fbpx
Föstudagur 12.september 2025
Fréttir

„Líklegt til að hafa skelfilegar afleiðingar“

Veiðismálastofnun kallar á aðgerðir til að forða stórtjóni í Grenlæk – Ákvörðun Orkustofnunar um umhverfismat hefur verið kærð af landeiganda – Grenlækur er á náttúruminjaskrá

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 7. júní 2016 14:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Undirritaður er því ekki að biðja um nýjar framkvæmdir heldur vatn sem hefur gert undirrituðum ásamt íbúum Landbrots og hluta Meðallands kleift að búa.“

Sú ákvörðun Orkustofnunar að vatnaveitingar úr Skaftá séu háðar umhverfismati hefur verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Grenlækur, sem um tíma var fengsælasta silungsveiðiá á landinu, er að stórum hluta þurr. Um efri hluta árinnar rennur ekkert vatn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, sem teknar voru í síðustu viku.

Rennsli Skaftár í farveginum austur að Kirkjubæjarklaustri ræður mestu um grunnvatnsstöðu í Eldhrauni, þaðan sem Grenlækur, ásamt fleiri veiðiám, er talinn fá vatn sitt að stórum hluta. Forsvarsmaður veiðifélags Grenlækjar segir í samtali við DV að búið sé að rústa auðlindinni sem Grenlækur er, með tilheyrandi tjóni fyrir marga bændur og fjölskyldur í Landbroti. Rennsli Grenlækjar um þjóðveginn er núna um 20–30 lítrar á sekúndu en algengt rennsli er 1.500 lítrar á sekúndu. Stór hluti uppeldisstöðva fiskistofna í ánni eru þurr. Það sama gildir í Tungulæk.

Í kærunni bendir Hörður Davíðsson, eigandi Hótels Laka, á að frá Skaftáreldum hafi vatn runnið úr Skaftá niður í gegnum Eldhraun og fætt lindarlæki frá jöðrum þess. „Undirritaður er því ekki að biðja um nýjar framkvæmdir heldur vatn sem hefur gert undirrituðum ásamt íbúum Landbrots og hluta Meðallands kleift að búa.“ Hann er ósammála því mati Orkustofnunar að umbeðnar vatnaveitingar séu matsskyldar.

Hér gefur að líta vinsælan veiðistað í Grenlæk. Fossinn er þurr og aðeins lítill pollur í botninum.
Stórifoss Hér gefur að líta vinsælan veiðistað í Grenlæk. Fossinn er þurr og aðeins lítill pollur í botninum.

Mynd: Veiðimálastofnun

Hefur verndargildi á heimsvísu

Ekki aðeins hafa heimamenn látið í sér heyra. Í bréfi Magnúsar Jóhannssonar, forstjóra Veiðimálastofnunar, til Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, í maí segir að ástandið sé „líklegt til að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir lífríki“ lindarlækjanna í Meðallandi og Landbroti en Grenlækur er á náttúruminjaskrá. „Sérstætt lífríki og náttúrufar lækjarins er í húfi auk efnahagslegra verðmæta nýtingar veiðihlunninda sem eru mjög þýðingarmikill þáttur í afkomu fólks og byggðar í Skaftárhreppi.“ Þess má geta að svæðið er á lista yfir brothættar byggðir.

Í bréfinu segir Magnús að verndargildi sjóbirtingsstofna lindarvatna í Landbroti og Meðallandi sé ótvírætt, „ekki aðeins á landsvísu heldur einnig á heimsvísu.“ Í Grenlæk hafi til skamms tíma trúlega verið stærsti sjóbirtingsstofn landsins, auk þess sem þar sé afar verðmætur stofn bleikju. Árið 1998 varð vatnsþurrð í meira en 20 kílómetrum af árfarvegum. Magnús segir í samtali við DV að það hafi valdið stórtjóni á lífríkinu. Nú stefni í sömu átt. Við bætist að þurrkar hafa verið óvenju miklir.

Ekkert rennur nú um rörin

Varnargarðar hafa á undanförnum árum verið reistir á vegum Vegagerðarinnar og Landgræðslunnar, þar sem áin hefur frá Skaftáreldum runnið út á hraunið, meðal annars um Brest. Það hefur verið gert til að stýra rennsli árinnar frá því að renna út á hraunið og meðal annars forða uppfoki. Rör liggja í gegnum þessa garða þar sem hægt er að stýra rennslinu. Í Skaftárhlaupi síðastliðið haust rofnuðu garðarnir að hluta. Lágt vatnsyfirborð í Skaftá – vegna hlaupsins – hefur hins vegar haft í för með sér að nánast ekkert vatn hefur í vor runnið í gegnum rörin.

Orkustofnun segir í bréfi til Skaftárhrepps, sem RÚV greindi frá á dögunum, að með vatnaveitingum út á Skaftáreldahraun þétti það smám saman hraunið og dreifi fokgjörnum aur yfir þann gróður sem þar er. „Jökulvatnið hleður undir sig, farvegir ná sífellt lengra niður eftir hrauninu og mun rennsli jökulvatns um Brest að lokum ná til Botna og þar með enda í Eldvatni í Meðallandi. Afleiðingar þessa eru gróðurskemmdir og sandfok í hrauninu, m.a. við þjóðveginn, og spilling lífsskilyrða fyrir fisk í Eldvatni í Meðallandi.“

Telja mikilvægið ósannað

Stofnunin hefur tilkynnt Skaftárhreppi, með vísan í vatnalög, að skilyrðislaust skuli loka fyrir mögulegt rennsli úr Skaftá við Brest, að viðlögðum stjórnvaldssektum sé því ekki framfylgt. Stofnunin telur ósannað að vatnaveitingar um Brest hafi mikil áhrif á rennsli lækjanna sem um ræðir. „Fullyrðingar um annað hafa aldrei verið studdar rannsóknarniðurstöðum eða rökum, svo stofnuninni sé kunnugt.“ Fram kemur að samkvæmt vatnalögum gæti Skaftárhreppur borið ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af vatnaveitingunum.

Magnúsi líst ekki á að lokað verði fyrir rörin. „Verði sú raunin er verið að bæta gráu ofan á svart hvað varðar vatnsrennsli og lífríki vatna í Landbroti,“ segir hann í bréfinu til ráðherra. Þar kemur fram að vorið 1998 hafi vatn ekki borist til lækjanna fyrr en garðar við Brest voru rofnir.

Í bréfi Veiðimálastofnunar kemur fram að stjórnvöld og/eða Skaftárhreppur gæti orðið bótaskyldur fyrir því tjóni sem kann að verða. „Ef sú nálgun er uppi að fórna eigi lífríki lækja í Landbroti vegna annarra hagsmuna er mikilvægt að þau sjónarmið komi sem fyrst upp í umræðuna.“ Um mjög alvarlegt mál er að ræða að mati Veiðimálastofnunar. Grípa þurfi þegar til aðgerða til að forða „yfirvofandi stórtjóni“.

Magnús bendir á að þurrkurinn hafi einnig mikil áhrif á æti fisksins.
Árfarvegurinn Magnús bendir á að þurrkurinn hafi einnig mikil áhrif á æti fisksins.

Mynd: Veiðimálastofnun

Áratuga deilur

Það má því segja að hreppurinn sé milli steins og sleggju. Lokun rennslisins gæti, jafnt sem óbreytt ástand, skapað sveitarfélaginu bótaskyldu, ef mið er tekið af bréfunum tveimur.

Deilt hefur verið um vatnaveitingar um Brest í áratugi. Veiðifélag Grenlækjar stefndi ríkinu í fyrra vegna minnkandi veiði, eins og fram kom í Fréttablaðinu í upphafi síðasta árs. Í þeirri stefnu eru raktar ýmsar framkvæmdir síðastliðna hálfa öld, sem breytt hafi vatnsrennsli. Mat tveggja matsmanna, sem Veiðifélagið fékk árið 2013 til að meta áhrif framkvæmda á ána, er að bygging varnargarða hafi dregið sérstaklega úr áflæði Skaftár á Eldhraunið og þar af leiðandi rennsli í Grenlæk. Skaðabótamál Veiðifélagsins gegn ríkinu verður ekki tekið fyrir fyrr en í haust, að sögn Erlendar Björnssonar formanns.

Garðarnir ekki í umhverfismat

„Það er alveg vonlaust að hafa þetta svona. Þetta eru aðal hrygningarstöðvarnar,“ segir Magnús hjá Veiðimálastofnun við DV. Hann segir að ef vatn komi í árnar í sumar þá geti fiskurinn hrygnt í haust. Hann bendir hins vegar á að vatnsleysið hafi haft slæm áhrif á fæðu fiskanna. Áin hafi í raun aldrei orðið söm eftir vatnsleysið 1998. „Orkustofnun talar um að ekki sé leyfi fyrir ákveðnum veitum. Þeir hengja sig í þannig hluti á meðan lífríkið er að deyja.“ Hann bendir á að garðarnir, sem notaðir voru til að koma í veg fyrir náttúrulegt rennsli Skaftár um Eldhraun, hafi ekki þurft að fara í umhverfismat.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Snorri fær pillu frá ömmu sinni eftir færslu hans um Charlie Kirk – „Gegnsær populismi“

Snorri fær pillu frá ömmu sinni eftir færslu hans um Charlie Kirk – „Gegnsær populismi“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Birta myndband af flótta hins meinta morðingja

Birta myndband af flótta hins meinta morðingja
Fréttir
Í gær

Þrjár verslanir opna í nýrri verslunarmiðstöð í Reykjanesbæ

Þrjár verslanir opna í nýrri verslunarmiðstöð í Reykjanesbæ
Fréttir
Í gær

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð

Þekkt leyniskytta telur að skotárásin á Charlie Kirk hafi verið vel skipulögð
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Gagnrýnir Ingu Sæland fyrir að vilja stytta rétt til atvinnuleysisbót um eitt ár – „Hún hefur steingleymt sínum minnsta bróður“

Gagnrýnir Ingu Sæland fyrir að vilja stytta rétt til atvinnuleysisbót um eitt ár – „Hún hefur steingleymt sínum minnsta bróður“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland

Áhrifamaður í Bandaríkjunum segir hugsanlegt markmið Trump að hernema Ísland