Lokakeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta er stærsta og vinsælasta íþróttamót heims. Í gegnum árin höfum við Íslendingar þurft að horfa á viðureignir stóru þjóðanna og þurft að velja okkur landslið annarra þjóða til þess að styðja og halda upp á. Sumir hrífast af leikmönnum ákveðinna þjóða en aðrir velja sér landslið út frá einhvers konar tengingu við landið, til dæmis vegna fyrri búsetu.
Eins og flestir vita geta Íslendingar fylgst með sínu eigin liði á HM í ár en þó er alltaf gott að hafa varaáætlun ef allt fer á versta veg. DV fór því á stúfana og spurði þekkta Íslendinga hvað væri lið nr. 2 á HM í Rússlandi.
Siggi Hlö
„Ítalirnir hafa alltaf verið mínir menn en þeir þurftu að sitja eftir með sárt ennið í ár,“ segir útvarpsmaðurinn góðkunni. Af þeim sökum vonar Siggi að Englendingar fari að láta að sér kveða enda sé hann mikill áhugamaður um enska boltann. „Englendingar verða mitt lið númer tvö. Það væri samt gaman að slá þá út aftur,“ segir Siggi og hlær.
Máni í Harmageddon:
„England. Íslendingar elska enskan fótbolta meira en allt. Ég bara skil ekki landa mína sem styðja ekki enska landsliðið,“ segir Máni.
Eliza Reid:
„Þar sem hvorki Kanada né Skotland komust í lokakeppnina þá er of erfitt fyrir mig að velja annað lið. Það er bara Ísland alla leið fyrir mig.“