fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Ritdómur – Kláði eftir Fríðu Ísberg: Hið tímalausa og hið forgengilega

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 17. desember 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fríða Ísberg: Kláði

Útgefandi: Partus

197 bls.

Eitt af sláandi einkennum rússneska ritsnillingsins Anton Tsjekhovs er hvað smásögurnar hans eru nútímalegar. Sögur skrifaðar fyrir og um 1900, þar sem fólk fer ferða sinna í hestvögnum, en sálunum svipar til nútímamanna, margbrotinn breyskleikinn kunnuglegur, til dæmis hégómaskapur og sjálfsóöryggi. Besta saga bókarinnar Kláði, eftir Fríðu Ísberg, Prófíll, afskaplega fyndin, neyðarleg og þó líka sorgleg saga, um óörugga nútímakonu, sem þrífst á viðurkenningu í gegnum samfélagsmiðla, minnti mig á Tsjekhov – og það er ekki leiðum að líkjast. Eftir 50 ár verða kannski ekki til neinir samfélagsmiðlar eða þeir heita öðrum nöfnum og virka öðruvísi en í dag. En ég spái því að þessi saga verði jafnfersk og eigi jafnmikið erindi þá og í dag. Á öllum tímum eru til óöruggar manneskjur sem þrífast á áliti annarra.

Sögurnar í þessari bók tala mjög sterkt inn í samtímann og nafnið Kláði vísar til þess óþols og eirðarleysis sem einkennir líf nútímafólks.

Mynd: Saga Sig

Fríða Ísberg er afar spennandi ungur höfundur með frábæra stílgáfu, næmleika fyrir smátriðum og leiftrandi kímni. Viðtalið er til dæmis dásamlega fyndin saga um miðaldra konu sem þráir að láta nágranna sína vita af því að það er viðtal við son hennar í Fréttablaðinu. Sagan 1. apríl 2006 er bráðskemmtileg innsýn í huga unglingsstúlku, fjölskyldulíf hennar og menninguna sem ríkir í kringum fermingar. Sagan Ljósakrónan lýsir vandræðalegri sambúð miðaldra fólks með syni sínum og tengdadóttur sem eru fyrir löngu komin á þann aldur þegar tímabært er að eignast eigið heimili en ástandið í húsnæðismálum er eins og það er. Sagan afhjúpar meðal annars gjá á milli íhaldsamrar konu um sextugt og frakkrar og opinskárrar nútímakonu um þrítugt.

Sögurnar eru alls 14 og ekki hitta þær allar jafn vel í mark og þær sem hér að ofan er getið um. Sumar virka ómarkvissar, jafnvel dálítið hráar. Einhverjar kalla á þolinmæði lesandans sem er síðan ekki að fullu launuð. Dæmi um slíkar sögur eru Sumar konur og Einmitt. Einnig náði lokasagan Undanhlaup ekki til mín þó að það sé vissulega tilbreyting að fá bréfasögu í lok bókarinnar eftir nokkuð einhæfan frásagnarmáta út í gegn.

Vitanlega er þetta smekksatriði og ritdómur endurspeglar fyrst og fremst álit eins lesanda á viðkomandi bók. Engu að síður finnst mér bókin í heild ekki alveg standa undir því lofi sem hún hefur verið hlaðin. Fyrir utan dóm upp á fjórar og hálfa stjörnu í Fréttablaðinu má nefna annað sætið í bóksalaverðlaununum. Starfsfólk bókaverslananna er semsagt að senda þessum unga og efnilega höfundi, sem er rétt að hefja ferilinn, þau skilaboð að hún hafi skrifað næstbesta skáldverk þessarar blómlegu bókavertíðar. Miðað við aðrar nýjar bækur sem ég hef lesið (og sumar þær rómuðustu á ég ólesnar) er það full langt gengið – en dæmi hver fyrir sig.

Bestu sögurnar í Kláða eru lofsverðar og vekja mikla tilhlökkun eftir framíðarverkum þessa áhugaverða höfundar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“

„Ég ætla ekki að ljúga því að ég hafi verið dýrlingur, en ég var ekki nógu heimskur til að eyðileggja fjölskylduna okkar“
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta