Fókus

Ari bjóst ekki við skítkasti fyrir að fella tár

Eurovision-farinn á leið til Litháen – Álit annarra skiptir ekki máli

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 10. mars 2018 15:00

Ari Ólafsson kom eins og þruma úr heiðskíru lofti inn í meðvitund Íslendinga eftir sigur í undankeppni Eurovision með lagið Our Choice. DV náði tali af Ara sem er á leið til Kaunas í Litháen þar sem hann mun stíga á svið á sunnudaginn. Ari er 19 ára leikari úr Vesturbænum, hefur leikið og sungið í tíu ár, og veit alveg hvað hann ætlar að gera í lífinu.

Mynd: Mummi Lú

Ómetanlegt tækifæri

„Ég er ekki í neinum vafa, það er alveg skothelt hvað ég ætla að gera í framtíðinni. Ég ætlaði alltaf að verða uppistandandi, svo var það var draumur að fara til Hollywood, en ég held að ég stefni frekar á Broadway í New York eða West End í London. Mig langar afar mikið að leika í söngleikjum og að halda áfram að búa til tónlist.“

Það náðist mynd af Ara þegar hann stóð stjarfur á sviðinu og trúði hreinlega ekki að hann væri á leið til Lissabon til að keppa fyrir Íslands hönd. „Það var margt fólk sem sá þetta, ég trúði ekki að ég myndi vinna. Nú er ég bara ótrúlega þakklátur og vakna brosandi á hverjum degi, núna þegar ég er á leið til Litháen er ég að ná því almennilega að ég sé að fara að syngja fyrir framan mörg hundruð milljónir. Þetta er ómetanlegt tækifæri.“

Mynd: Mummi Lú

Alveg sama um álit annarra

Netverjar fóru hamförum vegna þess að Ari grét í beinni útsendingu og var honum meðal annars líkt við Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, sem grét í sjónvarpssal fyrir síðustu alþingiskosningar. Ari segir að hann hafi ekki séð neinar neikvæðar athugasemdir. „Maður má alveg búast við þessu, mér er alveg sama hvað fólk segir. Ég veit að flestir vita að það er í lagi að sýna tilfinningarnar sínar og leyfa sér að vera hamingjusamur.“

Ari segist vera orðinn vanur því að fá háðsglósur og neikvæðar athugasemdir. „Þegar ég var ungur í söngleikjum þá voru litlir krakkar afbrýðisamir og sögðu eitthvað særandi. Ég bjóst alveg við þessu, ekki reyndar með grátinn, frekar að fólk myndi segja að ég ætti ekki að komast áfram eða eitthvað á þá leið. Hvað á ég að gera? Eina sem ég get gert er bara að brosa,“ segir Ari og hlær.

Ari Brynjólfsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana