fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Uppgjör Vigdísar

Ritstjórn DV
Föstudaginn 8. júlí 2016 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vigdís Hauksdóttir er að hætta á Alþingi. Hún tilkynnti ákvörðun sína í byrjun vikunnar og ætlaði allt að verða vitlaust á samfélagsmiðlum í kjölfarið. Allir hafa nefnilega skoðun á henni. Ragnheiður Eiríksdóttir hitti þessa umdeildu konu og ræddi um ferilinn og ýmislegt fleira.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja við þig. Ég er örugglega sá alþingismaður sem hefur verið hvað oftast í viðtölum undanfarin ár og fólk er örugglega komið með nóg af mér,“ segir framsóknarkonan og hlær.

Framsóknarflokkurinn var ­mikið í umræðunni í vor áður en þinghlé var gert, og skoðanakannanir sýndu minnkandi fylgi. Vigdís gaf út að hún myndi tilkynna í byrjun júlí hvort hún hygðist sækjast eftir áframhaldandi umboði til þingsetu fyrir flokkinn.

Af hverju ertu að hætta núna?
„Fólk hættir af ýmsum ­ástæðum á Alþingi. Sumir hafa hætt sem ég mun sakna úr pólitíkinni, eins og til dæmis píratarnir Jón Þór og Helgi Hrafn. Aðrir sem ég myndi gjarnan vilja sjá fara hafa tilkynnt að þeir sækist áfram eftir umboði.“

Var þrýst á þig að hætta?
Nei, alls ekki. Ég gerði þetta með dálitlu áhlaupi, svo fólk myndi ekki reyna að telja mér hughvarf. Ég ræddi þetta við mjög þröngan hóp vina og fjölskyldu. Áður en ég sendi frá mér tilkynninguna fengu trúnaðarmenn flokksins hana. Í kjölfarið hafa hins vegar margir reynt að fá mig til að skipta um skoðun, ­hringt og sent tölvupóst og skilaboð á Facebook og ég er þakklát fyrir þann stuðning.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ég var tilbúin með yfirlýsingu mína þann 1. júlí Svo ákvað ég að bíða með að opinbera hana vegna EM. Leikurinn við Frakka var á sunnudeginum og mér fannst ekki hægt að skyggja á hann. Svo kom í ljós að það ætti að taka á móti fótboltaliðinu á ­mánudeginum ­klukkan sjö, og ég hugsaði „oh, það er bara aldrei rétti tíminn“. Svo ákvað ég að láta slag standa, enda voru 240 ár þennan dag síðan skrifað var undir sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna. Það var kannski ágætt að hafa eitthvað annað í hádegisfréttum en bara tapið gegn Frökkum, svo þegar upp var staðið var tímasetningin góð. Ég upplifði létti og mikla sátt þegar ég sendi tilkynninguna frá mér.“

Ég hoppa alltaf upp eins og óreglulegt hjartalínurit.

Hefði þegið meiri stuðning

Þú hefur oft synt á móti straumnum. Fannstu fyrir skorti á ­stuðningi flokksfélaga þinna eða varstu kannski lögð í einelti innan ­flokksins?

„Nei, ég var nú ekki lögð í einelti en oft hefði ég alveg þegið meiri stuðning. Manneskja eins og ég getur ekki alltaf reiknað með að fá stuðning. Ég hoppa alltaf upp eins og óreglulegt hjartalínurit og er mjög óhrædd.“

En voru ekki vonbrigði að fá ekki ráðherrastól?
„Á sínum tíma var það svekkjandi og ég varð alveg hundfúl. Svo spáði ég ekkert meira í það. Í dag, 2016, er þetta eins og að spyrja mig um gamlan kærasta sem ég er löngu hætt að spá í. Stundum hef ég hugsað að kannski langaði mig ekkert voðalega mikið til þess að verða umhverfisráðherra – það var eina ráðuneytið sem var eftir. Ég hefði annaðhvort verið búin að naga upp þröskuldinn á sex mánuðum eða jafnvel leggja ráðuneytið niður. Vinnan þar snýst meira og minna um að innleiða EES-reglugerðir á sviði umhverfisverndar. Það er ekki minn tebolli, eins og allir vita, líklega er ég ein af topp 10 mestu ESB-andstæðingum á Íslandi. Þannig að örlögin höguðu því þannig að ég endaði ekki þar inni, og kannski sem betur fer.

