Inga Lísa Hansen er fjölkær, sem þýðir að hún er opin fyrir því að vera í sambandi við marga einstaklinga í einu. Hún hefur átt bæði kærasta og kærustur á sama tíma en hún segir sambönd af þessu tagi eins misjöfn og þau eru mörg. Í útvarpsþættinum Ísland vaknar á K100 nú í morgun sagðist Inga hafa verið í kringum 18 eða 19 ára gömul þegar hún uppgvötvaði að hún væri fjölkær.
Hún byrjaði þá í sambandi með tveimur mönnum, samkynhneigðu giftu pari og var að eigin sögn „auka manneskjan“ í því sambandi: maki númer tvö. Annar maðurinn er pankynhneigður og hinn tvíkynhneigður. Þeir voru samþykkir því að Inga væri kærasta þeirra beggja en Inga tekur fram að ekki öll fjölkær sambönd virki þannig, í sumum samböndum væri hún kannski bara kærasta annars þeirra.
Hún segir að ekki hafi verið um framhjáhald að ræða enda hafi þetta verið með samþykki allra og engu hafi verið haldið leyndu. Hún mætti jafnvel í jólamat til þeirra.
„Annar maðurinn á barn úr fyrra sambandi og henni var svosem alveg sama að ég væri þarna. Ég var bara vinkona hennar sem kom í heimsókn og var með í jólamatnum og allt í góðu.“
Hún viðurkennir að það geti verið flókið að eiga marga maka í einu. Í dag á Inga Lísa einn unnusta og virðist vera opin fyrir því að eignast fleiri.
„Það er erfitt þegar ein manenskja vill fá meiri athygli eða meiri tíma með þér en hinir. Ég var búin að skipta þessu upp þannig að hver maki fékk tvo daga og svo fékk ég einn dag bara fyrir mig. Svo er kannski ein manneskja farin að vilja meira en það og er farin að taka tíma frá öðrum, þá verður þetta flókið.“
Á einum tímapunkti átti Inga þrjá maka: tvo kærasta og eina kærustu. Kærastan hennar var bara í sambandi með Ingu en ekki með mönnunum tveimur.
„Það gekk ágætlega í svona fjóra, fimm mánuði,“ segir Inga en hún kveðst ætíð gera fólki fyrir því í upphafi sambands að hún sé fjölkær, þannig að öll spil séu uppi á borðum.
Þá tekur hún fram að þó að hún sé í mörgum samböndum í einu þá snúist það ekki bara um kynlíf, heldur líka hrifningu og ást, rétt eins og í samböndum þar sem það eru tveir einstaklingar.
„Fyrir suma er þetta ekki eins náið, en fyrir mér er þetta ekkert minni ást heldur en ef þetta væri bara ein manneskja. Þetta er samband, það er bara ekki eins mikill tími með hverjum og einum.“
Hún segir móður sína og tengdamóður báðar taka lífstíl hennar með opnum hug og kveðst lítið hafa fundið fyrir fordómum.
„Ég lenti oft í samræðum við fólk sem er ekki í þessu og skilur þetta ekki. Ég reyni þá að útskýra eftir bestu getu.“