Tónlistarmaðurinn Jónas Sig mun stíga á stokk á laugardeginum á Lýsu – rokkhátíð samtalsins sem fram fer í Hofi á Akureyri 7. og 8. september. Jónas mun troða upp í hinum víðfræga báti, Húna, sem lagt verður við Hof en Jónas er velkunnugur bátnum eftir siglingu í kringum landið sem gerð var skil í sjónvarpsþáttunum Áhöfnin á Húna.
Í tilkynningu kemur fram að Jónas muni taka lagið af sinni alkunnu snilld á meðan gestir og gangandi töfra fram súpu fyrir framan Hof úr afgangsmat sem annars hefði farið í ruslið í sannkallaðri Diskósúpu en viðburðurinn markar endalok hátíðarinnar.
Jónas segist spenntur að koma norður á Akureyri og taka þátt í Lýsu.
„Svona hátíð er nákvæmlega það sem við þurfum svo sárlega á að halda. Lýsa er vettvangur fyrir kraftmikið og hressilegt samtal um samfélagið sem við búum í þar sem öll sjónarhorn fá að njóta sín,“ segir tónlistarmaðurinn.
Lýsa – rokkhátíð samtalsins er nýtt nafn á Fundi fólksins sem fór fram í Hofi í fyrra en í Norræna húsinu í Reykjavík 2015 og 2016. Markmið Lýsu er að efla samtalið um samfélagið og hvetja til uppbyggjandi skoðanaskipta milli almennings, félagasamtaka og stjórnmálaflokka í von um að skapa meiri skilning og traust í samfélaginu.