Hjón af Vestfjörðum sem hlautu 2. vinning í Vikinglotto ásamt tveimur Dönum þann 19. desember síðastliðinn heimsóttu nýverið skrifstofu Íslenskrar getspár með vinningsmiðann góða sem færði þeim vinning upp á tæpar 22 milljónir.
Í tilkynningu frá Getspá kemur fram að bóndinn hafi keypt miðann hjá N1 á Þingeyri en þangað lá leið hans fyrst og fremst til að kaupa mjólk í kaffið. „Þegar á staðinn var komið ákvað hann að grípa með sér 10 raða sjálfvalsmiða og það reyndist verða hinn mesti happafengur því miðinn færði þeim rétt tæplega 22 skattfrjálsar milljónir í vinning. Það má því með sanni segja að það hafi verið heppilegt að heimilið hafi verið mjólkurlaust.“
Í tilkynningunni segir að vinningurinn komi sér aldeilis vel því hjónin voru farin að huga að endurbótum á heimilinu.
„Starfsfólk Íslenskrar getspár óskar hjónunum innilega til hamingju með þennan glæsilega vinning.“