Hörður Snævar Jónsson skrifar frá Rússlandi:
Íslenska landsliðið var að ljúka við sína fyrstu æfingu í Rússlandi en möguleiki er á að þjálfarinn, Heimir Hallgrímsson láti af störfum eftir mót.
Samningur Heimis er á enda eftir mótið og hefur hann ekki viljað binda sig eða taka ákvörðun fyrr en að móti loknu.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ hefur reglulega rætt við Heimi en þeir hafa sett allt spjall til hliðar undanfarið. Einbeitingin er á góð úrslit á HM í Rússlandi.
Meira:
Guðni Bergsson í Rússlandi – ,,Það er góður andi í hópnum“
,,Ekkert nýlega, við erum að einbeita okkur að HM. Ég og Heimir höfum rætt saman í nokkur skipti og það er góður skilningur okkar á milli, ég hef skilning á hans stöðu og hann okkar,“ sagði Guðni við fjölmiðla í dag.
,,Ég er bjartsýnn á að við náum saman eftir mót, ytri aðstæður skipta máli. Ef það kemur eitthvað mjög svo spennandi tilboð til hans, þetta er seinni tíma mál.“
,,Við erum með plan B og C, við erum búnir að hugsa það.“