Í vikunni birti DV hugljúft myndskeið af ungum dreng sem lék sér við óvenju gæfan ref. Fór afar vel með á þeim félögum og bræddi myndbandið eflaust ófá hjörtun. Refurinn heldur sig til við Ferðaþjónustuna á Mjóeyri, skammt frá Eskifirði, sem er lítið fjölskyldufyrirtæki í eigu Sævars Guðjónssonar og Berglindar Ingvarsdóttur. Þangað var yrðlingurinn fluttur eftir að hafa fundist yfirgefinn í greni og unir hag sínum vel. Það eru þó ekki allir ánægðir með kynni sín af refnum.
„Við heimsóttum þennan stað í byrjun ágúst á þessu ári. Það var hræðileg reynsla því refurinn réðst samstundis á sex ára son minn þegar hann labbaði að honum. Það var í raun heppni að ekki hafi farið verr því ég náði að rífa barnið upp af jörðinni og frá refnum. Sonur minn var var mjög hræddur og brotinn eftir þessa reynslu,“ segir Freyja Ösp Burknadóttir í samtali við DV. Að hennar mati er stórhættulegt að halda villt dýr með þessum hætti og hvað þá að auglýsa veru þeirra þannig að þau séu sérstakt aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Í samtali við DV staðfestir annar eigandi Ferðaþjónustunnar, Berglind Ingvarsdóttir, að umrætt atvik hafi átt sér stað en að um einangrað tilvik hafi verið að ræða. „Við hörmum það mjög að þetta hafi átt sér stað. Þetta er villt dýr og við leggjum upp úr því að gestir okkar séu meðvitaðir um það. Við höfum fengið gríðarlegan fjölda af ferðamönnum, íslenskum og erlendum, til okkar og þessi gæfi refur hefur slegið í gegn. Það hefur ekki neitt annað tilvik átt sér stað,“ segir Berglind. Hún gerir ráð fyrir því að eðli refsins muni segja til sín og hann haldi brátt til fjalla. „Náttúran er svo sterk í þessum dýrum. Hann er byrjaður að láta til sig hverfa í 1–2 daga og ég reikna með því að fljótlega muni hann ekki snúa aftur heim,“ segir Berglind.