Hanna Símonardóttir, sjálfboðaliði hjá Aftureldingu er afar ósátt hvernig aðstaðan til knattspyrnuiðkunnar er í Mosfellsbæ.
Bæjarfélagið á nú lið í næst efstu deild í bæði karla og kvennaflokki en þrátt fyrir það er aðstðan í sama gæðaflokki og árið 1960, að sögn Hönnu.
Hanna skrifar pistil í Mosfelling sem birtist í dag og segir að endalausir fundir þar sem fyrirheitin eru fögur, gefi ekkert að lokum.
Lengi hefur verið rætt um að knatthús ætti að rísa í bænum en ekkert hefur gerst.
,,Hversu oft hef ég, sjálfboðaliði til yfir 20 ára, farið vongóð heim af fundum höldnum af Aftureldingu og/eða Mosfellsbæ varðandi úrbætur í aðstöðumálum? Ég hef ekki tölu á þeim en finnst lítið sem ekkert hafa áunnist þrátt fyrir fögur fyrirheit,“ skrifar Hanna í pistli sínum.
,,Aðstöðuleysið, sem er óumdeilanlegt, hefur þau áhrif að erfiðara er að fá sjálfboðaliða til að taka að sér verkefni þar sem enginn hlutur á sér samastað. Slegist er um hvern krók og kima til allra hluta bæði tengdum æfingum og félagsstarfi. Ætli vangaveltur um aðstöðuleysi í klefa- og félagsmálum sé ekki efni í næstu grein hjá mér hér í Mosfellingi? Í þessari umræðu má þó ekki gleyma því að starfsfólkið í íþróttamiðstöðvunum og á skrifstofu Aftureldingar á hrós skilið fyrir að vera ávallt boðið og búið til að aðstoða.“
,,Lokaniðurstaðan eftir samanburð á vallaraðstöðu 1960 og í dag er sú að einn völlur sem dugði 700 íbúum til knattspyrnuiðkunar þá, á að duga fyrir rúmlega 11.000 íbúa í dag. Er ekki eitthvað bogið við það?
Gleðilegt komandi Inkasso-sumar, vonandi í bættri aðstöðu.“