fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Hórmangari gripinn glóðvolgur á Laugavegi

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 21. október 2018 22:00

Hórmangarinn Rólegur þegar hann var leiddur fyrir sakadóm.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í febrúar árið 1989 lét lögreglan í Reykjavík til skarar skríða gegn manni sem grunaður var um að skipuleggja umfangsmikla vændisstarfsemi í höfuðborginni. Hafði hann fimm stúlkur á sínum snærum, sumar andlega vanheilar, sumar í klóm fíknar en aðrar venjulegar húsmæður í gróðavon. Maðurinn neitaði sakargiftum og sagðist einungis hafa stundað hjúskaparmiðlun.

Tvö rúm og smokkapakki

Þann 4. febrúar sló Tíminn upp krassandi fyrirsögn á forsíðu; „Mangari vændishrings í gæslu“, og skyggða mynd af hinum grunaða með. Jón H. Snorrason, deildarstjóri hjá Rannsóknarlögreglunni, vildi ekki tjá sig efnislega um málið en staðfesti við blaðamann að rúmlega fimmtugur maður væri í haldi og grunaður um að hafa gerst brotlegur um skipulagningu vændis í Reykjavík. Lá við því refsing allt að fjórum árum í fangelsi.

Blaðamenn Tímans höfðu vitað af málinu lengi og meðal annars lagt gildru fyrir manninn en án árangurs. Í samtölum við heimildarmenn fengust þær upplýsingar að maðurinn hefði þónokkrar konur á sínum snærum, flestar á þrítugsaldri en einhverjar yngri þó.

Lögreglan hafði einnig vitað af starfsemi mannsins um nokkurt skeið. Var hann loks handtekinn að kvöldi 2. febrúar á heimili sínu við Laugaveg en þá voru tvær vændiskonur og viðskiptavinur á staðnum. Í íbúðinni var „fundarherbergi“ þar sem voru tvö rúm, smokkapakki í glugganum, á veggjunum héngu myndir af fáklæddum stúlkum. Skömmu eftir handtökuna var maðurinn úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald og yfirheyrslur hófust.

 

Dreifibréf
Eitt af sönnunargögnunum í málinu.

Sjortari á 5.000 krónur

Meðal sönnunargagna í málinu var dreifibréf þar sem þjónustan var auglýst, en þó undir rós. „Góðir dagar og hamingja“ var yfirskriftin og í texta bréfsins kom fram að hann tæki að sér að útvega kvenfólk og karla á aldrinum 16 til 70 ára. Þá hefði hann herbergi til leigu og gæti séð um að aka kvenfólki allt að eitt hundrað kílómetra leið. „Ég heiti algjörum trúnaði,“ stóð í bréfinu. Þá auglýsti hann einnig í einkamáladálkum DV.

Dreifibréfið og smáauglýsingarnar voru ekki hans eina auglýsingaleið. Oft beið hann fyrir utan skemmtistaði og sigtaði út líklega viðskiptavini. Hann gaf sig á tal við þá og benti þeim á að hann gæti útvegað bæði kvenfólk og áfengi gegn gjaldi. Auk þess gæti hann keyrt þá á staðinn. Var hann á samningi við ljósmyndastofu sem útvegaði honum myndabækling með myndum af þeim stúlkum sem í boði voru. Starfsemin var orðin svo þróuð að þegar mangarinn var handtekinn hafði hann falast eftir samningi við VISA Ísland um greiðslukortaþjónustu.

Samkvæmt heimildum Tímans var þrennt á boðstólum hjá mangaranum. Fyrir fimm þúsund krónur var hægt að kaupa snögga afgreiðslu eða „shortara.“ Í öðru lagi var hægt að gera tilboð til að fá að hafa stúlku hjá sér alla nóttina. Í þriðja lagi gátu menn komið með áfengi með sér og fengið afnot af stúlku gegn „áfengisleka.“

Verjur voru ekki skilyrði sem kann að koma á óvart. Árið 1989 var eyðnifaraldurinn í hámæli og mikill áróður fyrir notkun smokka, sérstaklega í tengslum við kynlífsþjónustu. Sumar stúlkurnar sem störfuðu fyrir manninn spurðu ekkert endilega um verjur og sögðu að þær væru ekki skilyrði.

