„Óttinn við að fá blóðtappa um borð í flugvél hefur alltaf verið til staðar aftast í huganum. Og fyrir þremur vikum varð þessi ótti að veruleika.“ Þetta ritar Lindsey Campell ritstjóri tímaritsins Travel + Leisure .Í byrjun sumars dvaldi Lindsey í viku á Íslandi ásamt vinum sínum og var yfir sig hrifin af landi og þjóð. Íslandsförin endaði þó öðruvísi en ætlað var þegar Lindsey fékk blóðtappa í fótinn í flugvélinni á leiðinni heim. Hún segir frá þessari óhugnanlegu reynslu Magazine í pistli sem birtist á ferðavefnum The Points Guy.
Lindsay kveðst vera annálaður heimshornaflakkari, en hún hefur skrifað um ferðalög fyrir blöð og tímarit í tæpan áratug og margar greinar hennar hafa einmitt innihaldið hagnýt ráð um hvaða skuli gera og hvað skuli ekki gera á ferðalögum erlendis. Hún segir möguleikanná því að fá blótappa í flugvél í raun hafa verið það eina sem hún hafi nokkurn tímann verið stressuð yfir á ferðalögum sínum um heiminn. Titill greinarinnar er: „Ég fékk blóðtappa í 6 tíma flugi heim frá Íslandi. Svona getur þú komið í veg fyrir að lenda í því sama.“
„Ég hef oft rætt þetta við vini og vinnufélaga en yfirleitt höfum við þá náð að blása á þessar áhyggjur, enda langalgengast að þeir sem fái blóðtappa í flugi séu annaðhvort með einhvern undirliggjandi sjúkdóm eða séu búnir að sitja grafkyrrir í átta klukkutíma eða lengur. Þess vegna hef ég alltaf passað mig á að því að teygja úr mér og hreyfa fæturna reglulega í flugferðum og standa upp einu sinni eða tvisvar og fá mér göngutúr á salernið.“
Lindsey tekur fram að hún sé 29 ára gömul, hraust og í góðu formi og eigi sérstaklega auðvelt með að festa blund í löngum flugferðum.
„Á leiðinni til Íslands tókst mér að dotta mest allt flugið og þegar við lentum var ég úthvíld og tilbúin í ævintýri,“ ritar Lindsey sem dvaldi vikulangt á Íslandi ásamt vinum sínum og heimsóttu þau meðal annars Snæfellsnes og Landmannalaugar, klifu fjöll og firnindi, böðuðu sig í heitum hverum og dáðust að landslaginu. Lindsey segir ferðina hafa verið „ótrúlega“ en hún hafi engu að síður verið úrvinda undir lokin.
Síðan kom að heimför en Lindsey og vinir flugu frá Keflavík til New York með vél WOW Air flugfélagsins. Lindsey kveðst hafa sofnað í vélinni og ekki rankað við sér fyrr en rúmlega 6 klukkutímum síðar, þegar tilkynnt var í kallkerfinu að vélin myndi lenda innan skamms. Hún hafði setið með krosslagða fætur mest allan tímann.
„Ég teygði úr fótunum undir sætinu fyrir framan mig. Skyndilega tók ég eftir því að kálfarnir á mér voru frekar aumir. Skyndilega flaug að mér að þetta gæti verið blóðtappi en ég hristi það samstundið af mér og fullvissaði sjálfa mig um að að þetta væri bara óþarfa vænissýki í mér,“ ritar Lindsey og bætir við að hún hafi eytt vikunni áður í fjallgöngur á Íslandi. Hún ályktaði því að það væri eðlilegt að finna fyrir verk í fótum eftir slík átök.
„Þegar vélin byrjaði að lækka flugið þá fór mér að líða skringilega og ég hélt í fyrstu að þetta væri ofþornun. Ég fékk mér vatnssopa og stóð upp til að fara á salernið.“
Lindsey kveðst hafa orðið sjóðheitt og fundið fyrir svima þar sem hún var á leiðinni á salernið. Hún hafi því sest niður í autt sæti í vélinni og beðið eina flugfreyjuna um glas af appelsínusafa.
