Arnar Hallsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu er afar ósáttur með hvernig staðið er að málum í Mosfellsbæ.
Aðstöðuleysi í Mosfellsbæ er mikið þegar kemur að öllum íþróttum að mati Arnars sem skrifar pistil í Mosfelling.
Fólk í íþróttahreyfingunni í Mosfellsbæ hefur kvartað mikið síðustu ár en fögur loforð frá bæjarstjórn hafa ekki skilað sér á borðið.
,,Íþróttamannvirki að Varmá í eigu Mosfellsbæjar eru í slíkri niðurníðslu að leit er að öðru eins. Keppnisvöllurinn er ónýtur, grasrótin er að mestu dauð og völlurinn ónothæfur. Frjálsíþróttabrautin er stórskemmd og í mikilli niðurníðslu,“ skrifar Arnar.
,,Tungubakkasvæðið er orðið að nothæfu beitilandi fyrir hross en vart nothæft til íþróttaiðkunar því það er svo óslétt að iðkendum beinlínis stafar hætta af. Búningsklefum hefur ekki verið haldið við í áraraðir og anna engan veginn þeirri fjölbreyttu og miklu íþróttastarfsemi sem er í gangi í bænum. Ungir knattspyrnuiðkendur mega mæta fullklæddir á æfingar og geta ekki farið í sturtu að þeim loknum. Búningsaðstaða meistaraflokks karla og kvenna í knattspyrnu er með því óþrifalegra og sorglegra sem finnst hérlendis. Búningsklefi meistaraflokks karla í handknattleik er sennilega gróðrarstía myglu því fúgunni í sturtuklefanum hefur fyrir löngu skolað burt. Rétt er að halda því til haga að nýlega var skipt um gervigras á æfingavelli félagsins og að sama skapi rétt að láta fylgja að það var þá eitt elsta og versta gervigras landsins.“