Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af manni í morgun sem óð inn í ónefnda verslun og stóð þar gargandi. Að því er segir í skeyti lögreglunnar neitaði maðurinn að yfirgefa verslunina þegar starfsfólk óskaði eftir því.
Þegar lögreglumenn bar að garði reyndu þeir að ræða við manninn. Brást maðurinn illa við og reyndi að kýla annan lögregluþjóninn. Vegna skjótra viðbragða lögreglumannsins tókst honum ekki ætlunarverk sitt.
Dagurinn hefur að mestu verið rólegur í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en auk atviksins hér að ofan var tilkynnt um umferðaróhapp við Höfðabakka. Engin slys urðu á fólki.