Hlutirnir urðu óskýrari í kringum mig og hendurnar byrjuðu að titra þar sem ég sat og drakk safann. Um það bil korteri síðar fór mér að líða aðeins betur og settist þá aftur í sætið mitt.“
Þegar Lindsey steig út úr vélinni og gekk inn í flugstöðina fann hún hún fyrir sárum verk í vinstri fæti. Á leiðinni heim sagði hún vinum sínum að hún hlyti að hafa tognað svona illa í ferðinni. Verkurinn ágerðist hins vegar stöðugt næstu daga og olli henni miklum kvölum. Fjórum dögum eftir heimkomuna var hún haltrandi um og leið afar óþægilega. Þegar unnustu hennar prófaði að nudda á henni fótlegginn og þrýsti á hann byrjaði Lindsey að gráta, sársaukinn var svo óbærilegur. „Það var þá sem að tilhugsunin um blóðtappa byrjaði aftur að læðast inn í hausinn á mér.“
Eftir að hafa „gúglað“ frá sér allt vit ákváðu Lindsey og unnusti hennar að leita á bráðamóttökuna. Lindsey gekkst undir blóðprufu og ómskoðun og fékk blóðþynnandi lyf. Læknar staðfestu að blóðtappi hefði myndast í bláæðunum í kálfa hennar. Um var að ræða deep vein thrombosis sem útleggst á íslensku sem „blóðtappi í djúpum bláæðum ganglima (DVT)
Lindsey þurfti að dvelja áfram á spítalanum svo hægt væri að fyrirbyggja að tappinn myndi færast upp í lungun eða hjartað. Hún var þvínæst send heim með blóðþynnandi lyf og fyrirmæli um að stunda mikla hreyfingu. Þá þurfti hún að gangast undir frekari rannsóknir og sneiðmyndatökur næstu daga og vikur svo hægt væri að úrskurða hvað hefði orsakað blótappann.
Í ljós kom að það voru engir undirliggjandi þættir hjá Lindsey sem ollu því að blóðtappinn myndaðist. „Ástæðan var einfaldlega sú að ég að svaf svo fast í flugvélinni, með krosslagða fætur. Líkaminn var því of lengi í algjörri kyrrstöðu og þar með myndaðist tappinn,“ ritar Lindsey sem einnig var tjáð af lækni að DVT geti myndast eftir aðeins fjögurra klukkustunda kyrrsetu.
„Nú spyrja líklega flestir hvernig þetta getur staðist þar sem að flestir einstaklingar sofa lengur en í fjóra klukkutíma á nóttunni. Hvers vegna fáum við þá ekki blóðtappa á hverri nóttu?
Svarið við því er að það er náttúrulegt fyrir líkama okkar að vera á hreyfingu í svefni. Þegar við erum innilokuð í litlu rými, eins og í bíl eða í þröngu flugvélarsæti þá hefur líkaminn ekki eins mikið svigrúm.“
Lindsey endar pistilinn á því að deila nokkrum góðum ráðum sem læknirinn gaf henni til þess að fyrirbyggja blóðtappamyndum í löngum flugferðum.
Hreyfðu þig í sætinu
Hversu lítið sem sætarýmið er þá skaltu reyna að hreyfa fæturna reglulega, snúa ökklunum í hringi og sveifla fótunum fram og áfram í smástund.
Stattu upp á klukkutíma fresti
Það tekur mun styttri tíma fyrir blóðtappa að myndast heldur flestir gera sér grein fyrir og eftir fjórar klukkustundir af kyrrsetu eykst áhættan. Því er gott að standa upp á klukkutíma fresti og teygja úr fótunum og rölta á salernið. Það þarf ekki meira en nokkura metra göngu til að fá blóðrásina á stað.
Þekktu einkennin
Lífshættulegt ástand getur skapast ef að blóðtappi í fæti færist yfir í hjarta eða lungu viðkomandi. Það er því ekki galið að kynna sér helstu einkenni á borð bólgu, sársauka og roða. Verði þessara einkenna vart er brýnt að leita læknisaðstoðar sem fyrst til að koma í veg fyrir að mögulegan skaða.