fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Þorgerður Katrín segir huldumenn fylgjast með Íslendingum: „Þeir eru tilbúnir á hliðarlínunni“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 30. janúar 2019 19:00

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. Samsett mynd/DV/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, hefur miklar áhyggjur af auglýsingum, áróðri og fölskum upplýsingum sem dreift er á samfélagsmiðlum af svokölluðum huldumönnum. Slíkir huldumenn séu að fylgjast með þúsundum Íslendinga á Twitter og séu reiðubúnir til að beita sér með einhverjum hætti til að hafa áhrif á Íslendinga. Þetta fjallaði hún um á Alþingi í gær og í útvarpsþættinum Bítið á Bylgjunni  í morgun.

„Við erum að sjá auglýsingar sem enginn veit hver setur fram, áróður sem er beinlínis rangur, til dæmis mjög ósmekklegar auglýsingar sem beindust að persónu Katrínar Jakobs fyrir síðustu kosningar,“ sagði Þorgerður, í samtali við í Bítið í morgun.

Lýðræðislegum kosningum stafar ógn af samfélagsmiðlum

„Það steðjar raunveruleg ógn að þessu lýðræði sem við þekkjum í dag,“ sagði Þorgerður og benti á að dómsmálaráðherra Evrópu, Vera Jourová,  hafi tilkynnt aðildarríkjunum að kosningar væri ekki eins og við þekktum þær áður, vegna samfélagsmiðla, en áður hafði Þorgerður Katrín bent á hið sama í fyrirspurn hennar á Alþingi í gær þar sem hún sagði meðal annars:

„Skilaboðin eru mjög skýr. Það verða engar kosningar eins hér eftir. Við þekkjum dæmin: TrumpBolsonaroBrexit hafa hlotið framgang, orðið að veruleika að miklu leyti vegna hulduaðila í kosningum en líka vegna þess að þau hafa einfaldlega haldið á lofti röngum upplýsingum. Þetta vitum við. Hér á landi fjármögnuðu hulduaðilar auglýsingar í aðdraganda síðustu alþingiskosninga, hvort sem það voru íslenskir kjósendur, stjórnmálaflokkar, hagsmunaaðilar, eða hreinlega erlend ríki. Það vitum við ekki.“

Stjórnmálaflokkar þurfa að senda skýr skilaboð

Í aðdraganda alþingiskosninganna 2017 hóf Facebook síðan Kosningar að birta myndbönd og færslur sem telja má til áróðurs. Hart var þar meðal annars vegið að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, og hún meðal annars kölluð skatta glaða Skatta-Kata. Líklegt má þykja að Þorgerður Katrín sé að vísa til slíkra áróðurs síðna í málflutningi sínum. Sú síða er enn virk, en síðast birtist færsla á henni fyrir tveimur dögum. „Það eru dyggir stuðningsmenn sem taka að sér að gera allskonar óþrifnað og mér finnst það til vansa og það þarf að gefa út skýr skilaboð af hálfu flokkanna að það verði heldur ekki liði,“ sagði Þorgerður í Bítinu í morgun.

Facebook er að reyna að girða sig í brók og bara á einum degi núna í janúar þá lokuðu þeir 364 síðum sem voru með 794 þúsund fylgjendur, sem höfðu bara megintilgang að hafa áhrif í tilteknum löndum.“

Katrín Jakobsdóttir var kölluð „skatta glaða Skatta-Kata“ af huldumönnum fyrir síðustu kosningar.

„Það er verið að setja fram rangar upplýsingar, misvísandi upplýsingar með markvissum hætti,“ sagði Þorgerður og tók dæmi um svonefnda hulduaðila á miðlum á borð við Twitter sem safna upplýsingum, en talið er að slíkir fylgist með þúsundum Íslendinga og bíði þess að vera virkjaðir í einhverjum tilgangi, og erfitt að finna út hverjir standi að baki slíkum huldumönnum. Í fyrirspurninni á Alþingi í gær sagði Þorgerður:

„Í fréttum Ríkisútvarpsins í síðustu viku var rætt við sérfræðinga í netöryggismálum. Þar kom fram að svokallaðaðir gervimenn fylgjast með þúsundum Íslendinga á Twitter. Þeir hafa ekki verið virkjaðir enn sem komið er til að gera eitt eða neitt, en þeir eru tilbúnir á hliðarlínunni og munu geta beitt sér. Hvernig, vitum við ekki, en þeir munu geta beitt sér. Það er það sem við vitum.“

