leiðinlegt stílbrot fyrir söguna.

Það er stundum talað um að skáldsagnahöfundar hafi misstóra „sýn“ – „vision“; þá er kannski verið að tala um að höfundar hafi mismikla hæfileika til að sjá yfir stórt sögusvið. Íslensk dæmi um höfunda með „stóra sýn“ væri til dæmis höfundur Njálu, með hinn langa sögutíma, allar hinar ólíku persónur, það mikla landsvæði sem er undir, og hvernig smáir atburðir og sögulegir stórviðburðir leika jafnt á sviðinu í gegnum þá löngu bók. Sama mætti segja um höfund Íslandsklukkunnar, eða þá höfund Sturlungu. Og vilji menn njóta meistaraverks höfundar með mikla visjón þá er Fjársjóðseyjan eiginlega skyldulesning.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“

Ásdís Rán svaraði Heimi Má – „Ekki segja að ég geti það ekki, ég er hér núna“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir

Pungurinn virkar ennþá hjá Giggs – Fimmtugur og er að verða faðir
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Segir Roy Keane vera risaeðlu eftir ummæli hans um hlaðvarpið

Segir Roy Keane vera risaeðlu eftir ummæli hans um hlaðvarpið
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala

Tveir Bretar hætt komnir á Íslandi: Grét þegar hann sagði frá slysinu – Vinur hans enn á spítala