Fíklar, öryrkjar og húsmæður

Samkvæmt heimildum Tímans áttu flestar stúlkurnar við áfengis- eða fíkniefnavanda að stríða. Auk þess komu þær úr félagslega erfiðum aðstæðum og fátækt. Stunduðu þær vændi til að fjármagna neysluna. Einnig störfuðu hjá honum konur sem voru taldar andlega vanheilar.

Við yfirheyrslur sagðist ein stúlkan, 19 ára, hafa kynnst manninum tveimur árum áður. Þá hefði hún haft mök við hann í skiptum fyrir áfengi. Eftir það hefði hún haft framfæri sitt á samförum við karlmenn fyrir milligöngu hans og ávallt verið drukkin við þá iðju.

Önnur kona, 29 ára, andlega vanheill öryrki, kynntist manninum þegar hann keypti af henni vændi. Í kjölfarið sagðist hún hafa beðið hann um að finna handa sér eiginmann en hann þá selt hana í vændi.

Ekki voru þó allar í þessari aðstöðu og dæmi um að giftar konur sem ekki áttu við áfengis- eða fíknivanda að stríða störfuðu fyrir manninn. Einn heimildarmaðurinn sagði:

„Hjá þeim er þetta bara „bisness.“ Þær stökkva jafnvel frá pottunum þegar melludólgurinn hringir og getur komið á stefnumóti. Yfirleitt er um að ræða „shortara“ og þær taka 5.000 krónur fyrir.“

 

Neitaði sök
Tíminn 4. febrúar 1989.

Sagðist stunda hjúskaparmiðlun

Lögregla gat sýnt fram á brot mangarans með því að tengja færslur á tékkareikningi hans við starfsemina. Í nóvember árið 1988 fékkst dómsúrskurður fyrir því að bankaráð Landsbankans veitti aðgang að reikningi hans og á sama tíma fékkst einnig húsleitarheimild. Þegar stúlkurnar tóku við greiðslu var hægt að sjá hvernig færslur voru lagðar inn á hans reikning.

Eitt af helstu sönnunargögnunum í málinu var gíróseðill, stílaður á mangarann, sem kúnni fór með í bankann til þess að greiða fyrir þá þjónustu sem hann hafði keypt. Í reitnum þar sem átti að rita tegund greiðslu var þakkað fyrir „erótískar nætur.“

Maðurinn var pollrólegur við yfirheyrslur og neitaði sök í málinu. Hann sagðist einungis hafa verið að stunda „hjúskaparmiðlun.“ Hann viðurkenndi þó að hafa leigt út herbergi þar sem fólk gat farið á stefnumót. Sá framburður kom ekki heim og saman við nein önnur gögn í málinu og ekki heldur framburð stúlknanna sjálfra.

Tók 2.000 krónur

Um haustið var málið tekið fyrir í Sakadómi Reykjavíkur og föstudaginn 13. október var maðurinn sakfelldur fyrir að hafa haft milligöngu um samræði fólks gegn greiðslu. Þennan dóm staðfesti Hæstiréttur.

Fyrir hórmangið fékk hann sex mánaða fangelsisdóm, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna til þriggja ára. Hann hafði aldrei hlotið dóm áður.

Talið var sannað að hann hefði hagnast á vændisstarfsemi fimm stúlkna, á aldrinum 20 til 35 ára. Í sumum tilfellum hafði hann frumkvæðið en í öðrum báðu þær sjálfar um að hann útvegaði stefnumót. Þær fengu frá fimm hundruð krónum upp í tíu þúsund krónur fyrir hvert skipti. Hann tók aftur á móti tvö þúsund krónur fyrir skiptið og leigði út herbergi fyrir þúsund krónur á sólarhring ef þurfti.

Því ákvæði hegningarlaga sem mangarinn var sakfelldur fyrir hafði áður verið beitt. Til dæmis þrisvar sinnum á sjötta áratugnum þar sem einstaklingar höfðu leigt út herbergi til vændisstarfsemi. Þeir dómar voru hins vegar allir skilorðsbundnir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta