Sigurður Pétur Sölvason hefur starfað sem bílstjóri í fjórtán ár. Hann kveðst finna mikið fyrir góðærinu í vinnunni, álagið hafi aukist og mikið sé að gera, en þrátt fyrir það segist hann ekki finna fyrir því á eigin skinni – pyngjan hans þyngist ekki.
Sigurður er einn þeirra sem stígur fram í átakinu Fólkið í eflingu. Á heimasíðu átaksins er bent á að í Eflingu séu um 27 þúsund félagar sem vinni mikilvæg störf í íslensku samfélagi en oft á lágum launum.
„Störf félaganna eru mörg og margskonar á veitingahúsum, í fyrirtækjum og verksmiðjum sem væru varla starfandi ef það væri ekki vegna fólksins í Eflingu, hug þeirra og hendur. Fólkið í Eflingu stendur við vélarnar, þjónar, skúrar, bónar og annast börnin, sjúka og aldraða. Hér á síðunni eru nokkrar sögur sem gefa okkur hugmynd um líf og aðstæður fólksins í Eflingu.
Sigurður bendir á það í sinni sögu að hann hafi starfað í fiskvinnslu heima á Snæfellsnesi áður en hann flutti í bæinn.
„Árið 2013 keyptum við hjónin saman smá kytru, 60 fermetra íbúð í Seljahverfi. Við erum fjögur í heimili og stundum fimm þegar minn elsti er hjá okkur. Ég hef keyrt fyrir Gámaþjónustuna í 14 ár. Ég tók hlé í sex mánuði og prófaði aðra vinnu en fór síðan aftur í gamla starfið. Ég keyri með farm fram og tilbaka, sæki og losa. Ég finn mikið fyrir góðærinu í vinnunni, álagið hefur stóraukist, það er mikið að gera. Hinsvegar finn ég ekki sjálfur þennan kaupmátt sem allir tala um, pyngjan mín þyngist ekki,“ segir Sigurður og bætir við að engin breyting virðist vera hjá almúganum.
Hann viðurkennir að hann þurfi að fylgjast betur með sínum útgjöldum og ekki kaupa neinn óþarfa. „Ég keypti mér að vísu notað fellihýsi sem virðist hafa átt líflegri daga,“ sagði hann og bætti við að fellihýsið myndi vonandi koma að góðum notum í sumarfríinu með fjölskyldunni.
Fleiri sögur má nálgast á heimasíðu Eflingar.