Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins hefur borist töluvert mikið af kvörtunum undanfarið sem snúa að þjónustu bráðamóttöku Landspítalans við krabbameinssjúklinga og aðstandendur. Krabbameinsfélagið fundaði með fulltrúum spítalans vegna málsins þann 21.september síðastliðinn.
Í tilkynningu á vef Krabbameinsfélagsins kemur fram að fólk hafi meðal annars kvartað undan löngum biðtíma, takmörkuðum úrlausnum og fjölda endurkoma.
„Nánast öll krabbameinsmeðferð er veitt á dagvinnutíma á göngudeildum og flestir eru því heima hjá sér megnið af meðferðarferlinu. Ótvíræðir kostir fylgja því auðvitað að þurfa ekki að vera inniliggjandi á spítala en álagið getur líka verið mikið á sjúklinga og aðstandendur.
Til að draga úr því álagi er mikilvægt að upplýsingastreymi sé gott, samfella í þjónustu og gott aðgengi að meðferðaraðilum. Komi eitthvað upp í kjölfar meðferðar er mikilvægt að hægt sé að bregðast við hratt og örugglega en því miður er það svo í dag að eftir kl. 16 á daginn eða um helgar verða sjúklingar að leita á bráðamóttöku spítalans, sem margir hafa því miður ekki nógu góða reynslu af,“
segir í tilkynningu. Umræddan fund sátu framkvæmdastjórar flæði- og lyflækningasviðs, framkvæmdastjóri hjúkrunar og lækninga auk forstjóra spítalans ásamt forstöðumanni Ráðgjafarþjónustu félagsins og framkvæmdastjóra félagsins.
„Viðbrögð stjórnenda spítalans voru með þeim hætti að full ástæða er til að vænta úrbóta sem vonandi munu líta dagsins ljós fljótlega. Krabbameinsfélagið mun fylgja málinu eftir og boðaður hefur verið annar fundur í byrjun nóvember.“