fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Gunnar Smári: „Ég ákvað því að elta þessa stúlku út úr hellinum, skilja þjáninguna eftir og taka sæng mína og ganga af stað“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 22. apríl 2018 19:00

Gunnar Smári.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Smári Egilsson var um áratuga skeið einn þekktasti blaðamaður og ritstjóri landsins. Nú stendur hann í sporum sósíalistaleiðtogans og berst fyrir því að rödd alþýðunnar fái að heyrast í borgarmálunum. Lífsskoðanir hans hafa mótast af uppeldi í fátækt og alkóhólisma og hans eigin baráttu við kerfið og sjúkdóminn. Kristinn Haukur ræddi við Gunnar Smára um æskuna, stéttabaráttuna og hlutverk blaðamennskunnar.

Þetta er brot úr stóru viðtali úr helgarblaði DV

 

Elti misnotaða stúlku út úr þjáningunni

Árið 1985 datt Smári fyrir tilviljun inn í blaðamennsku á dagblaðinu NT og þar opnaðist fyrir honum nýr heimur. Upp úr því kynntist hann konu og hóf sambúð með henni og kornungum syni hennar. En með tímanum reyndist erfitt að samrýma fasta vinnu, fjölskyldulíf og það drykkjumynstur sem hann var fastur í.

„Blaðamennskan var uppgötvun fyrir mér. Hún var lykill til að opna dyr að heiminum og mér fannst það stórkostlegt,“ segir Smári upptendraður. „Ég mátti skoða allt sem mér datt í hug. Fram að þessu var ég engu bundinn og hafði engar skyldur. Ég gat drukkið þegar ég vildi. En svo komu árekstrarnir við fjölskyldu sem ég elskaði og starf sem mér fannst mikilvægt og eftir fjögur ár var ég farinn í meðferð.“

Meðferðin bjargaði ekki sambandinu en þar lærði Smári hvað alkóhólismi er, arfgengur sjúkdómur sem á endanum tortímir sjúklingnum ef hann hættir ekki að drekka. Þar var honum einnig kennt að lausnin væri að vera ærlegur maður, standa við orð sín og koma hreint fram við aðra. Broddborgari sem borgar skattinn sinn og stendur sína plikt. Þessu tók Smári fagnandi og bókstaflega og gætti þess að halda samskiptum sínum við alla hreinum og skýrum. Á sama tíma fékk hann aukna ábyrgð í starfi þegar hann var ráðinn ritstjóri á Pressunni 1989.

„Ég stóð mína plikt en eftir nokkur ár kom í ljós að það var ekki nóg. Ég þurfti dýpri fyllingu í lífið. Ég var kominn í öngstræti sem manneskja sem er kannski best lýst með hugtökum úr guðfræðinni. Marteinn Lúther lýsir því hvernig hinn reiði guð gamla testamentisins setur ómanneskjulegar kröfur á manninn. Mannskepnan getur sett á sig meiri kröfur en hann getur staðið undir og hann fyrirgefur sjálfum sér ekki. Að lifa undir slíkum kröfum verður óbærilegt og þú verður að harðneskjulegri manneskju. Til að losna út úr þessu ástandi ákvað ég að byrja að drekka aftur. Það var leiðin sem ég kunni. Ég var enn alkóhólisti.“

Það var meðvituð og erfið ákvörðun. Fyrstu drykkina píndi hann ofan í sig og upplifði hvorki vímu né ánægju. Næstu helgi drakk hann aftur og helgina eftir það. Næstu þrjú árin var Smári meira og minna í dagdrykkju og á virkilega vondum stað í tilverunni.

„Ég vissi að leið AA og SÁÁ var leiðin út en hún var bara ekki fær mér. Ég hafði reynt hana en hún hafði ekki dugað. Það var því engin lausn í boði fyrir mig önnur en að drekka og væla ekki of mikið yfir örlögum mínum. Ég brenndi kertið í báða enda, vann mikið og drakk stíft þar til ég var orðinn þreklaus. Ég feikaði mig í gegnum daginn með gömlum töktum og stælum. Það var enginn neisti í skrifum mínum og ég var orðinn ráðalaus sem manneskja.“

Á þessum tíma hafði hann kynnst núverandi eiginkonu sinni, Öldu Lóu Leifsdóttur, en sambandinu stóð ógn af drykkjunni. Árið 1994 féllst Smári á að reyna aftur meðferð á Vogi án þess að hafa trú á henni. Í eftirmeðferðinni á Staðarfelli gerðist hins vegar nokkuð óvænt sem hann lýsir með bros á vör eins og kraftaverki.

„Þarna inni var ung stúlka frá Vestfjörðum sem hafði lifað ömurlega æsku, verið misnotuð, orðið fyrir ofbeldi og lifað við hryllilegar heimilisaðstæður. Hún hafði flúið veruleikann með því að drekka og dópa og særði sig og skar undir áhrifum, bar ör bæði að innan og utan. Einn daginn, þar sem við sátum í hópavinnu, hvert okkar lokað inni í sínum helli sjálfsvorkunnar, ákvað hún að stíga upp og út og yfirgefa þjáninguna. Ég sá á svipnum á henni að allt hafði breyst. Hún fór að tala um hvað hún vildi og hvert hún gæti farið. Ég hugsaði með mér að úr því að þessi stúlka gat yfirgefið sinn helli, sem hún svo sannarlega hafði allan rétt á að búa í, þá hlyti ég að geta yfirgefið minn auma sjálfsvorkunnarhelli. Morguninn eftir sá ég á yfirbragði stúlkunnar að hún var enn úti, björt og glöð. Ég ákvað því að elta þessa stúlku út úr hellinum, skilja þjáninguna eftir og taka sæng mína og ganga af stað. Síðan hef ég reynt að taka á móti lífinu með opnum faðmi og hlýju hjarta.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Málverk stjörnunnar vekur mikla athygli: Byrjaður að reyna fyrir sér sem listamaður – ,,Sá aðili hringdi aldrei í mig aftur“

Málverk stjörnunnar vekur mikla athygli: Byrjaður að reyna fyrir sér sem listamaður – ,,Sá aðili hringdi aldrei í mig aftur“
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni

KR fékk miðjumann úr sænsku úrvalsdeildinni
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd

Mótmælin á Tenerife – Vill ekki ferðamenn með „allt-innifalið“ armbönd
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar

Klopp svartsýnn og biðst afsökunar
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Pétur Einarsson látinn

Pétur Einarsson látinn
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall

Væri enn bestur í deildinni 80 ára gamall
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“