Í staðinn varð ég formaður fjárlaganefndar. Þinglega séð var það eins og að byrja með sætasta stráknum á ballinu, því það er stærsta og umfangsmesta starf þingsins og um leið varð ég valdamikill þingmaður.
Eftir að ég varð formaður fjárlaganefndar og fór að skoða kerfið sá ég hvernig þessar stofnanir eru byggðar upp. Það er mikið bruðl víðast hvar og verið að eyða stórum fjárhæðum í gæluverkefni í stað þess að setja kraft í grunnþjónustuna sem við erum öll að biðja um í þessu samfélagi.“

Vigdís segist dauðleið á kjördæmapoti og kallar það eitt af meinum íslensks samfélags.

„Ef ég væri einráð hefði ég gert Ísland að einu kjördæmi fyrir sjö árum þegar ég settist á þing, til að þetta kjördæmapot heyrði sögunni til. Það er svo kostnaðarsamt. Vaðlaheiðargöngin eru gott dæmi um kjördæmapot sem allir tapa á. Það var bara vaðið í það án þess að rannsóknir lægju til grundvallar. Við vorum þrír þingmenn úr meirihluta fjárlaganefndar sem vorum um daginn á ferð á Norður­landi og heilsuðum upp á gangagerðarmenn Fnjóskadalsmegin. Frá því í apríl í fyrra hefur bornum bara ­verið komið áfram um fimm metra. Vaðlaheiðargöngin eru nú þegar komin tveimur og hálfu ári fram úr áætlun og enginn getur sagt til um hversu mikið verkefnið fer fram úr fjárheimildum.“

Stór sprengja

Nú ertu flokksmanneskja Framsóknarflokksins sem er nú kannski ekki barnanna bestur þegar kemur að kjördæmapoti.

„Ég hef aldrei verið smeyk við að gagnrýna minn eigin flokk og hef mig upp fyrir pólitík og hugsa frekar um heildarhagsmuni þjóðarinnar. En inni við beinið eru allir flokkar í gríðarlegu kjördæmapoti. Dæmi um þetta eru Vinstri græn sem gefa sig út fyrir að vera á móti stóriðju og vera umhverfisverndarflokkur, nema í kjördæmi Steingríms J., þar sem farið var af stað með stóriðju á síðasta kjörtímabili. Þannig að ég bara bið stjórnmálamenn framtíðarinnar að vera samkvæmir sjálfum sér.

Vinstri græn gefa sig út fyrir að vera kvenfrelsisflokkur en eru ekki tilbúin að gefa konum kost á því að vera oddvitar á listum. Í Norðausturkjördæmi eiga þeir mjög flotta konu, Bjarkeyju Olsen, og hún fær ekki að leiða listann af því að Steingrímur, sem er búinn að sitja þarna í 30 ár, ætlar bara að halda áfram. Þetta er prinsippleysi sem mér líkar svo illa í íslenskri pólitík.“

Er Steingrímur á meðal þeirra sem þú vildir sjá hverfa af Alþingi?
„Ég ætla ekkert að segja um það, en það er greinilegt að hann ­þekkir ekki sinn vitjunartíma. Það fer kannski eitthvað að gusta um karlinn þegar við Guðlaugur Þór birtum upplýsingar um seinni einkavæðingu bankanna. Við erum búin að djöflast í þessu síðan 2012, en nú er ég búin að fá öll svör og það liggur fyrir niðurstaða.“

Já, þetta er sprengja. Stærri en Icesave 1, sem hristi nú duglega upp í fólki.

Er þetta sprengja?
„Já, þetta er sprengja. Stærri en Icesave 1, sem hristi nú duglega upp í fólki.“

Stærri en Wintris?
„Wintris var nú engin sprengja. Það vissu allir að Anna Sigurlaug, eiginkona forsætisráðherra, ætti efnaða foreldra og væri búin að fá fyrirfram greiddan arf. Það er allt mjög skrítið í sambandi við þetta Wintris-mál og hvernig RÚV kom að því. Ríkisútvarpið sem tekur til sín 3.600 milljónir á ári frá skattgreiðendum leiðir beinlínis forsætisráðherra sjálfstæðs ríkis í gildru. Þetta var vel undirbúin og skipulögð árás sem átti sér langan aðdraganda. Jóhannes Kr. hjá Reykjavik Media er búinn að gefa það út að hann hafi unnið að þessu í 10 mánuði. Og bíddu við, á ekki að ræða neitt í þessum Panama-skjölum nema það sem snýr að Framsóknarflokknum?“

