Fókus

Sveppasúpa sem framkallar sæluvímu

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 8. október 2017 20:30

„Þetta er súpa sem hefur verið lengi í fjölskyldunni minni en mamma mín heitin, Elsa Kristín Jónsdóttir, á heiðurinn að uppskriftinni,“ segir Laufey Baldursdóttir sem rekur kaffihúsið Mom’s Secret á Listasafni Íslands.

Laufey rekur kaffihúsið í Listasafni Íslands ásamt dóttur sinni, Elsu. Þar bjóða þær meðal annars ljúffengar súpur sem flestar eru leyniuppskriftir frá móður Laufeyjar.
Mæðgur sem deila leyndarmáli Laufey rekur kaffihúsið í Listasafni Íslands ásamt dóttur sinni, Elsu. Þar bjóða þær meðal annars ljúffengar súpur sem flestar eru leyniuppskriftir frá móður Laufeyjar.

Mynd: Brynja

„Mamma elskaði að taka á móti gestum og bjóða upp á góðan mat. Hún var mjög á undan sinni samtíð með nýtingu hvers konar hráefnis og í að útbúa mat sem fólk hafði aldrei smakkað áður en þekktist kannski vel utan landsins. Til dæmis gerði hún pítsur löngu áður en veitingastaðir fóru að bjóða upp á þær hérlendis. Krakkarnir í hverfinu áttu ekki orð yfir þessu góðgæti sem þótti alveg ævintýri líkast.“

Mom's Secret er opið öllum og ekki þarf að greiða inn á safnið til að koma á kaffihúsið.

Listasafn Íslands er á Fríkirkjuvegi 7Safnið er opið frá 11.00–17.00 alla daga nema mánudaga.

Elsa Kristín sinnti fyrst og fremst húsmóðurstarfinu eins og flestar íslenskar konur af hennar kynslóð en hún sá líka um safnaðarheimili Víðistaðakirkju og var einnig titluð húsmóðir þar. Í Víðistaðakirkju slógu súpurnar hennar rækilega í gegn en Laufey tók svo við arfleifðinni þegar móðir hennar lést árið 1998.
„Ég sá um veitingar í safnaðarheimilinu í tvö ár eftir að móðir mín lést en svo flutti ég mig yfir í Listasafn Íslands og tók við kaffihúsinu. Hérna bjóðum við fyrst og fremst upp á ljúffengar súpur, matarmiklar súpur eins og til dæmis kjötsúpu, kjúklingasúpu, grænmetissúpu og svo þessa dásamlegu sveppasúpu svo fátt eitt sé nefnt. Við bjóðum líka upp á samlokur, brauð og salöt, til dæmis mjög ljúffengt síldarsalat með eplum. Og alltaf með nýbökuðu brauði. Gestir hafa hingað til verið alveg himinlifandi með súpurnar okkar og margir koma aftur og aftur og nota þá súpukort sem kostar tíu þúsund krónur. Mörgum finnst þetta mjög þægilegt, fyrir utan það að með þessu sparast tæplega fimm hundruð krónur fyrir hvern súpudisk,“ segir Laufey.

Hvernig týpur eru fastagestirnir sem koma helst á kaffihúsið?
„Þetta er gjarna fólk sem vinnur í sendiráðunum hérna í kring eða listunnendur. Fólk sem sækir í þetta rólega umhverfi sem er hérna. Það má líka segja að kaffihúsið sé hálfgert leyndarmál. Það er uppi á annarri hæð og margir vita bara ekki af því. Talandi um leyndarmál. Nafnið á kaffihúsinu, Mom’s Secret, er í raun tilvitnun í mömmu. Hún var oft spurð að því hvað væri í súpunum og þá svaraði hún alltaf sposk á svip „it’s a secret“. Mér finnst þetta frekar krúttlegt þar sem flestar uppskriftirnar okkar koma frá henni. Svo erum við líka með mynd af mömmu í lógóinu.“

UPPSKRIFT: Sveppasúpan sem allir, bókstaflega allir, elska

„Maður er að fá alls konar sveppasúpur úti um allan bæ en það er engin eins og þessi. Allir elska hana og þá meina ég bókstaflega allir,“ segir Laufey. Ég hef enn ekki hitt manneskju sem smakkar þessa súpu án þess að lýsa yfir hrifningu sinni. Svo er gaman að bæta því við að þessi súpa er algjörlega fullkominn forréttur ef það er góður fiskréttur í aðalrétt og þá sérstaklega með góðu, þurru hvítvíni. Tilvalinn hátíðarmatur. Eru ekki annars að koma jól rétt bráðum?“

50 g smjör
1 poki skalottlaukur
1 poki ferskt timjan (Garðablóðberg)
3–4 pakkar sveppir
1 l rjómi
1 l mjólk
1 sítróna
3 græmetisteningar

AÐFERÐ

Látið smjörið bráðna við miðlungshita í potti.
Skerið skalottlaukinn smátt og takið timjanlaufin af stönglunum.
Bætið svo lauknum og timjanlaufunum út í og leyfið því að krauma þangað til laukurinn er orðinn mjúkur.
Skerið sveppina í þunnar sneiðar og bætið út í pottinn og steikið þar til þeir eru orðnir mjúkir og safaríkir.
Þegar þetta hefur fengið að krauma saman í smá stund er rjómanum og mjólkinni bætt við.
Loks skal kreista safann úr sítrónunni og hella ofan í ásamt grænmetisteningunum.
Leyfið súpunni að hitna fram að suðu, alls ekki leyfa henni að sjóða út af rjómanum.

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin. Margrét nam sálfræði og forritun Kaupmannahöfn á þeim árum þegar tæknisinnaðir voru með símboða í beltinu og farsíminn vó sirka 450 grömm en lífsspeki hennar rammast í setningunni:

„Mart smart gerir eitt lekkert.“

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 4 dögum

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“

Andrea Jónsdóttir (69) hlaut Fálkaorðu í ár: „Ertu ekki að grínast?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“

Selma Björns er orðin athafnastjóri hjá Siðmennt: „Mér finnast trúarbrögð tímaskekkja í dag“