Arsenal 4-2 Tottenham
1-0 Pierre-Emerick Aubameyang(víti, 10′)
1-1 Eric Dier(30′)
1-2 Harry Kane(34′)
2-2 Pierre-Emerick Aubameyang(56′)
3-2 Alexandre Lacazette(74′)
4-2 Lucas Torreira(77′)
Það var boðið upp á frábæran fótboltaleik á Emirates vellinum í London í dag er Arsenal og Tottenham áttust við í ensku úrvalsdeildinni.
Það er mikill rígur á milli þessara liða enda um grannaslag að ræða og var ekkert gefið eftir á grasinu.
Arsenal komst yfir snemma leiks er Pierre-Emerick Aubameyang skoraði úr vítaspyrnu sem dæmd var á Jan Vertonghen fyrir hendi innan teigs.
Forystan entist ekki of lengi en Eric Dier jafnaði metin fyrir gestina 20 mínútum síðar með skalla eftir aukaspyrnu.
Stuttu eftir það komst Tottenham svo í 2-1 er Harry Kane steig á vítapunktinn hinum megin. Brotið var á Heung-Min Son innan teigs og nýtti Kane tækifærið og skoraði örugglega.
Staðan var 2-1 fyrir Tottenham í hálfleik en nokkuð snemma í þeim síðari jafnaði Aubameyang metin fyrir Arsenal og skoraði sitt annað mark með fallegu skoti sem Hugo Lloris réð ekki við.
Varamaðurinn Alexandre Lacazette skoraði svo þriðja mark liðsins á 74. mínútu og staðan orðin 3-2.
Miðjumaðurinn Lucas Torreira gerði svo út um leikinn þremur mínútum síðar og kom þeim rauðu í 4-2.
Vertonghen fékk sitt annað gula spjald á 85. mínútu leiksins og spilaði Tottenham með tíu menn síðustu tíu mínúturnar.
Arsenal fer upp fyrir Tottenham og í fjórða sæti deildarinnar en er aðeins með betri markatölu eftir sigurinn.