„Þetta er bara frábært. Við erum búnir að hlakka til að komast hingað og allt aðrar aðstæður en við vorum með heima. Vellirnir þar voru ekki í toppstandi, þungir, og maður sá það líka í leikjunum. Það voru margir þungir í leikjunum. Það er tilvalið að komast í hitann hérna og á góða velli,“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, eftir æfinguna í Gelendzhik í morgun.
Íslenska liðið æfði við frábærar aðstæður en um var að ræða fyrstu æfingu liðsins eftir komuna til Rússlands í gærkvöldi. Sól og blíða er í Gelendzhik í dag og er hitinn nálægt 30 gráðum. Helga finnst ekki leiðinlegt að komast í hitann og nefndi hann í samtali við 433.is eitt atriði sem hann saknar alls ekki.
„Ég sakna þess ekkert að þurfa að skafa af bílnum áður en ég fer á æfingu,“ sagði Helgi í léttum tón og vísaði í vætutíðina og kuldann sem var í borginni þegar landsliðið kom saman. Hann sagði að strákunum liði vel á hótelinu – teymið í kringum landsliðið hefði gert allt til búa til sem bestar aðstæður.
Helgi sagði að þó að einbeitingin nú væri öll á leikinn gegn Argentínu á laugardaginn væri ekki komin nein sérstök spenna í hann fyrir leikinn. „Við erum ennþá að koma okkur fyrir. Það var mikil vinna í nótt hjá mörgum og það voru margir sem sváfu lítið. Það þarf að raða öllu inn, pakka öllu upp og hafa allt klárt,“ sagði hann.
Það vakti athygli í gær þegar flugi liðsins seinkaði vegna mistaka hjá Heimi Hallgrímssyni. Hann setti töskuna sína í ranga rútu sem var á leið til Stykkishólms. Helgi brosti þegar hann var spurður hvort hann hefði skammað landsliðsþjálfarann.
„Hann ætlaði að flýta fyrir en henti þessu bara í vitlausa rútu. Óvanalegt af honum því tölvan hans var í töskunni og ég hef aldrei séð hann án tölvunnar. Að hann hafi hent henni inn í einhverja rútu sem var á leiðinni norður. Það var nýtt.“
Viðtalið við Helga má sjá hér að neðan: