Á seinasta ári fékk breska parið Gillian McRobbie og Andrew Heslop nóg af lífsgæðakapphlaupinu. Þau hættu í vinnunni, seldu allar eigur sínar og fóru með dætur sínar, sex ára og tveggja ára, á flakk um heiminn. Fyrsti áfangastaðurinn var Ísland. Síðan þá hefur fjölskyldan meðal annars heimsótt Portúgal, Króatíu og Montenegro og eru hvergi nærri hætt.
Áður en heimshornaflakk fjölskyldunnar hófst starfaði Andrew hjá öryggisfyrirtæki og Gillian vann sem herlæknir. Í samtali við Mirror segist Gillian vera með ólæknandi ferðabakteríu en hún fór til að mynda alein í fjögurra mánaða Evrópureisu þegar hún var 18 ára gömul. Þá bjó hún í Þýskalandi í þrjú ár á meðan hún starfaði í hernum og eftir það fór hún á flakk um heiminn og heimsótti Asíu, Ástralíu, Nýja Sjáland, Samóa eyjar og Cookseyjar áður en hún ferðaðist þvert yfir Bandaríkin. Eftir að hún sneri til baka til Englands kynntist hún Andrew og í kjölfarið eignuðust þau dætur sínar tvær. Við tók hefðbundið fjölskyldulíf en Gillian var með stöðuga útþrá og vissi að Andrew væri sama sinnis. Þegar hún bar undir hann þá hugmynd að fara í heimsreisu með börnin þá var hann ekki lengi að samþykkja það.
„Mig hefur alltaf dreymt um að fara í heimsreisu með börnin mín, jafnvel áður en ég eignaðist börn þá dreymdi mig um það,“ segir Gillian í samtali við Mirror.
„Af hverju að bíða? Það eru alltaf að fara að vera störf í boði og hús til sölu þegar við komum til baka.
Við viljum gera börnunum okkar kleift að spjara sig úti í hinum stóra heimi þegar þau eru orðin fullorðin. Hvernig eiga þau að læra það þegar þau sitja föst fyrir aftan skrifborð mestallan daginn? Þau læra langmest á því að fara út og lifa lífinu,“ segir hún jafnframt en dætur hennar fá svokallaða heimakennslu á meðan á ferðalaginu stendur.
Til að fjármagna ferðina seldi parið heimili sitt og notuðu hluta ágóðans til að kaupa minni eign til að leigja út. Þannig tryggðu þau sér fastar mánaðarlegar tekjur á ferðalaginu. Fyrir utan nokkra persónulega muni og spariföt seldu þau allar sínar veraldlegu eigur, þar á meðal bílana sína.
Gillian segir þau hafa haft efni á ferðlaginu með því að skrapa saman hverri einustu krónu. Þau hættu að kaupa hluti sem þau þurftu ekki, borðuðu sárasjaldan úti og voru dugleg að þefa uppi ýmiskonar afslætti og tilboð. Þá héldu þau bókhald yfir vikuleg matarinnkaup og versluðu föt og leikföng eingöngu á nytjamörkuðum sem Gillian segir „gott fyrir bæði veskið og plánetuna.“
Á ferðalögunum gistir fjölskyldan í Airbnb íbúðum og á farfuglaheimilum og þá hafa þau jafnframt fengið fría gistingu á heimilum fólks gegn því að vakta íbúðina á meðan.
Þessa dagana er fjölskyldan stödd í náttúruparadísinni Kosta Ríka og munu þau ekki snúa aftur til Bretlands fyrr en í október á þessu ári.
Gillian segir þau aldrei hafa litið til baka eftir að þau fóru á flakk, en þau hafa farið í stuttar heimsóknir til Bretlands á milli þess sem þau heimsækja hvert landið á fætur öðru. Hún segir ferðaáætlunina ekki vera niðurneglda, heldur séu þau opin fyrir öllu. Efst á óskalistanum eru Mexíkó, Belís og Bandaríkin.
Hún segir fjölskyldu og vini hafa haft mestar áhyggjur af öryggi dætranna á ferðalaginu en þær hafi að sjálfsögðu fengið allar nauðsynlegar bólusetningar áður en ferðalagið hófst. „Við reynum að ferðast á eins ódýran, og jafnframt öruggan hátt og mögulegt er.“
Hún ráðleggur öðrum foreldrum, sem vilja ferðast með börnin sín, að fara ekki of geyst í hlutina. „Þetta getur stundum verið dálítið yfirþyrmandi: allir þessir nýju staðir, hitinn, rakinn, hávaðinn, lyktin, umferðaröngþveitið og svo framvegis. Því er tilvalið að velja bara einn hlut á dag til að skoða og kanna.“
Hún segir þau ávallt gera viðeigandi öryggisráðstafnir á ferðalögum, eins og að flagga ekki verðmætum, forðast að vera úti seint að kvöldi og ávallt passa að aðstandendur viti hvar þau séu stödd. Það sé engu að síður ómögulegt að koma alfarið í veg fyrir áföll, enda eigi slæmir og ljótir hlutir sér stað víðsvegar um heiminn á hverjum einasta degi. Það sé tilgangslaust að lifa í stöðugum ótta.
Hún segist vilja ýta undir forvitni og ævintýraþorsa í dætrum sínum og hyggst halda áfram að fara með þær í styttri ferðalög eftir að heimsreisunni lýkur. Hún segist oft hafa fengið athugasemdir frá fólki sem segi henni að koma aftur til baka í veruleikann, þar sem börnin hennar þurfi á rútínu og stöðugleika að halda. Þessu er hún ósammála.
„Á ferðalögum lærir þú að fara út fyrir þægindahringinn og hugsa í lausnum auk þess sem þú temur þér sveigjanleika og umburðarlyndi og lærir að sýna heiminum væntumþykju og virða fjölbreytileikann.“