fbpx
Laugardagur 15.desember 2018
Fókus

Ævintýraleg æskujól Lilju í Mexíkó: Húsið lenti í aurskriðu og skjaldbaka í jólamatinn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 24. nóvember 2018 08:00

Þegar hinn vinsæli glæpasagnahöfundur Lilja Sigurðardóttir er spurð út í eftirminnilegustu jólagjöfina frá æskuárunum kemur á daginn að lítið var um jólagjafir á hennar minnisstæðustu jólum. Fjölskyldan varð fyrir nokkru áfalli en jólunum var bjargað meðal annars með skjaldböku og klassískri barnabók eftir Guðrúnu Helgadóttur. Við gefum Lilju orðið og hún segir okkur þessa sérstæðu jólasögu:

Eftirminnilegustu jól æsku minnar voru nú einmitt jólin þegar það voru eiginlega engar jólagjafir. Það voru jólin sem ég var tíu ára en þá bjuggum við í litlu þorpi á Kyrrahafsströnd Mexíkó og höfðum farið í ferðalag niður til Belís að útvega áritun í passana okkar. Þegar við komum heim tveimur dögum fyrir jól hafði aurskriða farið í gegnum húsið okkar svo að eftir stóðu burðarstoðirnar með þakinu á. Svo að við mokuðum alla Þorláksmessu og fórum svo á pósthúsið að sækja jólagjafirnar frá Íslandi en þá var búið að stela þeim öllum nema íslenskri barnabók. Stundum kemur sér vel að tala tungumál sem enginn skilur. Mamma og pabbi fóru í einu búðina í þorpinu, Lúsíubúð, og keyptu sælgæti og einhverjar smágjafir og svo fór pabbi á stúfana að finna út úr jólamatnum. Honum leist ekki á kjötið sem var í boði í þorpinu, allt heimaslátrað og fremur matareitrunarlegt og við krakkarnir góluðum á kjöt því við vorum orðnir leiðir á túnfiskinum sem við höfðum aðallega lifað á þar sem hann var undirstaða aðalatvinnuvegar þorpsins. Svo að úr varð að honum var útveguð nýveidd skjaldbaka og mamma eldaði kjötið á sinn snilldarmáta svo að úr varð hinn besti jólamatur. Það er vert að taka það fram að þetta var fyrir tíma alfriðunar á sjóskjaldbökum og skjaldbökukjöt var venjulegur matur í þorpinu þar sem við bjuggum. Ég á skelina af skjaldbökunni ennþá og hún hangir uppi á vegg hjá mér. Eftir matinn fórum við niður á strönd og kveiktum varðeld, sungum jólalög og lásum upp úr barnabókinni. Þetta var bók eftir Guðrúnu Helgadóttur sem Þráinn Bertelsson og Sólveig höfðu sent okkur. Þetta urðu hin jólalegustu jól eftir allt saman og urðu til þess að við gerðum okkur öll grein fyrir að þótt að það sé gaman að ýmsum jólasiðum þá er enginn þeirra ómissandi nema samvera með fjölskyldunni og kannski ný bók.

Lilja varðveitir enn skelina af skjaldbökunni góðu

Svik: Pólitísk spennusaga

Lilja hefur notið sívaxandi vinsælda sem glæpasagnahöfundur undanfarin ár og hlotið margs konar viðurkenningar. Nýjasta sagan hennar ber heitið Svik, hröð og hörkuspennandi saga um völd og valdaleysi, ofbeldi og þöggun; um að bregðast trausti og svíkja gefin loforð. Um söguþráðinn segir í tilkynningu frá útgefanda:

„Úrsúla er nýlega flutt til Íslands eftir áralöng störf á hættusvæðum heimsins. Rólegt hversdagslífið í Reykjavík hentar henni engan veginn, svo að hún grípur fegins hendi óvænt boð um að taka sæti í ríkisstjórn landsins: þar getur hún aftur látið til sín taka!

En stjórnmálin eru refskák og fjölmiðlar vaka yfir hverju fótmáli nýja ráðherrans. Við bætist að gamall útigangsmaður eltir hana á röndum og virðist vilja vara hana við yfirvofandi hættu. Getur verið að hann búi yfir vitneskju sem ógnar einhverjum í innsta hring?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Snarlúkkar þessi kerra!
Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

Ragga nagli komin með Heilsuvarp

Ragga nagli komin með Heilsuvarp
Fókus
Fyrir 23 klukkutímum

DV Tónlist : FM Belfast í beinni útsendingu kl. 13.00

DV Tónlist : FM Belfast í beinni útsendingu kl. 13.00
Fókus
Í gær

Allir gráta og Minningarsjóður Einars Darra færa leik- og grunnskólum kærleiksgjöf

Allir gráta og Minningarsjóður Einars Darra færa leik- og grunnskólum kærleiksgjöf
Fókus
Í gær

Frægir sem hata jólin – „Hvílík sóun á pappír!“

Frægir sem hata jólin – „Hvílík sóun á pappír!“
Fókus
Í gær

Dillon og Bulleit safna fyrir Geðhjálp og Rauða krossinn – Húðflúr gegn myrkrinu

Dillon og Bulleit safna fyrir Geðhjálp og Rauða krossinn – Húðflúr gegn myrkrinu
Fókus
Í gær

Tónlistarspekúlantar hafa fundið formúlu hins fullkomna jólasmells

Tónlistarspekúlantar hafa fundið formúlu hins fullkomna jólasmells
Fókus
Í gær

Hrafn var búinn að hringja um allt – Fann það sem hann vantaði á spottprís í Costco

Hrafn var búinn að hringja um allt – Fann það sem hann vantaði á spottprís í Costco
Fókus
Í gær

Ævar vísindamaður með Þína eigin auglýsingu – Sjáðu myndbandið

Ævar vísindamaður með Þína eigin auglýsingu – Sjáðu myndbandið