Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært ellefu ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 164 kílómetra hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.
Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að þarna hafi verið á ferðinni erlendur ferðamaður sem gat ekki greitt sektina á staðnum. Sektarupphæð vegna brots af þessu tagi nemur 240 þúsund krónum.
Þá voru allmargir ökumenn sektaðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar meðan á akstri stóð og skráningarnúmer voru fjarlægð af fáeinum bifreiðum sem voru óskoðaðar eða ótryggðar í umferðinni.