Óviðeigandi umgjörð

Hvernig leið þér þegar þú ­horfðir á forsætisráðherrann í viðtalinu, kenndirðu í brjósti um hann?
„Já, ég gerði það. Ég horfði á viðtalið þrisvar þetta kvöld. Ég var mjög hissa. Mér fannst umgjörðin svo óviðeigandi. Maður setur ekki viðmælanda einan á einhvern stól í miðju herberginu, langt úti á gólfi. Forsætisráðherra landsins var þarna á heimavelli því hann einn hefur lykla að ­ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Það gerði þetta svo ósvífið. Auðvitað var maðurinn í losti.“

Finnst þér ekkert athugavert við það að forsætisráðherra og/eða hans kona geymi peninga erlendis og séu á sama tíma að berjast fyrir krónunni og íslenska hagkerfinu?

„Það kemur mér ekki við sem þegn í þessu landi hvað fólk gerir við bílana sína, húsin sín, sumarhúsin sín og peningana sína. EES-samningurinn gengur meðal annars út á frjálst flæði fjármagns. Þetta félag var stofnað löngu fyrir bankahrunið og allar lagalegar forsendur voru uppfylltar. Auk þess voru þau búin að borga tæpar 400 milljónir í skatta frá 2008 hér á landi. Hvað vill fólk þá meira?“

Er það mögulega siðlaust að einhverju leyti að koma peningum úr landi með þessum hætti?
„Það var enginn að spá í eitthvert siðferði á árunum fyrir hrun. Útrásarvíkingarnir tæmdu íslensku bankana og skildu allt eftir í rjúkandi rúst og fengu svo ­afskrifaðar þúsundir milljarða. Eigum við eitthvað að ræða það? Svo er ráðist á þann mann sem kemur og ­ætlar að stóla upp og skúra gólfin ­eftir dansleikinn. Maður sem barðist með kjafti og klóm á móti kröfu­höfunum er tekinn niður sem sakamaður í öllum þessum snúningum frá bankahruni, en hinir eru allir frjálsir ferða sinna.

Enginn annar flokkur hefur djöflast jafn mikið í kröfuhöfunum og Framsóknarflokkurinn og mér finnst þetta ósegjanlega ­ósanngjarnt.“

Vigdís kaus Höskuld í formannskjörinu gegn Sigmundi Davíð – en stendur þó við bak leiðtogans.
Stendur að baki foringjanum Vigdís kaus Höskuld í formannskjörinu gegn Sigmundi Davíð – en stendur þó við bak leiðtogans.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Nú sté Sigmundur til hliðar og Sigurður Ingi tók við embætti forsætisráðherra. Varstu sátt við þau málalok?
„Nei, ég hefði viljað að ­Sigmundur sæti áfram sem forsætisráðherra. David Cameron var líka í þessum skjölum. Meira að segja gerðist hann sekur um lögbrot. Það var engin krafa hjá bresku þjóðinni um að hann segði af sér. Hann baðst afsökunar. Sigmundur braut engin lög.“

Stolt af Bretum

Stöldrum aðeins við Cameron, sem er núna búinn að segja af sér vegna Brexit. Hvað finnst þér um Brexit?

Það lifnar yfir Vigdísi.

„Ég er bara ótrúlega stolt af hugrekki og kjarki Breta að ganga þessa leið.“
Nú er Farage búinn að segja af sér og hörðustu talsmenn útgöngunnar virðast vera að draga ansi mikið í land með loforðin sem haldið var uppi í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Mér finnst það ekkert skrítið. Farage náði fullum sigri enda hafði hann alltaf sagt að hann væri í pólitík til að koma Bretum út úr ESB. Bretar eiga núna gríðarlega mikil tækifæri með Grænlandi, Færeyjum, Norðmönnum og okkur – ríkjunum utan ESB.“

Hvað með málflutninginn sem var áberandi þar sem alið var á útlendingahræðslu og núna, í kjölfar atkvæðagreiðslunnar, virðist bylgja útlendingahaturs ríða yfir breskt samfélag?

