„Ég vona bara að fjölskylda barnanna átti sig og komi konunni til hjálpar,“ segir Helga Guðrún Gunnarsdóttir í samtali við DV en hún varð vitni að ofbeldi móður í garð tveggja barna sinna í fyrradag. Atvikið átti sér stað á gatnamótum Urðarbrautar og Borgarholtsbrautar á hánnatíma.
Hér fyrir neðan má lesa færslu Helgu Guðrúnar:
„Ofbeldi er ekki einkamál! Varð vitni í dag að sorglegu ofbeldi móður gegn tveimur ungum börnum gætu verið tveggja ára tvíburar, væntanlega sínum (?) Ég var að fara í vinnuna í sundlaug kópavogs kl. rétt fyrir 17. Mikil umferð. Ég heyri trylltann barnsgrát og stoppa við ljós og lít við. Þá sé ég börnin í stórum tvöföldum hjólabíl (leikfanginu sínu), öskrandi í ótta á gatnamótum Urðarbrautar og Borgarholtsbrautar. Þau hafa ekki mikinn kraft til að knýja svona stórann „bíl“ á móti vindi eða eiga yfir höfuð ekkert erindi svona ung í þetta leikfang.
Móðirin hafði strunsaði fyrir götuhornið og börnin sáu hana hverfa á braut. Þau urðu sturluð og öskrin yfirgnæfðu umferðargnýinn og hljóðin í rokinu, en hún lét sem hún sæi þau ekki. Annað barnið henti sér útur hjólinu og littli kroppurinn rúllaði niður í átt að akveginum. Náði sér á fætur og hljóp til hennar fyrir hornið. Hitt þorði ekki en stóðu sturlaði í leikfanginu. Hún tók bara upp símann og lét sem ekkert væri. Það var eiginlega kominn þarna massa umferðarhnútur.
Ég var að verða of sein í vinnuna og fór inn. Enn sé ég þessa mynd fyrir mér og ásaka mig fyrir að hafa ekkert aðhafst vegna þess að ofbeldi er ekki einkamál. Börnin virtust vön því að vera skilin eftir. Alla vega voru þau ekki róleg við hvarf hennar. Þetta var sársaukafullt á að horfa og eiga í huga sér.“
Í samtali við blaðamann segir Helga Guðrún að mikil umferð hafi verið á umræddum gatnamótum um þetta leyti í gærdag. Börnin hafi því augljóslega verið í mikilli hættu. Hún hefur fengið sterkar undirtektir við færslunni en hún kveðst einmitt hafa vonast til þess að frásögnin myndi vekja fólk til umhugsunar.
„Markmið mitt með færslunni var að það væri tekið eftir þessu, og sárabót fyrir mig vegna þess að ég brást þessum börnum og móðurinni með því að íhlutast ekki í þetta sjónarspil sem ruddist óþægilega inn í líf mitt.“