Menning

Ljóðskáld að skrifa skáldsögu

Síðasta ástarjátningin er skáldsaga eftir Dag Hjartarson

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 26. mars 2016 21:00

Síðasta ástarjátningin er skáldsaga eftir Dag Hjartarson. Ungur maður flytur til Reykjavíkur og verður þátttakandi í óvenjulegu verkefni æskuvinar síns. Á sama tíma fellur hann fyrir Kristínu. Verkið er ekki einungis ástarsaga því hin ýmsu þjóðfélagsefni eru einnig til umfjöllunar og persóna Davíðs Oddssonar er fyrirferðarmikil í verkinu. Dagur er spurður hvort skilgreina megi söguna sem ástarsögu með þjóðfélagslegu ívafi. „Ég held að ástarsaga með þjóðfélagslegu ívafi sé mjög fín skilgreining,“ segir hann.

Nokkurs konar ölvunarástand

Dagur hefur verið verðlaunaður fyrir ljóð sín, hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2013 fyrir ljóðabókina Þar sem vindarnir hvílast – og fleiri einlæg ljóð og fyrr á þessu ári hlaut hann Ljóðstaf Jóns úr Vör. Skáldsaga hans einkennist af ljóðrænum stíl. „Ég er ljóðskáld að skrifa skáldsögu. Þessi bók er mjög ljóðræn á köflum og þar er ég oft að bregða á leik,“ segir hann. „Ég held að á þessum tíma í lífi mínu hefði ég ekki nennt að eyða nokkrum árum í að skrifa skáldsögu sem einkenndist af köldum stíl. Ég þurfti að skrifa stíl sem kitlaði mig og kom mér í stuð.“

Lástu yfir stílnum eða kom hann auðveldlega til þín?

„Hann kom mjög auðveldlega en ég lá yfir honum eftir á og reyndi að gæta meðalhófs og ritstýra sjálfum mér án þess að slökkva á sköpunargleðinni. Þar sem ég er ekki í fullri vinnu við ritstörf var þessi saga skrifuð á fjórum árum. Ég vann í henni með hléum og ég hlakkaði alltaf til að fást við rödd sögumanns, það var nokkurs konar ölvunarástand fyrir mig.“

Það er gaman að lesa þessa bók. Hugsaðirðu meðvitað um það að skrifa bók sem lesandinn gæti skemmt sér yfir?

„Það væri mjög einfalt fyrir mig sem höfund að skrifa bara ljóðrænan texta en ég vil segja sögu og vil að lesandinn skemmti sér. Ég vil að lesandinn njóti stílsins en sömuleiðis húmorsins sem er þarna vissulega, hafi gaman af að lesa og vilji sjá hvernig þetta fer allt saman.“

Davíð þarna einhvers staðar

Það hlýtur að vekja athygli allra þeirra sem lesa bóka hversu áberandi Davíð Oddsson er í verkinu en stöðugt er vísað til hans og af margvíslegum tilefnum. Af hverju Davíð Oddsson?

„Fyrsta setning bókarinnar varð kveikjan að hugmyndinni: Ég hef ekki farið í klippingu síðan Davíð Oddsson var seðlabankastjóri“. Mér fannst þetta sniðug setning, það er líka einhver ljóðræna í henni og ég elti hana. Ég er fæddur árið 1986 og ég og mín kynslóð munum ekki eftir okkur öðruvísi en að Davíð Oddsson væri þarna einhvers staðar. Mér fannst fyndið og spennandi að draga hann inn í söguna. Ég er hvorki að taka afstöðu með honum né móti. Hann er þarna og vofir yfir.“

Hefurðu einhvern tímann hitt Davíð Oddsson?

„Ég hef aldrei talað við hann en hef nokkrum sinnum séð hann. Tilfinningin að sjá Davíð Oddsson er dálítið óraunveruleg, eins og að sjá einhvern svífa út úr sjónvarpinu. Ég þekki fólk á mínum aldri sem hefur verið að lesa bókina og síðan séð Davíð einhvers staðar, til dæmis í Melabúðinni þar sem hann er að setja mjólk í körfu. Því finnst það mjög sérstök tilfinning.“

Hefur hvarflað að þér að senda honum bókina?

„Nei, en hann er bókelskur maður með góðan smekk og vonandi ratar bókin til hans með sínum leiðum.“

Vitleysa að skrifa skáldsögu með fullri vinnu

Þú hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar, Verðlaun Tómasar Guðmundssonar og Ljóðstaf Jóns úr Vör. Hefur það virkað sem hvatning?

„Já, sannarlega. Það hefur líka komið sér vel fjárhagslega því ég hef aldrei fengið ritlaun þótt ég hafi sótt nokkrum sinnum um. Verðlaunin hafa verið mjög gott klapp á bakið og hvatning til að halda áfram þessu stússi.“

Spurður um næstu verk segist Dagur vera komin langt með ljóðahandrit og hann er einnig að vinna í skáldsögu en er stutt kominn. Hann er íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund og skrifar í frístundum. „Það getur verið lýjandi. Kemur ekki að sök hvað ljóðagerðina varðar en það er eiginlega vitleysa að skrifa skáldsögur með fullri vinnu. En ég legg ekki árar í bát. Við sjáum hvað setur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 4 dögum

Madonna fagnar stórafmæli með sjálfu frá Marrakesh

Madonna fagnar stórafmæli með sjálfu frá Marrakesh
Menning
Fyrir 4 dögum

Mangahátíð á menningarnótt

Mangahátíð á menningarnótt
Menning
Fyrir 1 viku

Rapparinn KÁ/AKÁ sendir frá sér nýtt lag: „Hér fáið þið að heyra mjúku hliðina á mér“

Rapparinn KÁ/AKÁ sendir frá sér nýtt lag: „Hér fáið þið að heyra mjúku hliðina á mér“
Menning
Fyrir 1 viku

Ritdómur um „Þorpið sem svaf“: Ljóslifandi persónur úr þorpi

Ritdómur um „Þorpið sem svaf“: Ljóslifandi persónur úr þorpi
Menning
Fyrir 1 viku

Listamannaspjall á lokadegi Djúpþrýstings

Listamannaspjall á lokadegi Djúpþrýstings
Menning
Fyrir 1 viku

Þú getur bjargað menningarverðmæti frá níunda áratugnum frá því að verða haugamatur

Þú getur bjargað menningarverðmæti frá níunda áratugnum frá því að verða haugamatur