fbpx

Vertu mildur keisari

Dómstóll götunnar mætti velta fyrir sér mildinni eins og rómverski heimspekingurinn Seneca – Skrifaði leiðbeiningarit fyrir keisarann Neró

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 25. desember 2017 14:00

Mildi er ekki hugtak sem bregður svo oft fyrir í pólitískri umræðu á Íslandi á 21. öld.
Hún er hins vegar grunnhugtak í leiðarvísi heimspekingsins Seneca sem hann skrifaði fyrir rómverska keisarann Neró skömmu eftir að hann tók við völdum árið 54 eftir Krist – hann ráðlagði honum að það væri skynsamlegra að ríkja yfir þegnum sínum af mildi frekar en grimmd.

Hugmyndir Seneca um mildina eiga enn erindi við okkur í dag að sögn Geirs Þ. Þórarinssonar, aðjunkts í latínu og grísku við Háskóla Íslands. DV ræddi við hann um mildina í tilefni af útkomu nýrrar íslenskrar þýðingar á bókinni Um mildina, en það er fyrsta íslenska þýðingin sem kemur út á verkum Seneca, eins þekktasta stóuspekings fornaldar.

Seneca

Seneca

Fæddur: 4 e.Kr. í Cordoba á Spáni

Foreldrar: Seneca eldri, auðugur mælskumaður, og Helvia.

Starf: Heimspekingur, harmleikjaskáld, stjórnmálamaður, einkakennari, ráðgjafi keisara og einn ríkasti athafnamaður Rómaveldis.

Helstu verk: Bréf um siðfræði til Luciliusar, Um reiðina, Um mildina, Um góðverk, Náttúrurannsóknir, harmleikirnir Medea, Herkúles og Þýestes og háðsádeilan Apocolocyntosis.

Látinn: Neyddur til að svipta sig lífi árið 65.

Áhrif: Einn áhrifamesti stóuspekingur allra tíma. Var vinsæll og mikið lesinn meðal kristinna manna, sem héldu jafnvel að hann hafi verið kristinn og hafi skrifast á við Pál postula.

Heimspekingur, embættismaður, kennari

Lucius Annaeus Seneca fæddist í Cordoba á Spáni, að því er talið fjórum árum eftir Krist. Hann heillaðist af heimspeki og þá sérstaklega stóuspeki á yngri árum og byrjaði að skrifa heimspekirit og harmleiki sem áttu eftir að lifa næstu árþúsundin. Á fertugsaldri fór hann að starfa á vettvangi ríkisins, varð embættismaður og öldungaráðsmaður, og varð bæði auðugur og valdamikill.

Þegar Seneca var orðinn óþægilega áhrifamikill í rómversku stjórnmálalífi var hann sakaður –
hvort sem það byggt á sannleikskorni eða baktjaldamakki – um ósiðlegt athæfi með systur fyrrverandi keisara. Hann slapp við dauðadóm en var sendur í útlegð og fékk ekki að snúa aftur heim fyrr en átta árum síðar. Þá hafði hin útsmogna eiginkona keisarans, Agrippina, boðið honum starf sem kennari sonar síns Nerós, sem hún ætlaði að koma til valda. Keisarinn var myrtur og eitrað var fyrir blóðsyni hans og Neró tók því við völdum árið 54.

Kennslustarf Seneca þróaðist yfir í hlutverk helsta ráðgjafa hins 18 ára keisara og það var ári eftir embættistökuna sem Seneca skrifaði og tileinkaði Neró ritið De Clementia – sem mætti þýða Um miskunnsemina eða Um mildina. Seneca vonaðist til að ritið myndi vísa Neró veginn í embættisverkum sínum.

