„Ég vona innilega að þetta geti komið í veg fyrir að einhver annar þurfi að lenda í sömu upplifun. Ég er mjög varkár og ábyrg þegar kemur að svona hlutum en lenti samt í þessu,“ segir Sunna Kristín Gunnlaugsdóttir en hún varð fyrir leiðinlegri reynslu nú á dögunum þegar óprúttnir aðilar komust yfir kortaupplýsingar hennar og tæmdu debetkorteikning hennar í kjölfarið. Hún hvetur einstaklinga til að passa vel upp á kortaupplýsingarnar sínar.
Í samtali við DV segist Sunna Kristín í raun ekki hafa hugmynd um hvernig þrjótarnir komust yfir kortanúmerið hennar.
„22 ágúst síðastliðin var ég, eins og öll önnur kvöld, búin að koma börnunum í háttinn. Ég lá í rólegheitum upp í rúmi að peppa mig í að fara fram og ganga frá, setja í vél og bara þetta venjulega sem bíður okkar fullorðna fólksins í lok dags. Ég fæ símhringingu frá númeri sem ég kannast ekki við og þegar ég svara kynnir sig kona, sem ég man ekki alveg nafnið á en vill segja María, og segist vera að hringja frá Borgun.“
Í ljós kom að verið var að notast við kortaupplýsingar Sunnu einhvers staðar í Svíþjóð, á meðan Sunna var heima hjá sér í Keflavík að koma börnum sínum í rúmið. Þjófurinn, eða þjófarnir höfðu þá gert nokkrar tilraunir til að draga háar fjárhæðir af kortinu og tókst það tvisvar sinnum. Allt í allt náðu þeir að stela 140 þúsund krónum.
„Ég kíki í heimabankann og jú, staða reiknings 176 kr. Búið að gjörsamlega hreinsa út debetkorta reikninginn minn. Eitthvað sem mér hefði ekki dottið í hug að væri einu sinni í boði. Þannig að á meðan ég var að koma börnunum mínum í háttinn, heima hjá mér, voru óprúttnir aðilar í Svíþjóð að ræna mig.
Hversu súrt?“
Kortið sem um ræðir var hefðbundið debetkort sem Sunna hafði aðeins notað í rúmlega tvo mánuði. Möguleiki er á því að kortaupplýsingarnar hafi verið afritaðar í gegnum viðskipti á netinu en Sunna kveðst eingöngu hafa notað kortið á öruggum vefsvæðum á borð við App Store og Steam, og breska netverslun sem hún veit fyrir víst að er þekkt og áreiðanleg. Þá er hún með kortaveski sem ekki er hægt að skanna í gegnum og hafði aðeins einu sinninotað kortið í hraðbanka.
Korti Sunnu var lokað um leið og voru færslunar tvær bakfærðar en hún gæti þurft að bíða í allt að tvo mánuði eftir því að fá peninginn aftur. Það reyndist henni til happs að þrjótarnir höfðu ekki komist yfir pin númerið hennar en þá hefði verið erfiðara fyrir hana að fá upphæðirnar bakfærðar inn á kortið. Sunna kveðst engu að síður vera hvekkt eftir þessa reynslu. Hún brýnir fyrir fólki að passa hvar það skráir inn kortanúmerin sín og jafnframt að geyma ekki himinháar fjárhæðir inn á þeim reikningum sem tengdir eru við greiðslukort. Þá skiptir einnig máli að fylgjast vel með öllu í kringum sig á meðan verið er að nota kortið.
„Ég er búin að fara í gegnum þetta í hausnum á mér aftur og aftur og grandskoða heimabankann. Mér skilst að þetta eigi ekki að geta gerst en sé að færast mjög í aukana. Það er greinilega aldrei of varlega farið.“
Í mars á seinasta ári sendu íslensku viðskiptabankarnir viðskiptavinum ný snertilaus debetkort sem leysti þá hólmi eldri gerð debetkorta. Með þessum kortum getur hver sem er greitt allt að 5.000 krónur í hverri færslu með því einungis að leggja kortið upp að posanum. Í grein DV kom fram að Gísli B. Árnason, rannsóknarlögreglumaður væri gagnrýninn á þessa nýju tegund greiðslukorta. „Eftir að hafa sem rannsóknarlögreglumaður rannsakað fjölmörg sakamál er varða fjársvik út af glötuðum eða stolnum greiðslukortum tel ég nokkuð öruggt að með því að ekki þurfi lengur að slá inn lykilnúmer muni glæpir sem tengjast þessum nýju greiðslukortum aukast til muna.“
Í tilkynningu frá Landsbankanum kemur fram að nýju kortin séu jafnörugg og hin eldri. Brýnt er fyrir korthöfum að gæta vel að PIN númerum, en dæmi séu um að þjófar fylgist með þegar PIN-númer er slegið inn og reyni síðan að stela kortinu.
Sömu reglur gilda um ný debetkort Landsbankans og um eldri tegundir korta, þ.m.t. ef kortinu er stolið og það misnotað. Hætta á tjóni korthafa hefur því ekki aukist með nýjum debetkortum. Færslugjöldin eru einnig hin sömu og þau hækkuðu ekki vegna innleiðingu nýrra korta.
Fjárhæðin sem greidd er með snertilausum hætti getur ekki farið yfir 5.000 krónur í hvert skipti og uppsöfnuð fjárhæð án þess að PIN-númer sé slegið inn getur ekki orðið hærri en 10.500 krónur. Til að auka öryggi þarf af og til að að setja kortið í posann, slá inn PIN-númer kortsins og staðfesta úttekt, þó svo verið sé að kaupa fyrir lægri fjárhæð en 5.000 kr.
Mikilvægt er að gæta vel að kortum sínum og korthöfum ber að láta loka þeim ef þau glatast eða þeim er stolið. Sé snertilausu korti Landsbankans stolið og takist þjófnum að taka út af því fé með sviksamlegum hætti, án þess að PIN-númer sé notað, ber korthafi ekki ábyrgð á tjóninu.