fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

„Eins og draumurinn hafi aldrei rofnað“

Skegg Raspútíns

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 9. desember 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðrún Eva Mínervudóttir bregst ekki lesendum í nýútkominni bók sinni Skegg Raspútíns. Þar sýnir hún enn og aftur hvað hún er frábær höfundur og mikill grúskari, eins og sést hefur á öllum skáldsögum hennar, þar með töldum Yosoy (2005), Skaparanum (2008) og Allt með kossi vekur (2011). Líkt og í fyrri bókum hennar eru persónur verksins skapaðar af djúpstæðum áhuga á manneskjum og innilegri samkennd með mennsku þeirra. Kápuhönnun er í höndum Ragnars Helga Ólafssonar. Kápan sem sýnir mynd af konu undir vatnsyfirborði, umkringda gróðri, minnir óneitanlega á myndefni af Ófelíu úr Hamlet Shakespeares. Það hentar prýðilega sögunni sem á eftir fer.

Frásögnin í Skeggi Raspútíns flakkar á milli draumástands og vökustunda sem eiga sér stað á nokkrum mismunandi tímapunktum. Um er að ræða frásögn af vinkvennasambandi rithöfundarins Evu og lettneska garðyrkjumannsins Ljúbu, sem brotin er upp með löngum, martraðarkenndum draumi eða eins konar vitrun Evu. Inni á milli fléttast svo brot úr ævisögu Raspútíns, alræmds ráðgjafa Romanov keisaraættarinnar í Rússlandi á fyrri hluta 20. aldar. Verkið samanstendur þannig af þremur ævisögum; þeirra Evu, Ljúbu og Raspútíns, sem skarast, varpa ljósi á hver aðra og fléttast saman, svo að á köflum verður óljóst hver er ævisaga hvers. Stundum er Eva Raspútín, öðru sinni er Raspútín bara Raspútín og stundum er hann Ljúba. Og stundum er Eva ekki þessi Eva, heldur hin. En þannig er líka draumlógíkin: órökrétt, alveg eins og við viljum hafa hana.

Skegg Raspútíns er ekki bara merkileg skáldsaga um vináttu, sem nær langt út fyrir mörk raunveruleikans. Heldur snýst frásögnin að ákveðnu leyti um vöruskipti og einfaldari og hægari lífshætti í bændasamfélögum Lettlands, sem Ljúba kemur frá. Skiptin standa ekki eingöngu um veraldlegar vörur, svo sem grænmeti, heimabrugg og súrdeigsbrauð, heldur má segja að vöruskipti eigi sér stað á milli Evu og Ljúbu í formi sagna og vináttu. Líkt og meinhollt grænmetið, sem Ljúba sér Evu fyrir gegn vináttu, hlustun og stöku brauðhleif, verður frásögn þeirrar lettnesku að eins konar meðali fyrir Evu, sem tekur inn ævi Ljúbu í smáskömmtum. Eva þjáist nefnilega af svefnleysi. Neysla Evu á sögum Ljúbu tekur loks á sig svo þráhyggjukenndan blæ, að þegar endir er bundinn á söguna og persónulegur harmleikur á sér stað, grípur Eva til örþrifaráða. Það er þá sem draumsýnin hefst og fléttast inn í sögur Evu, Ljúbu og Raspútíns.

Sagan á sér þannig stað á mörgum tímaskeiðum. Þar á meðal er tími Raspútíns og Romanov keisaraættarinnar, æska og ævi Ljúbu og Evu, frásögn af vináttu þeirra, draumsýn og eftirmáli. Ótal þræðir tvinnast saman í þessari mögnuðu skáldsögu og ómögulegt verður að greina frá þeim öllum, eða greiða þá fyllilega í sundur. Sögupersónan Eva og höfundurinn Guðrún Eva Mínervudóttir tala báðar um að skrifa til þess að koma hlutunum heim og saman, þ.e. að skrifa til þess að skilja. Þannig birtast metaeiginleikar verksins líklega í sinni tærustu mynd. Hið sama má svo segja um lesandann, því hann verður að lesa til þess að skilja verkið. Skegg Raspútíns er ekki hugljúf skáldsaga sem hægt er að renna í gegnum á nokkrum kvöldstundum. Verkið er metnaðarfullt og höfundurinn sömuleiðis og fær lesandi tækifæri til þess að rýna í verkið til að komast til einhvers konar botns í því. Gagnrýnandi botnaði fyrst í verkinu um leið og hann skrifaði dóminn. En þannig er það einmitt með bestu bókmenntirnar, þær ýfa upp forvitnina og fá mann til þess að hugsa og langa til þess að skilja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Ashworth hefur fengið alveg nóg og fer með málið til dómstóla

Ashworth hefur fengið alveg nóg og fer með málið til dómstóla
Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka

Sigríður Hrund dregur forsetaframboð sitt til baka
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu

Ofurparið birtir ótrúlegt myndband – Nakin í sleik í sturtu
Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Enn einn leikmaðurinn bætist á meiðslalista Chelsea – Frá út tímabilið

Enn einn leikmaðurinn bætist á meiðslalista Chelsea – Frá út tímabilið
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Baunaði hressilega á fyrrum samstarfsmenn í sjónvarpinu: Var aldrei svona heppinn – ,,Gátu ekki dreift vatnsflöskum sín á milli“

Baunaði hressilega á fyrrum samstarfsmenn í sjónvarpinu: Var aldrei svona heppinn – ,,Gátu ekki dreift vatnsflöskum sín á milli“