„Það sem Seneca reynir að gera með þessu riti er að hvetja þennan unga mann sem er orðinn einvaldur í heimsveldi til að tileinka sér góða siði, réttlæti og annað slíkt. Í ritinu eignar hann Neró þessa mannkosti strax, stimplar hann – eflaust í þeirri von að þá muni hann tileinka sér þessa kosti. Þetta er raunar eitthvað sem menn gera ennþá í dag, til dæmis þegar friðarverðlaun Nóbels voru veitt þá nýkjörnum forseta Bandaríkjanna Barack Obama – sem átti svo eftir að standa fyrir drónaárásum úti um allar trissur. Það voru svipuð hvatningarverðlaun,“ segir Geir.

Seneca hvetur hinn unga keisara til að stjórna af mildi og miskunnsemi, frekar en grimmd og hörku. Hann höfðar ekki bara til samvisku og ábyrgðar Nerós heldur einnig skynsemi og hégóma. „Mildin færir konungi öryggi fyrir opnum tjöldum. Ástúð þegnanna ein er vörn sem ekkert sigrar,“ skrifar Seneca á einum stað. Vald hans verði öruggt ef hann stjórni af mildi, hann verði dáður og dýrkaður og sagan muni fara mjúkum höndum um hann.

Siðspillti keisarinn Neró

En sagan hefur ekki farið mildum höndum um Neró. Hann varð enda þvert á það sem Seneca ráðlagði grimmur og miskunnarlaus stjórnandi, er sagður hafa lifað glysgjörnu og siðspilltu líferni, og haft lítinn áhuga á störfum keisara – vildi heldur vera listamaður. Sú mynd sem helst hefur lifað af honum er þar sem hann leikur á hörpu sína eða syngja á meðan Róm brennur í brunanum mikla árið 64.

„Neró hefur auðvitað ekki gott orðspor, en að undanförnu hafa sumir sagnfræðingar þó reynt að draga í land með það. Það er auðvitað ekki verið að reyna að fegra myndina, en reynt að hreinsa burt og skoða hvernig þetta var í raun og veru. Hann var við völd í fjórtán ár og það er langur tími til að vera óþokki. Framan af var hann ekki jafn slæmur og fólk vill vera láta, en ég held að það sé almennt samþykkt að hann hafi versnað með árunum,“ segir Geir.

Eftir því sem Neró varð sjálfstæðari frá Seneca og öðrum ráðgjöfum sínum fór að halla undan fæti. Grunsemdir Seneca um hvert stefndi gætu raunar hafa verið ástæða þess að seinni hluta bókarinnar er hvergi að finna. „Þetta gæti annars vegar verið vegna þess hvað geymdin er duttlungum háð – það gæti bara hafa hellst yfir handritið eða eitthvað. Hins vegar er möguleiki að Seneca hafi aldrei klárað bókina, og það er mögulegt að hann hafi einfaldlega gefist upp. Kannski sá hann snemma á hvaða vegferð þessi maður var. Kannski hefur hann séð að það væri tilgangslaust að segja Neró eitthvað um mildina.“

Eftir því sem harðstjórn Nerós versnaði sá Seneca sér ekki annað fært en að biðjast lausnar út starfi sínu sem ráðgjafi. Hann einbeitti sér að ritstörfum, en nokkrum árum síðar var hann bendlaður – líklega að ósekju – við misheppnað samsæri gegn keisaranum. Í kjölfarið var hann neyddur til að stytta sér aldur. Það gerði hann möglunarlaust. Eftir nokkur viskuorð til vina skar hann sig á púls og lét bera sig í gufubað þar sem lífið fjaraði úr honum – fullkomlega stóískur.

Tilfinningar eru geðveiki

Um mildina ber þess merki að vera texti skrifaður af heimspekingi í hefð stóuspekinga, en það var ein mest áberandi heimspekistefnan á helleníska tímanum í Grikklandi og Rómaveldi til forna.

„Stóuspeki er mjög kerfisbundin heimspeki þar sem áhersla er lögð á að lifa eftir náttúrunni, þar sem náttúran er skilin sem eðli mannsins, og eðli hans er skynsemin. Maður á alltaf að fara eftir skynseminni frekar en tilfinningum, sem eru álitnar einhvers konar geðveiki, þær horfa til rangra þátta í lífinu – eru vanstilltur siðferðisáttaviti,“ segir Geir.

