Á ellefta tímanm í gærkvöld var lögreglunni tilkynnt um slys á konu í íbúð við Lækjargötu. Níræð kona hafði fallið í baði og komst ekki upp aftur. Talið er að konan hafi verið í þessu ástandi í einn og hálfan sólarhring. Þrátt fyrir þetta amaði lítið að henni.
Strætó ekið á tvo bíla
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Þar segir einnig frá umferðarslysi sem varð á Dalvegi/Smiðjuvegi í gær. Strætisvagni var ekið á miklum hraða í hringtorg á tvo bíla og upp á umferðareyju. Ökumaður og farþegi í öðrum bílnum kvörtuðu undan eymsli í hálsi og höfði og ætluðu kannski síðar á slysadeild. Ökumaður strætisvagnsins er grunaður um ölvun við akstur og var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu. Annar bílanna sem keyrt var á var fluttur með dráttarbíl af vettvangi.
Upp úr klukkan 18 í gær var tilkynnt um par í annarlegu ástandi á Nýbýlavegi sem hafði ekið bíl í veg fyrir annan bíl, ráðist á bílstjórann og skemmt hjólhýsi sem hann var með. Parið var handtekið og vistað fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.