Guðmundur Jónsson lögmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt í opinberu starfi og peningaþvætti. Brot Guðmundar fólust í því að hann dró að sér rúmlega 53,7 milljónir af fjármunum dánarbús sem hann var skiptastjóri yfir. Peningana notaði hann meðal annars til að greiða símreikninga og stöðumælasektir.
Dómur féll Héraðsdómi Suðurlands í gær. Guðmundur var skipaður skiptastjóri dánarbús Eyjólfs Eyjólfssonar. Með sex millifærslum, á tímabilinu 7.febrúar 2013 til 7.júní 2016, færði hann samtals 53.697.391 króna af fjármunum dánarbúsins á fjárvörslureikning lögmannsstofu sinnar LGJ ehf. Hann ráðstafaði og nýtti fjármunina í eigin þágu og til rekstur lögmannsstofu sinnar og gerðist þannig sekur um peningaþvætti.
Peningana nýtti hann í greiðslu persónulegra útgjalda og annarra útgjalda sem voru dánarbúinu óviðkomandi.Persónuleg útgjöld hans voru meðal annars símreikningar, innheimtukröfur Bandalags háskólamanna, skuldir til ríkissjóðs, stöðvunarbrotagjald og tryggingagjöld.
Guðmundur viðurkenndi skýlaust brot sín fyrir dómi og samþykkti að greiða dánarbúi Eyjólfs Eyjólfssonar skaðabætur að fjárhæð kr. 53.697.931.
Bar hann fyrir sig að á þessu tímabili glímdi hann við sjúkdóm, sem og áfengis og fíkniefnavanda. Sagðist hann hafa leitað sér aðstoðar og væri nú á batavegi. Þá sagðist hann einnig hafa fest ráð sitt og látið af lögmannsstörfum. Þá kvaðst hann einnig eiga ungt barn með konu sinni og væri auk þess búinn að ganga tveimur eldri börnum hennar í föðurstað.
Dómurinn mat það til refsiþyngingar að um stórfellt brot var að ræða í opinberu starfi, sem náði yfir rúmlega þriggja ára tímabil.
„Ekki verður framhjá því litið að ákærði dró sér mikla fjármuni úr dánarbúi sem honum var treyst fyrir sem lögmanni og olli þannig erfingjum búsins verulegu fjártjóni, sem ekki verður séð af gögnum málsins að hann hafi bætt að nokkru leyti. Fyrir svo alvarlegt brot í opinberu starfi sem ákærði er dæmdur fyrir þykir hvorki fært að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti né að hluta,“ segir meðal annars í úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.