Haukur Sigurðsson, fyrrverandi sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík, íslenskaði Um mildina og skrifaði fróðlegan inngang. Hann féll frá áður en ritið hafði verið búið til útgáfu. Um mildina er fyrsta rit Seneca sem kemur út á íslensku.
Í fyrsta skipti á íslensku Haukur Sigurðsson, fyrrverandi sögukennari við Menntaskólann í Reykjavík, íslenskaði Um mildina og skrifaði fróðlegan inngang. Hann féll frá áður en ritið hafði verið búið til útgáfu. Um mildina er fyrsta rit Seneca sem kemur út á íslensku.

Seneca leit þannig reiði og tilfinningalegt uppnám mjög neikvæðum augum. Maður ætti alltaf að búa sig undir það versta og framkvæma æfingar svo ekkert kæmi manni úr jafnvægi, hvorki lítil né mikil áföll. Þó að Um mildina sé ekki hans helsta heimspekirit kemur þessi afstaða skýrt í ljós í ritinu.

„Undir lokin gerir hann til dæmis greinarmun á mildi og vorkunnsemi. Vorkunnsemin byggir á tilfinningalegu mati, þú finnur til tilfinninga í garð einhvers vegna þeirra aðstæðna sem hann er í og sleppir honum – þó að hann verðskuldi kannski refsingu,“ segir Geir.

„Hjá Seneca snýst mildin að mestu leyti um refsingar. Einhver hefur brotið af sér, og þá er spurningin hvernig maður á að taka á því. Er mildin ekki bara einhver linkind? Einhverjir gætu sagt að hún væri í þágu þeirra seku – verstu mannanna – frekar en hinna saklausu. En svarið sem Seneca gefur er að mildin sé í þágu samfélagsins alls, það færir því værð og friðsemd og kærleika,“ segir Geir.

„Mildin á hins vegar að byggja á dómgreind en ekki tilfinningum, það á ekki að sleppa einhverjum sem verðskuldar refsingu heldur að beita vægustu úrræðunum sem eru viðeigandi. Sem dyggð, eða mannkostir, er mildin undirgrein af hófstillingu (temperantia eða moderatio) og er andstæðan við grimmd, hörku og offors.“

Það eru eflaust margir mannkostir sem geta komið keisara vel í að stýra ríki, af hverju leggur Seneca áherslu á mildina í leiðarvísi sínum?

„Þetta gæti stafað af því að stjórn Claudiusar gæti hafa verið duttlungafull í dómsmálum og hann sjálfur verið sendur í útlegð af þeim keisara – sem er þó almennt talinn sæmilega góður miðað við forrennara sinn og eftirmann. Kannski er mildin því viðbragð við réttarfari undangenginna ára.“

Bókin er áhugaverð lesning í sagnfræðilegu samhengi, en eru þetta vangaveltur sem geta átt erindi við líf venjulegs fólks ennþá í dag?

„Já, ég held að mildin eigi alveg við í dag. Það er kannski ekkert sérstaklega mikið vandamál hér hvað dómar eru þungir í réttarkerfinu, en við getum alveg litið í eigin barm. Hugsaðu þér bara dómstól götunnar, dómharkan er oft mikil. Við megum oft alveg við því að hafa svolítið taumhald á okkur, eins og fólk talar og skrifar um aðra.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 10 klukkutímum

Það sem Ferguson sagði við leikmenn er hann hætti – Fjölmiðlar skemmdu fyrir

Það sem Ferguson sagði við leikmenn er hann hætti – Fjölmiðlar skemmdu fyrir
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fékk sér húðflúr með nafni besta vinar síns sem féll frá í fyrra

Fékk sér húðflúr með nafni besta vinar síns sem féll frá í fyrra
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut

Þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut
433
Fyrir 13 klukkutímum

Leikjahæsti leikmaður í sögu Fram mun þjálfa liðið

Leikjahæsti leikmaður í sögu Fram mun þjálfa liðið