„Ég hef aldrei getað sætt mig við þessa línu, sem ábyggilega er búin til á einhverjum stórum markaðsskrifstofum sem vinna fyrir Evrópusambandið, að þeir sem vilja ekki ESB séu rasistar. Það var mikið ­notað í kosningunum í Bretlandi, að þeir sem væru útgöngusinnar vildu ekki útlendinga. Þetta er ­ógeðfellt. Öll ríki heimsins vilja mannúð. En eigum við ekki að fara aðeins aftar í ferlið? Hvar eru til dæmis Sameinuðu þjóðirnar, eru þær bara upp á punt? Af hverju geta þær ekki gripið inn í til að hörmungar þurfi ekki að ganga yfir þetta fólk. Nú er búið að birta nýja skýrslu um Íraksstríðið sem er ­áfellisdómur yfir Tony ­Blair, því hann fylgdi Bandaríkjunum í blindni. Kannski byrjaði þetta allt þar.“

Það gerðu valdhafar hér líka, ekki satt?
„Þeir lýstu því yfir að við værum staðföst þjóð. Við erum auðvitað í NATO. Nú kemur í ljós að allt málið var stútfullt af lygi. Hverju eiga ráðamenn að trúa þegar mál eru kynnt fyrir þeim? Hversu mikið er hægt að kanna bakgrunn upplýsinga sem lagðar eru til grundvallar til að taka rétta afstöðu?“

Á að fara eftir lögum

Hvað finnst þér um stöðuna á Íslandi hvað varðar móttöku flóttamanna? Nýjasta málið snýst um Reginu sem er ólétt og verið er að vísa úr landi með tvö lítil börn.

„Ég er lögfræðingur og væri að brjóta öll prinsipp ef ég segði ­annað en að við verðum að fara eftir lögum. En af hverju eigum við að brjóta lög í þessum málaflokki en ekki málaflokknum um fjármálastofnanir.“

Hvað fannst þér til dæmis um aðgerðir prestanna í Laugarneskirkju?

„Ég gagnrýni þá aðgerð mjög. Ef á að vinna á móti íslenskum lögum undir merkjum Þjóðkirkjunnar er ég tilbúin að flytja frumvarp um aðskilnað ríkis og kirkju í þinginu. Það er svo mikið af fólki á Íslandi sem á bágt, hvar endar þetta og hvaða fordæmi er verið að skapa? Ég fer að íslenskum lögum sjálf og ætlast til þess að aðrir geri það líka. Ég get alveg sagt þér að ég vildi ekki vera dóttir eða eiginkona neins þeirra lögreglumanna sem þurftu að fara í þetta verk í Laugarneskirkju. Myndbönd voru tekin upp, og milljónir eru búnar að horfa á þetta. Ég sárvorkenni þeim og er búin að vera mjög hugsi yfir þessu.“

Kommentakerfin haughús

Þú hefur verið mjög umdeild sem stjórnmálamaður, og það hlýtur að hafa verið talsvert álag. Þú hefur verið kölluð rasisti og ýmislegt annað. Hvernig líður þér vegna þess?

Vigdís er nýlega fallin fyrir fallega landinu við Miðjarðarhafið.
Spennt fyrir Ítalíu Vigdís er nýlega fallin fyrir fallega landinu við Miðjarðarhafið.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þannig tal snertir mig ekki neitt og ekki krakkana heldur. Ég er fædd og uppalin í sveit og gekk alltaf í þau verk sem þurfti að vinna, og var aldrei að spá í hvort aðrir væru að horfa á mig. Ég verð alltaf svo hissa þegar þetta gerist. Ótrúlega skrítið að fólk hafi svona miklar skoðanir á mér.“

Er þetta bara gaman?

„Já, mér finnst þetta svolítið gaman. Svo er uppáhaldið mitt þegar mér er líkt við Söruh Palin í Bandaríkjunum. Fólk á svo bágt stundum.“

Hugnast þér Palin?
„Nei, alls ekki, en það er alltaf verið að reyna að finna eitthvað til að gera lítið úr mér. Þeir aðilar sem eru að þessu halda að þeir séu að gera mér mikinn óleik. Ég hugsa stundum um hvað þetta fólk sé eigin­lega að gera í lífinu. Er það að vinna, er það með laun, er þetta fólk á bótum eða vinnur það hjá hinu opinbera? Skattfénu er illa verið þegar tíminn er nýttur í þetta. Hvað fer þetta fólk að gera þegar ég hætti? Það hlýtur að skapast tómarúm. Það er afar skrítið að fólk skuli standa í því á Facebook að búa til einhverja gervimenn til þess eins að pönkast í mér.

