
Um hálftíuleytið í gærkvöld gerðist það atvik í miðbænum að maður stal ferðatösku af erlendum ferðamanni og hljóp á brott með hana. Ferðamaðurinn elti þjófinn en missti fljótlega af honum. Því miður fannst hvorki þjófurinn né taskan aftur.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar ásamt eftirfarandi:
Um fimmleytið í morgun ætluðu lögreglumenn að stöðva bíl í Bríetartúni en ökumaður sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögeglu. Hófst þá eftirför þar sem bílnum var ítrekað ekið yfir gatnamót á móti rauðu ljósi. Tókst að stöðva bílinn við Kringlumýrarbraut. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.
Klukkan 18 í gær var tilkynnt um innbrot í geymslu íbúðarhúsnæðis í Breiðholti. Var gluggi skemmdur en ekki er vitað hverju var stolið.
Á þriðja tímanum í nótt voru tveir menn handteknir eftir innbrot í Breiðholti. Voru þeir vistaðir í fyrir rannsókn málsins í fangageymslu.
Klukkan hálfsjö í gærkvöld var drukkinn maður handtekinn í hverfi 110 grunaður um húsbrot, líkamsárás, eignaspjöll, hótanir og fór ekki að fyrirmælum lögreglu. Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.
Á sama tíma var tilkynnt um innbrot í hús í Kópavogi. Farið var inn um glugga og jólapökkum ásamt fleiru stolið.