Það er ekki hægt að tala um að einhver eigi rétt á að gefa blóð heldur eiga sjúklingar rétt á að fá öruggt blóð, segir Þórólfur Guðnason sóttarvarnarlæknir. Mikið hefur verið rætt um bann við blóðgjöf homma á Íslandi eftir að ógleymanlegt atriði um það birtist í Áramótaskaupinu. Í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag var rætt við Þórólf um málið.
Þórólfur bendir á að ákveðnir blóðbornir sjúkdómar séu algengari hjá karlmönnum sem stunda kynlíf með öðrum karlmönnum. Á seinni árum hafi hins vegar komið í ljós að þessi hópur sé mjög misleitur, þar sé að finna fólk sem stundi ábyrgt kynlíf en svo aðra sem geri það ekki.
Þórólfur segir að það sé Blóðbankinn sem ákveði þessar reglur en ekki hans embætti. Í öðrum löndum sé farið að slaka á þessum reglum og gera þá að skilyrði að menn hafi verið í kynlífsbindindi fyrir blóðgjöf í einhvern tíma, frá fórum mánuðum upp í 12, eftir löndum. Ísland sé hins vegar eitt fárra landa þar sem blóðgjöf samkynhneigðra karlmanna sé enn með öllu bönnuð.
Þá sé verið að þróa betri skimunaraðferðir sem greini betur smitað blóð. Hins vegar sé vandamál að það getur tekið 2-3 mánuði frá því að smit á sér stað og þar til það verði greinanlegt í blóði.
Þórólfur segir að málið sé stöðugt til umræðu í velferðarráðuneytinu og ráðgjafarnefnd Blóðbankans sé nú að störfum og sé með þetta mál til umfjöllunar. Fróðlegt verði að sjá hvaða tillögur hún komi með til Blóðbankans í þessum efnum.