Hér má sjá nýjustu færslu frá nafnlausu-síðunni Kosningar:

Ábyrgð samfélagsmiðla mikil

Þó börn þyki eyða alltof miklum tíma á samfélagsmiðlum tók Þorgerður Katrín fram að henni þættu miðlarnir samt skemmtilegir og gæfu foreldrum tækifæri til að kynnast börnum sínum með hætti sem áður hafi ekki verið í boði.  Samfélagsmiðlar þurfi þó að gera sér grein fyrir að ábyrgð þeirra sé mjög mikil.

„Alveg ljóst að ábyrgð Facebook,  Twitter og Snapchat er gríðarlega mikil og þau eru að átta sig á því að það er verið að misnota þau líka með ákveðnum hætti. Þeir hafa líka verið að notfæra sér upplýsingar, eins og Facebook, söfnun og miðlun upplýsinga um einstaklinga og það er beinlínis hættulegt. og þess vegna getur kannski lítið ríki eins og Ísland eitt og sér, ekkert gert gagnvart þessum risum.“

Þorgerður telur alþjóðasamtök á borð við Evrópusambandið mikilvæg í þessum málum og nefndi þá sérstaklega persónuverndarreglur.

„Ég er í Nato-nefnd þingsins og sit í ákveðnum undirnefndum meðal annars í varnar- og öryggismálanefnd Nato og þar erum við að fá upplýsingar sem að mínu mati eru óhugnanlegar. Varðandi það hvernig ákveðin lönd eru að beita sér og skipta sér af kosningum.

„Svo eru hópar innan landanna sem nýta sér þessa samfélagsmiðla til að kynda upp. Við erum að sjá guluvestin eða hluta þeirra og maður skilur alveg ákveðna reiði en það er líka verið að miðla ákveðnum upplýsingum bak við tjöldin sem eru til að ýta undir óeirðir, ýta undir valdbeitingu og svo framvegis og það stuðlar að óöryggi í landinu og grefur undan lýðræðinu.“

Fjölmiðlar skipta máli en óeðlilegt að ríkismiðill sé á auglýsingamarkaði

Þorgerður segir fjölmiðla skipta gríðarlega miklu máli í þessu máli. „Þið sem starfið á fjölmiðlum þurfið þið að getað stólað á ýmislegt sem er sagt á miðlunum en líka stundum að verjast því og það er snúið fyrir ykkur,“ sagði Þorgerður en hún telur nauðsynlegt að breyta fjölmiðla landslagi á Íslandi. „Við verðum að halda áfram til dæmis að skoða aðstöðu sjálfstætt rekinna fjölmiðla og hvaða burði þeir hafa til að vera með sjálfstæða rýni og þetta gríðarlega misvægi á fjölmiðlamarkaði, með einn risa, ég held að það þurfi að taka það til endurskoðunar.“ Þorgerður telur nærtækast að Ísland beri sig saman við hin Norðurlöndin og nefndi til dæmis að á ríkismiðlum Noregs og Svíþjóðar sé ekki verið að auglýsa.

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera?

Þorgerður Katrín hefur áhyggjur af því að samfélagsmiðlar verði nýttir til að hafa áhrif á kosningar, eða annað á Íslandi og spurði því á Alþingi í gær:

„Nú eru rúm tvö ár í alþingiskosningar, kannski styttra. Ég spyr hæstvirtan forsætisráðherra: Hvað hyggst hún gera til að tryggja með sem bestum hætti að lýðræðinu steðji ekki hætta af þessum hulduaðilum, hvar sem þeir eru staddir í heiminum? Hvernig getum við komið í veg fyrir að þessir hulduaðilar, hver sem þeir eru og hvar sem þeir eru, fari að leika sér að lýðræðinu?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum

Helga Þórisdóttir búin að ná meðmælendum
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
Fréttir
Í gær

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann

Hefur þú stofnað bankareikning í Danmörku? Þá þarftu kannski að bregðast hratt við svo peningarnir þínir renni ekki í danska ríkiskassann
Fréttir
Í gær

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum

Facebook hafnaði kosningaauglýsingu Guðmundar Felix á undarlegum forsendum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí