Öræfajökull hefur þanist út, jarðskjálftum hefur fjölgað á þessu ári og mælingar benda til þess að kvika sé að safnast fyrir undir jöklinum. Allt þetta gefur til kynna að jökullinn sé að búa sig undir eldgos.
Þetta er meðal þess sem kom fram á íbúafundi almannavarnarnefndar Hornafjarðar í Hofgarði í Öræfum í gærkvöldi. RÚV fjallaði um þetta í gærkvöldi og hafði eftir Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvávöktunar Veðurstofunnar , að fleiri jarðskjálftar, stærri en tveir, hafi mælst í jöklinum á þessu ári en í fyrra og að orkuupplausn í skjálftunum sé meiri en áður.
En hvað gæti það þýtt ef eldgos verður í Öræfajökli? Í nóvember í fyrra birti DV ítarlega umfjöllun um fyrri gos í Öræfajökli og er óhætt að segja að minnst eitt þeirra hafi verið býsna stórt. Eldgos varð í jöklinum árið 1362 og er það eitt mesta sprengigos sem orðið hefur á jörðinni undanfarið árþúsund.
Þetta sagði Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður, í samantekt á Stjörnufræðivefnum og var meðal annars stuðst við þá grein í umfjöllun blaðsins. „Það sem líklega kemst næst því af íslenskum gosum á sögulegum tíma er Heklugosið 1104 og þar næst Öskjugosið 1875 sem þó var minna. Gosið í Pinatubo á Filippseyjum 1991, sem olli víðtækum veðurfarsáhrifum, kemst sennilega næst því að vera svipaðrar stærðar og Öræfajökulsgosið 1362,“ sagði Sævar í grein sinni.
Langt er síðan síðast gaus í jöklinum, en það gerðist síðast árið 1727.
Í inngangi umfjöllunar Sævars Helga segir að í kvikuhólfum geti orðið breytingar á kviku á milli gosa. Líði langur tími getur magn gastegunda í kvikuhólfi aukist og endað með kröftugu og súru sprengigosi. Það gerðist árið 1362 þegar Öræfajökull vaknaði eftir að hafa legið í dvala í rúm átta hundruð ár. Gosið hófst í júní og er talið að fyrstu daga hafi mökkurinn náð í um 30 kílómetra hæð. Var gosið það mesta síðan að Hekla gaus um 800 árum fyrir Krist. Á Stjörnufræðivefnum er ekki vitað nákvæmlega hvar gaus en talið að það hafi verið í öskjunni sjálfri. Þar segir:
„Eldsumbrotunum fylgdu jökulhlaup undan Falljökli, Virkisjökli, Kotárjökli, Rótarfjallsjökli og Svínafellsjökli niður Skeiðarársand en Kvíárjökull hljóp á sjó út. Ekki er vitað hversu stór jökulhlaupin voru en leiða má líkum að því að þau hafi ekki verið stórkostleg og til þess benda raunar vegsummerki í fjallinu. Jökullinn var minni þá en nú vegna hlýindatímabils sem á undan var gengið. Hlaupið hefur þó án efa verið skelfilegt og kröftugt vegna mikillar fallhæðar niður fjallshlíðarnar. Úr orku þess dróg um leið og hlaupvatnið var komið niður á flatlendið þar sem það dreifðist um sandana. Mikill aurburður fylgdi hlaupinu svo þetta var eðjuflóð (lahar). Stór ísbjörg flæddu um sandana og hurfu á löngum tíma.“
Blómleg byggð var í nágrenni Öræfajökuls sem þá hét Litla-hérað. Þar var stunduð akuryrkja og talið að um 30 bæir hafi verið á því svæði. Gosið eyddi allri byggð.
Tveir eldfjallafræðingar, þeir Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson hafa uppi kenningar um að gjóskuflóð hafi eytt byggð í Litla-héraði. Á Stjörnufræðivefnum segir:
„Gusthlaup eru gríðarlega heit og draga allt súrefni úr andrúmsloftinu í sig. Hverjum manni og hverri skepnu sem fyrir verður bíður bráður bani.“
Dæmi um skelfileg gusthlaup er í eynni Martinique árið 1902 og þá varð gusthlaup í Pompeii á Ítalíu árið 79. Þar dóu allir borgarbúar.
Í merkilegri umfjöllun Gísla Sigurðssonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1970 um gosið sagði hann:
„Á örfáum klukkutímum breyttist sú blómlega byggð, sem ýmist var nefnd Hérað, Litla Hérað, eða Hérað milli sanda í ömurlega eyðimörk rjúkandi vikurs. Öskustrókurinn úr gíg Knappafellsjökuls var með þvílíkum ódæmum, að askan dreifðist um þriðjung landsins. En ógrynni vikurs og ösku hefur þó lent á haf út, enda segir í samtíma heimildum að vikurinn sást reka hrönnum fyrir Vestfjörðum, svo naumast komust þar skip áfram.“
Á Vísindavefnum segir um gosið 1362:
Gosið 1362 var eitt mesta gos Íslandssögunnar og líklega hið afdrifaríkasta sakir eyðileggingar. Gosið kom upp hátt í hlíðum fjallsins, líklega að verulegu leyti í öskju eða stórgíg í tindi fjallsins eða börmum hans. Þetta var þeytigos og gosefnin súr. Þau bárust upp af hlíðum fjallsins í hálfhring frá suðaustri til norðvesturs.
Afleiðingarnar voru gífurlegar. Byggð undir rótum fjallsins og á láglendi fram af fjallinu í austri, suðri og vestri, Litla-Hérað, lagðist af um fjölda ára og annálar leggja áherslu á að eyðing hafi verið algjör. Í Oddverjaannál segir svo: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“
Þegar sveitin var aftur numin eftir óþekktan tíma, nokkur ár eða áratugi, hafði svæðið fengið annað nafn, Öræfi. Giskað hefur verið á að í þessu gosi hafi á milli 250 og 400 manns farist. Þar með er það að öllum líkindum mannskæðasta gos Íslandssögunnar.
Þó gosið 1363 hafi verið gríðarstórt var síðara gosið árið 1727 öllu minna. Í umfjöllun á Stjörnufræðivefnum um það gos segir:
„Sunnudaginn 3. ágúst 1727 urðu snarpir jarðskjálftar í Öræfum sem enduðu með gosi í Öræfajökli. Gosið varð ekki í sjálfri öskjunni heldur opnaðist sprunga neðar í fjallinu við rætur jökulsins upp af Sandfellsfjalli. Á henni sáust sex eða sjö gosstrókar. Í þrjá daga myrkvaðist allt vegna gjóskufalls en birti til á fjórða degi og féll lítil gjóska eftir það. Í upphafi kom upp ísúr andesítgjóska en hraun huganlega eftir fyrstu gjóskuhrinuna. Gjóskufallið var mun minna en árið 1362, líklega aðeins um 0,25 km3, en gosið stóð fram í apríl eða maí 1728.“
Hér fyrir neðan má svo finna merkilega umfjöllun Gísla Sigurðssonar sem birt var í Lesbók Morgunblaðsins árið 1970 er nefndist Ferðaþættir úr Öræfasveit.
A örfáum klukkutímum breyttist sú blómlega byggð, sem ýmist var nefnd Hérað, Litla Hérað, eða Hérað milli sanda í ömurlega eyðimörk rjúkamdi vikurs.
Undir þeim jökli, sem hæst gnæfir á Íslandi öllu, kúra bæirnir í einfaldri röð; þeir eru átta talsins. Þó eru austan frá Kvískerjum og vestur að Skaftafelli hvorki meira né minna en 50 km. Hvergi annars staðar á landinu er um aðrar eins vegalengdir að fara innansveitar. Ekki er þó svo að skilja að átta bændur skipti þessu flæmi á milli sín. Á flestum bæjunum er margbýlt og bæirnir standa þétt saman á gróðursvæðum, sem hamfarir náttúrunnar náðu ekki að eyða. Alls staðar er jökullinn að baki eða snarbrattar og lítt grónar undirhlíðar hans. Fram undan: Flatlendi og sandar, þar sem ár flæmast um, óstöðugar í farvegum sínum, en fjær: brimgarðurinn við ströndina. Og síðan hafið. En austan við sveitina og vestan eru þær landsfrægu torfærur, seim fyrrum voru nefndar Lómagnúpssandur og Breiðárssandur ásamt þeim jökulfljótum, sem þar verða.
En hvers vegna þessi kaldranalega nafngift: Öræfi. Táknar það ekki venjulega óbyggð og auðn? Að vísu, en Öræfasveit hefur heldur ekki frá upphafi íslandsbyggðar borið þetta nafn. Það mun fyrst koma fyrir árið 1412, eða réttum fimmtíu árum eftir að þar urðu slíkar náttúruhamfarir að eyddi byggðina. Það var árið 1362. Þá stóð fólki í þessum hluta landsins sizt af öllu ógn af Öræfajökli, sem í þá daga nefndist Knappafellsjökull. Þar höfðu ekki sézt eldar uppi, enda höfðu eldstöðvar Knappafellsjökuls legið í dvala öldum saman, þegar þær vöknuðu skyndilega til lífsins vorið 1362. Telja jarðfræðingar, að gos af því tagi geti orðið með miklum ódæmum, og eru þær hliðstæður nefndar við þetta gos, er Hekla kaffærði byggð Þjórsárdals með vikri árið 1104, og gosið mikla í Vesúvíusi árið 79, sem gróf bæinn Pompeji svo í ösku, að öldum saman vissu menn ekki hvar hann hafði staðið. En víkjum ögn að jarðeldum Knappafellsjökuls vorið 1362.
Á örfáum klukkutímum breyttist sú blómlega byggð, sem ýmist var nefnd Hérað, Litla Hérað, eða Hérað milli sanda í ömurlega eyðimörk rjúkandi vikurs. Öskustrókurinn úr gíg Knappafellsjökuls var með þvílíkum ódæmum, að askan dreifðist um þriðjung landsins. En ógrynni vikurs og ösku hefur þó lenti á haf út, enda segir í samtíma heimildum að vikurinn sást reka hrönnum fyrir Vestfjörðum, svo naumast komust þar skip áfram. Sigurður Þráinssonar jarðfræðingur hefur áætlað, að samanlagt hafi aska fallið á svæði, sem væri nálægt þrefalt stærra en allt ísland, og samanlagt hafi þetta öskumagn numið 10 rúmkílómetrum. í síðasta Heklugosi leizt mönnum ekki á blikuna þegar vikurinn huldi túnin í Fljótshlíðinni, en til samanburðar má geta þess að öskumagnið 1362 hefur líklega verið 50 sinnum meira en frá Heklugosinu 1947.
Heimildir um hin válegu eldsumbrot og eyðingu héraðsins eru að vísu hvorki margar né fjölskrúðugar, en gefa þó í vissum atriðum glöggar hugmyndir. Skálholtsannáll segir að sandurinn hafi tekið í miðjan legg á sléttu, en rekið saman í skafla, svo að varla sá húsin. Þar er einnig sagt, að auk Litla Héraðs, hafi eyðst mikið af Hornafirði og Lónshverfi. Í Gottskálksannál segir svo: „í Austurfjörðum sprakk í sundur Knappafellsjökull og hljóp ofan á Lómagnúpssand, svo að af tók vegu alla. Á sú í Austurfjörðum, er tJlfarsá heitir, hljóp á stað þann er heitir að Rauðalæk, og braut niður allan staðinn, svo að ekki hús stóð eftir nema kirkjan.“ í Oddaverjaannál, sem að vísu er tekinn saman mun síðar, stendur þetta um eyðingu Héraðs. „Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“
Munnmæli síðari alda hermdu, að gífurleg vatnsflóð af völdum gossins hefðu lagt byggðina í eyði. Í seinni tíð hefur þeirri kenningu verið hafnað; vikurregnið hefur tvímælalaust átt drýgri þátt í eyðingu byggðarinnar. Þó mun gífurlegt, jökulhlaup hafa beljað fram, sín hvorum megin við kirkjustaðinn Sandfell, og af völdum þess hafa eyðzt allmargir bæir, sem stóðu frammi á sléttlendinu. Auk þeirra átta bæja, sem enn eru í byggð, kunna menn nöfn á 19 eyðijörðum. Frægust þeirra og mest var kirkjustaðurinn Rauðilækur, ekki alllangt frá Svínafelli. f máldaga frá ofanverðri 12. öld, er kveðið á um eignir og hlunnindi kirkjunnar á Rauðalæk, og sézt að þar hefur verið auðug kirkja. Ef hægt er að dæma eftir kirkjum og bænahúsum, hefur guðsótti og góðir siðir verið kennimark í Héraði milli sanda. Auk kirkjunnar á Rauðalæk hafa verið þrjár alkirkjur, með prestskyldu, tvær hálfkirkjur og ellefu bænahús. Er það hald manna, að bæir í Litla Hénaði hafi verið þrjátíu, eða jafnvel fjörutíu talsins.
Menn hafa löngum velt fyrir sér þeirri spurningu, hver hafi orðið örlög fólksins, þess er byggði héraðið undir hlíðum Öræfajökuls. Ef að líkum lætur hefur jarðskjálfti fylgt hinni fyrstu eldsuppkomu og trúlega hafa hús hrunið. En samkvæmt fenginni reynslu má ætla, að það hafi ekki orðið mörgum að fjörtjóni. En vel má ímynda sér þetta nauðstadda fólk á flótta austur með fjöllunum. Það veður öskuna í mjóalegg. í myrkrinu heyrir það ofstopafullan hávaða af jöklinum. Trúlega eru aðeins brýnustu nauðsynjar með í för inni en öskurykið svo þétt að sumum liggur við köfnun, og auk þess regn vikurhnullunga. Af þessum flótta fer litlum sögum og kannski er ómengað sannleikskorn í hinni samþjöppuðu setningu Oddaverjaannáls:
„Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“
Í samtali við RÚV í gærkvöldi sagði Kristín að allar mælingar sýni að Öræfajökull sé að búa sig undir gos. Hafði RÚV eftir henni að ekki sé hægt að segja nánar til um hversu mikla kviku þurfi til að nægur þrýstingur myndist og gos verði. Fylgjast verði vel með framvindu mála.
Í nóvember í fyrra var fjallað nokkuð um Öræfajökul enda hafði orðið vart við aukna skjálftavirkni í jöklinum. Þá hafði myndast ketill á snjóbungunni sem var væntanlega vegna jarðhita sem náð hafði að bræða ísinn. Þegar Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur var spurður hvað ætti sér stað í jöklinum sagði hann:
„Við vitum það að hann er farinn af stað. Hann er að gera sig kláran í gos. Það er alveg klárt. Svo kemur bara í ljós hve lengi hann er að vakna. Þetta er stórt og mikið eldfjall. Stendur nokkuð langt frá heita reitnum. Það er kalt en ekki heitt eldfjall. Þannig að fyrir kvikuna að komast upp er átak. Það þýðir að skjálftavirkni þarf að aukast töluvert. Hins vegar er mjög erfitt að segja til um hversu langan tíma það tekur. Eyjafjallajökul, 16 til 18 ár. Það má vel vera að það taki Öræfajökul ekki nema nokkra mánuði að skila sér í gos en það verður bara að koma í ljós.“