Ég kalla kommentakerfin bara haughús. Líður þessu fólki svona illa, eða hefur það ekkert að gera? Svæsnasti gervimaðurinn var stofnaður eftir hinn mikla ­kosningasigur minn 2013, þegar ég náði því að verða annar þingmaður Reykjavíkur. Þá var einhverjum innan míns flokks svo mikið í mun að ég yrði ekki ráðherra að það var stofnaður heill gervimaður sem var látinn drulla út alla veggi og öll kommentakerfi. Svo kom í ljós að myndin var af agalega myndarlegum norskum píanósnillingi. Mig grunar hver þetta var, en ég held að hann viti ekki að ég veit. Ég setti þetta á Facebook og fór í viðtal á Stöð 2 í kjölfarið, og þá var öllu sem gervimaðurinn hafði sett á netið eytt samstundis.“

Fengur að Lilju

Þú hefur stundum sagt að fjölmiðlar væru ósanngjarnir við þig og orð þín hafa verið túlkuð þannig að þú hafir hótað að skera niður fjárframlög til RÚV. Hafa fjölmiðlarnir verið slæmir?

„Þegar upp er staðið finnst mér það ekki, þeir eru bara svona afskaplega áhugasamir um mig. Ég gæti verið í 2–3 viðtölum á dag og farið létt með það. Ég hef aldrei nokkurn tímann beðið sjálf um viðtöl, eða reynt að koma sjálfri mér á framfæri, nema þegar ég sendi frá mér yfirlýsinguna um að ég væri að hætta á þingi.“

Á Sigmundur Davíð að leiða flokkinn áfram?

„Flokksþing verður vonandi haldið strax í haust og þar ­verður sú ákvörðun tekin. Við þurfum líka að endurnýja okkar stefnu fyrir kosningar. Við getum ekki farið aftur í kosningar með loforð um að ná peningum af kröfuhöfum og fella niður skuldir heimilanna. Það þarf að koma eitthvað nýtt til. Sigmundur verður að taka ákvörðun um hvort hann gefur kost á sér áfram í formennsku. En ef ég hugsa um þetta á mannlegum nótum þá er ég alveg hissa á að Sigmundur hafi ekki bara einn góðan veðurdaginn staðið upp og sagt „fokkjú, þið kunnið ekki gott að meta“.“

Væri betra fyrir flokkinn og þjóðina að hann færi – eða er hann bara málið?

„Svo ég segi það bara hreint út, þá studdi ég Höskuld í formannskjörinu 2009. En Sigmundur Davíð var lýðræðislega kosinn og ég stend með mínum foringja. Ef Sigmundur fer fram og geldur afhroð er sú staða skýr. Fari hann fram og vinni stór­sigur er sú staða líka skýr. Flokkurinn á margar flottar ­konur og það er mikill fengur að hafa fengið Lilju. Ef Lilja færi í formannsframboð í framtíðinni og Sigmundur hætti – myndi ég styðja hana. Það þarf engan snilling í markaðsmálum til að sjá að það yrði best fyrir flokkinn að ég mundi leiða Reykjavíkurkjördæmi suður og Lilja Reykjavíkurkjördæmi norður. En ég mun auðvitað ekki gefa kost á mér svo að hún gæti valið sitt kjördæmi ef hún hefur áhuga.

Ef Lilja færi í formannsframboð í framtíðinni og Sigmundur hætti – myndi ég styðja hana.

Ég mun starfa með flokknum áfram. Ég er svo pólitísk að ég get aldrei slitið mig alveg frá þessu. Sviðið er laust og ég ætla ekki að vera með einhverja afskiptasemi og leiðindi á kantinum. Svo er pólitík svo miklu meira en þingið og snýst um samfélagið allt. Ég þarf ekki endilega að sitja í steinhúsi við Austurvöll og reyna að búa til lög.“

Trúi á Guð

Hvað ætlarðu að gera núna? Ætlarðu að hella þér út í blómaskreytingar eða lögmennsku?

„Ég veit það ekki, og mér finnst það svo spennandi. Ég hefði nú varla farið út í sex ára háskólanám í lögfræði ef ég ætlaði mér aldrei að nota það. Ég á eftir að ná mér í réttindi héraðsdómslögmanns og hæstaréttarlögmanns. Þegar ég var nýútskrifuð opnaðist óvænt sá möguleiki að fara á þing. Það er mjög skrítin upplifun að sitja á þingi með háskólamenntun og horfa upp á kjararáð á einni nóttu hækka laun ráðuneytisstjóra um það sem samsvarar þingfararkaupi á mánuði.

Sú launastefna kjararáðs að halda þingmönnum undir meðal­aunum til dæmis háskólamenntaðra, ­leiðir af sér að löggjafinn verður veikari og veikari. Það er þá annaðhvort fólk sem á fjársterka maka, eins og Sigmundur ­Davíð, sem getur stundað þingmennsku, eða fólk sem er nægjusamara. Með þessu móti missum við allt okkar fólk út í atvinnulífið þar sem hæfileikar þess nýtast en við þyrftum að nýta þessa krafta inni á þingi.“

Ertu femínisti?
„Ekki eins og femínistar skilgreina sig. Ég vil að konur og karlar hafi jöfn réttindi í þessu samfélagi og vil kalla mig jafnréttissinna.“

Trúirðu á Guð?
„Já, ég trúi en er ekki trúrækin. Í nútímasamfélagi er kirkjan afgangs, en ég er mjög stolt af því að Dómkirkjan hafi hlutverk í þingsetningu og öðrum hátíðlegum athöfnum á þinginu. Ég lít á kirkjuna og ríkið sem órjúfanlega heild – en ber fulla virðingu fyrir þeim sem eru trúlausir eða trúa á eitthvað annað en ég. Það er trúfrelsi í landinu.“

Hvað með yfirskilvitleg fyrirbæri, hefurðu til dæmis séð draug?

Ég finn á mér hluti og er með gríðarlega sterkt innsæi. Ég sá draug í barnaskólanum sem ég gekk í.

„Já, ég er mjög trúuð á slíkt. Ég er meira að segja mjög næm sjálf. Ég finn á mér hluti og er með gríðarlega sterkt innsæi. Ég sá draug í barnaskólanum sem ég gekk í. Þar ruggaði ruggustóll af sjálfum sér og það var alltaf umgangur uppi á lofti þó að enginn væri þar. ­Sömuleiðis er ég sannfærð um líf eftir dauðann og trúi á orku og kraft, til dæmis í Snæfellsjökli. Við sem erum fædd hér á Íslandi höfum ákveðna orku til að bera og erum kannski framar öðrum þjóðum í innsæi. Við getum myndað svo mikla orku eins og sást til dæmis síðast á EM.“

Alþingiskonan hafði ekki mikinn tíma til að leita að ástinni.
Ekki fundið þann rétta Alþingiskonan hafði ekki mikinn tíma til að leita að ástinni.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hlakkar til að hætta

Er eitthvert pláss í lífinu fyrir áhugamál?
„Ég keypti íbúð í Hlíðunum í fyrra með frábærum garði. ­Fyrir austan fjall rækta ég matjurtir með Maríu systur minni. Það hefur nú ekki ­verið mikið um frístundir. Ég hlakka til að hætta því ég get farið að sinna fjölskyldu og vinum miklu meira en að undanförnu. Fyrstu ­vikurnar mun ég hvíla mig. Svo finnst mér dásamlegt að ferðast og er nýlega orðin mikill Ítalíuaðdáandi.“

Hvað með ástalífið, ertu eitthvað að fara á stefnumót?
„Ég var gift en skildi 2002. ­Síðan þá hef ég verið ein – ekki fundið þann eina rétta. Ég var einu sinni í saumaklúbbi með ótrúlega hressum vinkonum sem skráðu mig á Tinder og nokkrum mínútum síðar var það komið í fjölmiðla. Ég entist kannski 10 mínútur þar. Ég verð bara að fara að ganga í að finna mér kærasta. Ég held að það væri kostur að hann væri ekki framsóknarmaður, því ég mundi helst ekki vilja ræða þau mál við elskhugann. Húmor skiptir öllu og að maðurinn sé vel gáfum ­gæddur, ­annað er opið. Það er orðið ansi langt síðan ég var skotin síðast!“ n

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta