Að sögn lögreglu var mikið um slagsmál og ólæti í höfuðborginni í nótt og var mikill erill hjá flestum lögreglumönnum fram eftir nóttu.
Meðal margra mála má nefna að klukkan rúmlega fjögur í nótt var lögregla kölluð til vegna manns sem dyraverðir héldu föstum. Maðurinn sparkaði í lögreglumann og hótaði lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra líkamsmeiðingum. Hann gistir núna fangaklefa.
Um kl. 23 í gærkvöld var lögreglu tilkynnt um öskur og brothljóð frá íbúð í Vesturbænum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang voru þar tveir karlmenn í annarlegu ástandi sem reyndust vera með fíkniefni á sér og voru þeir handteknir m.a. fyrir hótanir og húsbrot.
Um klukkan 22:00 var ökumaður stöðvaður grunaður um ölvunarakstur. Ökumaðurinn neitaði að gefa öndunarprufu og var því færður á lögreglustöð þar sem hann var sviptur ökuréttindum.
Fleiri ökumenn voru handteknir vegna aksturs undir áhrifum, m.a. undir áhrifum kannabisefna.